Jazzverk um Allt eins og blómstrið eina

17. október 2024

Jazzverk um Allt eins og blómstrið eina

Sandgerðiskirkja

Eins og fram hefur komið á kirkjan.is, þá eru margir viðburðir í kirkjum landsins nú í október í tilefni af 350. ártíð Hallgríms Péturssonar.

Viðburðir eru í Hallgrímskirkjunum tveimur í Reykjavík og á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd þar sem sálmaskáldið þjónaði sem prestur og samdi Passíusálmana.

Þar er hann einnig grafinn og Guðríður Símonardóttir kona hans.

Nýlega var afhjúpaður minningarsteinn í kirkjugarðinum á Saurbæ til minningar um þau hjón.

En Hallgrímur þjónaði einnig sín fyrstu prestsskaparár á Hvalsnesi suður með sjó.

Þar verður skáldsins einnig minnst í tilefni þessarar tímamóta.

Sunnudaginn 20. október verða haldnir tónleikar í Sandgerðiskirkju þar sem einu þekktasta ljóði Hallgríms Péturssonar verða gerð skil á mjög nýstárlegan hátt.

Tónleikarnir eru hluti af Hallgrímshátíð  sem haldin verður í Hvalsnessókn þennan sama dag.

Verkið Um dauðans óvissan tíma er tónverk fyrir orgel, kór og jazzhljómsveit, við samnefnt ljóð Hallgríms Péturssonar, betur þekkt sem Allt eins og blómstrið eina.

Það er unnið út frá lagi Sólmundar Friðrikssonar við sálminn og er afrakstur samstarfs hans við Agnar Má Magnússon jazzpíanóleikara og Arnór Vilbergsson kantors Keflavíkurkirkju.

Sólmundur leggur til lag sitt og þeir Agnar og Arnór flétta saman sínar útsetningar við ljóðið.

Öll erindi ljóðsins, 13 að tölu, verða flutt, ýmist lesin og sungin af kór og í einsöng.

Verkið er samið fyrir og flutt af jazzhljómsveit og Kór Keflavíkurkirkju undir stjórn Arnórs, sem leikur einnig á orgel, og jazzhljómsveit undir stjórn Agnars Más, sem sér um píanóleik.

Í hljómsveitinni er valinn maður í hverju rúmi en með Agnari leika þau Birgir Steinn Theodórsson á kontrabassa, Haukur Gröndal á saxófón og klarinett, Marína Ósk Þórólfsdóttir syngur og Matthías Hemstock leikur á trommur.

Sólmundur mun svo einnig koma að söng og sjá um upplestur.

Verkefnið Um dauðans óvissan tíma er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja og Kjalarnessprófastsdæmi.

Tónleikarnir verða eins og áður sagði sunnudagskvöldið 20. september í Sandgerðiskirkju og hefjast þeir kl. 20:00.

Aðgangur er ókeypis.


slg


  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Menning

  • Nýjung

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Kirkjustaðir

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls