Laust sóknarprestsstarf
Biskup Íslands óskar eftir sóknarpresti til þjónustu í Reykholtsprestakalli, Vesturlandsprófastsdæmi.
Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf 1. desember 2024.
Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021-2022 og starfsreglna um presta nr. 6/2023-2024.
Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.
Reykholtsprestakall
Reykholtsprestakall er í Vesturlandsprófastsdæmi.
Prestakallið nær yfir efri hluta Stafholtstungna, Hvítársíðu, Hálsasveit, Reykholtsdal, Flókadal, Bæjarsveit, Andakíl, Lundarreykjadal og Skorradal.
Í prestakallinu eru sex sóknir, Bæjarsókn, Fitjasókn, Hvanneyrarsókn, Lundarsókn, Reykholtssókn og Síðumúlasókn.
Prestsbústaður er í Reykholti og þar er starfsaðstaða sóknarprestsins.
Kirkjurnar eru átta talsins auk einnar kapellu.
Vísað er til þarfagreiningar fyrir prestakallið varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið.
Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna og önnur kirkjuleg stjórnvöld.
Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8 gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.
Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjanda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.
Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.
Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.
Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.
Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.
Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.
Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.
Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni.
Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.
Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.
Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.
Tengil á eyðublaðið er að finna hér.
Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.
Er einkum vísað til starfsreglna um presta.
Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.
Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.
Sr. Gunnar Eiríkur Hauksson, prófastur við ráðningarferli þetta, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 865 9945 eða á netfangið gunnar.eiríkur.hauksson@kirkjan.is.
Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni, s. 528 4000, eða á netfangið ragnhilduras@kirkjan.is.
Umsóknarfrestur er til miðnættis 17. október 2024.
Sækja ber rafrænt um starfið hér á vefnum og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.
Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.
Þjóðkirkjan hvetur öll kyn til að sækja um starfið.
Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti.
Hér er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.
Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.
Þarfagreining:
Reykholtsprestakall er í Vesturlandsprófastsdæmi.
Prestakallið nær yfir efri hluta Stafholtstungna, Hvítársíðu, Hálsasveit, Reykholtsdal, Flókadal, Bæjarsveit, Andakíl, Lundarreykjadal og Skorradal.
Í prestakallinu eru sex sóknir, Bæjarsókn, Fitjasókn, Hvanneyrarsókn, Lundarsókn, Reykholtssókn og Síðumúlasókn.
Kirkjurnar eru átta talsins auk einnar kapellu.
Prestakallið er víðfeðmt.
Fjarlægð kirkna í prestakallinu frá Reykholti er:
Síðumúlakirkja 18 km., Gilsbakkakirkja 17 km., Húsafellskapella 23 km., Stóra Áskirkja 14 km., Bæjarkirkja 17 km., Lundarkirkja 28 km., Hvanneyrarkirkja 30 km., Fitjakirkja 44 km.
Í prestakallinu eru þéttbýliskjarnar á Hvanneyri og í Reykholti og vaxandi byggð á Húsafelli með vaxandi umsvifum og starfsemi.
Að öðru leiti eru sveitasóknir.
Íbúar í prestakallinu eru 1105.
Í þjóðkirkjunni eru 680 og þar af eru 132 yngri en 16 ára.
Sóknirnar eru: Bæjarsókn er með 75 íbúa, Fitjasókn er með 7 íbúa, Hvanneyrarsókn er með 431 íbúa, Lundarsókn er með 74, Reykholtssókn er með 447 íbúa og þar eru kirkjur í Reykholti, Gilsbakka, Stóra-Ási og kapella á Húsafelli.
Síðumúlasókn er með 61 íbúa.
Grunnskóli Borgarfjarðar er á Kleppjárnsreykjum, Hvanneyri og á Varmalandi.
Landbúnaðarháskóli Íslands er á Hvanneyri.
Félagsheimili í prestakallinu eru: Brúarás í Hálsasveit, Logaland í Reykholtsdal, Brún í Bæjarsveit og Brautartunga í Lundarreykjadal.
Dvalarheimili aldraðra, Brákarhlíð, er í Borgarnesi.
Leikskólar eru á Kleppjárnsreykjum og á Hvanneyri.
Sóknarpresturinn þarf að hafa frumkvæði og vera fjölhæfur og sem hæfastur í að laða að sér sóknarfólk til starfa og fá fólk til að sækja kirkjulegar athafnir og tilbúinn að starfa með sóknanefndum um messuhald og annað kirkjustarf.
Sóknarprestur verði virkur og sýnilegur í samfélaginu, vökull og fylgist með líðan fólks.
Einnig er mikilvægt að sóknarprestur verði virkur í barna og unglingastarfi sem og fermingarfræðslu.
Vert er að geta þess að fjöldi fólks er í frístundahúsum á nokkrum stöðum í prestakallinu, sem getur gefið tilefni til nýbreytni í kirkjulegri þjónustu, t.d. mætti bjóða upp á fræðslu og bænastundir í litlu kirkjunum í sóknunum.
slg