Mikið um dýrðir í Skálholti um síðastliðna helgi

29. október 2024

Mikið um dýrðir í Skálholti um síðastliðna helgi

Nokkur mættu í Valgerðartísku á fyrirlesturinn

Laugardaginn 26. október var að vanda leiðsögn um Skálholtsdómkirkju og staðinn.

Að þessu sinni var boðið upp á vandaðan fyrirlestur Halldóru Kristinsdóttur um skörunginn og snillinginn Valgerði Jónsdóttur (1771-1856), biskupsfrú í Skálholti.

Á sunnudaginn var svo 350 ára ártíð Hallgríms Péturssonar minnst í hámessu, með sérstakri áherslu á sálminn ástkæra Um dauðans óvissa tíma, sem tengist staðnum órjúfanlegum böndum.

Halldóra er sérfræðingur á handritasafni Landsbókasafnsins og hefur rannsakað ævi og störf Valgerðar, sérstaklega út frá bréfum sem hún skrifaði sjálf og þeim sem henni voru send.

Í fyrirlestrinum kom Halldóra inn á umsvif og atvinnurekstur Valgerðar, sem og fjölbreytt og stórbrotið lífshlaup hennar en hún giftist tveimur biskupum, þeim Hannesi Finnssyni og Steingrími Jónssyni.

Mikill aldursmunur var á þeim Hannesi og varð Valgerður ekkja eftir hann aðeins 25 ára gömul.

Þá stóð Valgerður ein fyrir búi í Skálholti um áratugs skeið áður en hún giftist Steingrími, sem síðar varð biskup yfir Íslandi.

Í fyrirlestrinum kom fram að Valgerður var yfirstéttarkona, af ríkum ættum, vel menntuð og gáfuð.

Hún safnaði miklum auði, stóð í viðskiptum og var ein ríkasta kona Íslands á sínum tíma.

En hún var líka dóttir, eiginkona, móðir og amma.

Heimildir um Valgerði sýna líka vel tíðaranda og aðstæður allar á fyrri hluta 19. aldar á Íslandi.

Fyrirlestrasalurinn í Skálholtsskóla var þéttsetinn, bæði af heimafólki og lengra að komnum.

Að fyrirlestrinum loknum var haldið til kirkjunnar sjálfrar og minjar tengdar Valgerði skoðaðar.

Á sunnudeginum var svo haldin Hallgrímsmessa í tilefni af 350 ára ártíð Hallgríms Péturssonar, eins og á svo mörgum stöðum.

Í Skálholti var athyglinni sérstaklega beint að sálminum ástkæra Um dauðans óvissa tíma sem Hallgrímur gaf Ragnheiði Brynjólfsdóttur í eiginhandriti, og hefur síðan verið sunginn við útfarir og kveðjustundir flestra Íslendinga.

Í prédikun voru vers sálmsins íhuguð og útlögð.

Sungnir voru aðrir sálmar eftir Hallgrím enda mikill fjársjóður í því safni.

Kristín Þórunn Tómasdóttir er sóknarprestur í Skálholtsprestakalli.

“Það er alltaf stórkostlegt að fá að þjóna í Skálholtsdómkirkju og þar finnum við kall hjartans til að mætast í tilbeiðslu og lofsöng.

Það var sérstaklega gefandi að geta lyft upp minningu Hallgríms Péturssonar á þessum degi og fá að þakka fyrir gjafir hans sem hafa nært trúarlíf okkar Íslendinga, í söng, íhugun og bænum”

segir sr. Kristín Þórunn.

Messað er hvern helgan dag í Skálholtsdómkirkju, kl. 11:00 á sunnudögum.

 

slg



Myndir með frétt

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Fræðsla

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði