Góð þátttaka í fjölbreyttum fermingarstörfum

8. október 2024

Góð þátttaka í fjölbreyttum fermingarstörfum

Háteigskirkja

Nú eru fermingarstörfin komin í fullan gang í kirkjum landsins og fréttaritari kirkjan.is hefur komist á snoðir um að þátttakan sé óvenjugóð í ár.

En söfnuðirnir hafa ólíka tilhögun á starfinu.

Sumir söfnuðir bjóða börnunum á viku námskeið áður en skólarnir hefjast þar sem fræðsluefni vetrarins er kennt.

Fara þessi vikunámskeið annað hvort fram í heimakirkjunum eða í Vatnaskógi.

Samt sem áður eru þó nokkrir söfnuðir sem halda í þann gamla sið að hitta fermingarbörnin einu sinni í viku.

Á næstu vikum mun verða sagt frá hinu fjölbreytta fermingarstarfi kirkjunnar á kirkjan.is

Fréttaritari grennslaðist fyrir um það hvernig fermingarstörfunum er háttað í Háteigskirkju í Reykjavík.

Helga Soffía Konráðsdóttir sóknarprestur og Ása Laufey Sæmundsdóttir prestur eru með fasta dagskrá fyrir veturinn þannig að börnin vita nákvæmlega hvað á að taka fyrir í hverjum tíma.

Síðan mæta þau í messu á sunnudögum.

Sunnudaginn 25. ágúst var skráningarmessa þar sem börnin komu í fylgd foreldra sinna.

Í fyrsta tímanum sem er á fimmtudögum var farið yfir hvað ætti að gera í vetur.

Næstu þrjá fimmtudaga var farið yfir Faðir vorið og bænina, altarisgönguna og skírnina.

Þann 26. september kom organistinn Erla Rut Káradóttir í heimsókn og talaði við börnin um tónlist og tilfinningar og hvað tónlistin skiptir miklu máli í helgihaldinu.

Hún sýndi þeim orgelið og leyfði þeim að koma við það og átta sig á hinum ýmsu röddum þess.

Að lokum spilaði hún óskalög barnanna á orgelið.

Þann 3. október komu tveir gestir í heimsókn þeir Páll Skaftason og Óskar Hraundal Tryggvason frá Orðinu sem áður hét Gideonfélagið.

Þeir afhentu börnunum Nýja testamentið með Sálmunum og Orðskviðunum og kenndu þeim að fletta upp í þessari mikilvægu bók.

Næstu tvo tíma munu prestarnir fjalla um Biblíuna.

Í síðasta tímanum í október er heimsókn frá Hjálparstarfi kirkjunnar á dagskrá því að í næsta tíma á eftir taka börnin þátt í söfnun Hjálparstarfsins og fá pizzuveislu á eftir.

Síðustu þrjá tímana í nóvember verður farið í trúarjátninguna, fyrsti tíminn er um föðurinn, annar um soninn og þriðji um heilagan anda.

Fermingarstörfin hefjast svo aftur eftir áramót þann 16. janúar og í fyrstu fjórum tímunum á nýju ári verður farið yfir boðorðin tíu.

Helgina 31. janúar til 2. febrúar verður ferð í Vatnaskóg.

Fimmtudaginn 13. febrúar verður fjallað um kristniboðið og í næsta tíma þar á eftir um sorg og dauða í lífi manns.

Síðasti tíminn í febrúar verður um píslasöguna og síðan verður upprisan til umræðu í fyrsta tímanum í mars.

Síðustu tímarnir fjalla síðan um kirkjuna í heiminum, siði og venjur og hátíðir kirkjuársins.

Fermingar í Háteigskirkju fara fram sunnudaginn 6. apríl, 13. apríl og 21. apríl.

 

slg


  • Biblían

  • Ferming

  • Fræðsla

  • Heimsókn

  • Hjálparstarf

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Þjóðkirkjan

  • Tónlist

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði