Mikil menningarvika í Neskirkju
Menningarvika verður í Neskirkju vikuna 27. október – 2. nóvember í tilefni af 350. ártíð Hallgríms Péturssonar sálmaskálds.
Sunnudaginn 27. október kl. 11:00 verður hátíðarmessa á dánardegi Hallgríms.
Skúli S. Ólafsson sóknarprestur Nesprestakalls og Örn Bárður Jónsson fyrrum sóknarprestur þar þjóna í messunni.
Sálmar og kórverk eftir Hallgrím Pétursson verða flutt og orgelverkið „1674" verður frumflutt, en það var árið 1674 sem sálmaskáldið lést.
Þriðjudaginn 29. október kl. 20:30 verða orgetónleikar.
Þá leikur Steingrímur Þórhallsson organisti kirkjunnar orgelverk eftir samtímamenn Hallgríms.
Miðvikudaginn 30. október kl. 20:30 verða flutt einsöngsverk við texta Hallgríms.
Tinna Sigurðardóttir sópran syngur við undirleik Steingríms Þórhallssonar á píanó.
Laugardaginn 2. nóvember kl. 17:00 verður lokaviðburður menningarvikunnar.
Þá verða kórtónleikar Kórs Neskirkju.
Dagskráin ber yfirskriftina Hallgrímur í tali og tónum.
Þar verða flutt kórverk við texta Hallgríms.
Á dagskrá verður Kvöldvers eftir Tryggva Baldvinsson, Ölerindi eftir Gunnar Reyni Sveinsson, Fyrir mig Jesú þoldir þú eftir Sigurð Sævarsson, ásamt verkum eftir Jón Leifs, Hildigunni Rúnarsdóttur, Báru Grímsdóttur og Jakob Tryggvason.
Einnig verða frumflutt þrjú ný kórverk eftir Steingrím Þórhallsson kórstjóra við textana Á minni andlátsstundu, Málshátt hafði og Nú hef eg mig í hvílu mín.
Aðgangur er ókeypis að öllum viðburðum.
slg