Fáir staðir sem hæfa betur undir hátíðarhöldin

22. október 2024

Fáir staðir sem hæfa betur undir hátíðarhöldin

Kór Saurbæjarprestakalls

Eins og fram hefur komið í mörgun fréttum á kirkjan.is, þá eru víða um land haldnar hátíðir í tilefni af því að 350 ár eru liðin frá því að Hallgrímur Pétursson, prestur og sálmaskáld lést.

Hann þjónaði síðast á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og er grafinn þar í kirkjugarðinum ásamt eiginkonu sinni Guðríði Símonardóttur.

Því hlýður athyglin að beinast mjög að þeim merka stað.

Í Hallgrímskirkju í Saurbæ hefur jafnan verið messa næsta sunnudag á eftir dánardeginum, ef dagurinn er í miðri viku.

Síðustu ár hefur einnig verið lítil dagskrá á daginn sjálfan.

Í ár er sérstök hátíð á 350 ára ártíð Hallgríms en hann lést árið 1674 og af því tilefni er blásið til Hallgrímshátíðar í Saurbæ.

Að sögn Þráins Haraldssonar sóknarprests í Garða og Saurbæjarprestakalli þá hefur undirbúningur staðið yfir í langan tíma, en eitt af þeim verkefnum sem ráðist var í var að láta semja ný lög við texta Hallgríms.

„Það fékkst styrkur úr Tónlistarsjóði Þjóðkirkjunnar og voru tvö tónskáld fengin til verksins og sömdu þau sitt hvort lagið fyrir Kór Saurbæjarprestakalls.

Annars vegar er það Högni Egilsson, en hann samdi lag við ljóðið Hugbót.

Ljóðið samdi Hallgrímur árið 1662, en þá höfðu bæjarhúsin í Saurbæ brunnið, sem var mikið áfall fyrir Hallgrím og fjölskyldu hans.

Hins vegar er það tónskáldið Eygló sem er þekkt fyrir klassíska tónlist.

Hún samdi lag við öllu þekktara ljóð Hallgríms, Heilræðavísur.

Til er eldra þekkt lag við ljóðið en hér er um að ræða afskaplega fallegt nútímalegt lag við þetta þekkta ljóð Hallgríms.

Ég er þess fullviss að fleiri kórar munu efalaust syngja þessi tvö nýju lög seinna meir“

segir Þráinn.

Lögin verða frumflutt af Kór Saurbæjarprestakalls í hátíðarmessu sem hefst kl. 14:00.

Þar mun biskup Íslands Guðrún Karls Helgudóttir þjóna og prestar prestakallsins, þau Þráinn Haraldsson, sóknarprestur og Ólöf Margrét Snorradóttir og Þóra Björg Sigurðardóttir, prestar.

Auk þess þjóna við messuna Kristján Valur Ingólfsson fyrrum vígslubiskup í Skálholti og ábúandi á Saurbæ og Sigurður Grétar Sigurðsson, sóknarprestur á Hvalsnesi þar sem Hallgrímur var prestur áður en hann kom í Saurbæ.

Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, er heiðursgestur í guðsþjónustunni.

Að lokinni guðsþjónustu er boðið til kirkjukaffis í Sumarbúðum KFUM og KFUK í Vatnaskógi, en þangað er um 5 mín akstur.

„Hátíðardagskrá hefst svo kl. 16.30“

segir Þráinn.

„Þar munum við hlýða á tvö erindi, annars vegar mun forseti Íslands flytja ávarp og hins vegar mun Kristján Valur Ingólfsson segja frá ævi Hallgríms og Guðríðar.

Þess á milli mun Kór Saurbæjarprestakalls flytja aftur nýju lögin tvö og svo tríóið Hvalreki flytja tónlist.

Tríóið er frá Hvalsnesi og flytur lög við veraldleg ljóð Hallgríms, en Hallgrímur var bæði trúarlegt og veraldlegt ljóðskáld.

Birgir Þórarinsson formaður Hollvinafélags Hallgrímskirkju í Saurbæ mun síðan ljúka dagskránni.“

Að lokum segir Þráinn:

„Þeir staðir sem tengjast Hallgrími Péturssyni eru allir með einhverja dagskrá þetta árið til að heiðra minningu skáldsins.

Það eru Hallgrímskirkja í Reykjavík, Hólar í Hjaltadal, Hvalsneskirkja og Hallgrímskirkja í Saurbæ.

Í Saurbæ átti Hallgrímur sín bestu ár og þar samdi hann Passíusálmana, sitt þekktasta verk, svo það eru fáir staðir sem hæfa betur undir hátíðarhöldin en Saurbær á Hvalfjarðarströnd.“


slg



Myndir með frétt

  • Guðfræði

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Vígslubiskup

  • Biskup

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði