Helgihald er að heiðra vatnið, ísjakana, mosann og krækiberin
Í síðustu viku fór fram athyglisverð ráðstefna í Ástjarnarkirkju.
Ráðstefnan var haldin af Prestafélagi Íslands í samvinnu við Áhugafélag um guðfræðiráðstefnur.
Það er alltaf ánægjuefni að fá virtan fræðimann og kennara til að lífga upp á guðfræðilegar umræður og að þessu sinni var helgihaldið til umræðu.
Cláudio Carvalhaes frá Union Theological Seminar í New York kom til landsins til að kenna og vera með vinnustofur á ráðstefnunni.
Áhugahópur um guðfræðiráðstefnur hefur í nokkur ár staðið fyrir samverum með þekktum erlendum fræðimönnum á sviði kennimannlegrar guðfræði.
Finna má upplýsingar um Áhugahópinn hér.
Cláudio Carvalhaes, guðfræðingur og sérfræðingur í helgihaldi leiddi fyrirlestra, helgihald og vinnustofur.
Cláudio er listamaður og leikskáld sem lætur sér annt um jörðina og hugsar á skapandi hátt um umhverfismál.
Hann ólst upp í São Paulo í Brasilíu en er nú prófessor á sviði helgihalds við Union Theological Seminary í New York.
Haustið 2023 fékk Carvalhaes viðurkenningu sem Skapandi leikskáld (The Most Creative Play) á The New York Theater Festival.
Viðurkenninguna fékk hann fyrir leikritið When Wajcha Meets Pachamama.
Dr. Cláudio Carvalhaes lauk doktorsgráðu í helgisiðafræðum og guðfræði frá Union Theological Seminary í New York City árið 2007.
Áður hafði hann lokið meistaragráðu í guðfræði, heimspeki og sögu frá Methodist University í Sao Paulo og einnig lauk hann embættisprófi í guðfræði frá the Independent Presbyterian Theological Seminary í Sao Paulo í Brasilíu árið 1992.
Dr. Carvalhaes kom til Union Seminary árið 2016, en áður hafði hann kennt við McCormick Theological Seminary, Lutheran Theological Seminary í Fíladelfíu og Louisville Presbyterian Theological Seminary.
Um 30 guðfræðingar, prestar og djáknar, eru skráðir á ráðstefnuna í Ástjarnarkirkju.
Helgihald er að heiðra vatnið, ísjakana, mosann og krækiberin
Þátttakendur höfðu margt að segja um upplifunina af ráðstefnunni og því að hlusta á dr. Cláudio.
Elínborg Sturludóttir dómkirkjuprestur í Reykjavík kunni að meta hvernig fyrirlesarinn höfðaði með litríkum hætti til endurtúlkunar tákna sem tala til samtímans og áhersluna á hvernig hægt er að upplifa guðdóminn með öllum skynfærunum.
“Þetta kallast mjög á við hugmyndafræði pílagrímsins og kyrrðarbænarinnar, að fá að sleppa í smástund rökhugsun og skynsemi og bara fá að vera”
sagði Elínborg.
Guðbjörg Jóhannesdóttir sóknarprestur í Laugardalsprestakalli í Reykjavík sagði um ráðstefnuna:
“Þetta var hvetjandi, fræðandi og gefandi samvera.
Hún gróðursetti í okkur þá dásamlegu sýn að horfa á prédikunina sem tilbeiðslu og tilbeiðsluna sem prédikun.
Að allir hlutar helgihaldsins eru samtvinnaðir, ein eining.
Það er líka ögrandi að fá að hugsa um það brýna verkefni að stækka táknin og útvíkka, svo þau verði meira heilandi og nærandi.
Að fá að hugleiða hvaða tákn það eru sem við getum og viljum færa áfram til næstu kynslóðar.
Spurning prestsins til sjálfs sín er því hvaða guðfræði er köllun þín og hvert kallar hún þig, hvaða guðfræði er það sem þú berð með þér inn kirkjugólfið”
segir Guðbjörg.
Núvitund og tengingin við umhverfið kallaði líka fram skemmtilegar tengingar eins og hjá Arnóri Bjarka Blomsterberg, sóknarpresti í Ástjarnarprestakalli sem nálgaðist núvitundina með því að reyna að setja sig inn í hugarheim hundsins síns.
“Og eftir smástund var ég farin að hugsa um krækiberin sem vaxa í lynginu hér fyrir utan Ástjarnarkirkju”
sagði Arnór Bjarki sem alla jafna kallar sig Nóa.
En náttúran og tengingin við sköpunina var sístætt þema í erindum dr. Cláudio.
“Öll náttúran birtir okkur ást Guðs og náð hans.
Þess vegna er það helgihald að heiðra vatnið, ísjakana, mosann og krækiberin, sem eiga og þurfa líka að tengjast boðuninni í prédikunarstólnum”
segir Cláudio Carvalhaes.
Hér fyrir neðan má sjá myndir af mosaíhugun, Cláudio með Karli Olgeirssyni og Jóni Rafnssyni, og loks mynd af Carvalhaes hjónunum í Skálholtsdómkirkju.
slg