Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóvember 2024

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

Halldór Bjarki Arnarson

Nokkuð óvenjulegir tónleikar verða í Breiðholtskirkju á morgun laugardaginn 23. nóvember kl 15:15.

Tónleikarnir bera yfirskriftina: Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma.

Titill tónleikanna er sprottinn af verki á efnisskránni sem samið var af Thomas Tomkins árið 1649:

A Sad Paven for these Distracted Tymes.

Verkið var að öllum líkindum samið í minningu Karls fyrsta Englandskonungs sem tekinn var af lífi það sama ár, en sá atburður gerðist í kjölfar ensku borgarastyrjaldarinnar og leiddi til afnáms konungsvaldsins þar í landi.

Að sögn Hildigunnar Halldórsdóttur er stemningin í verkinu hæg, tregablandin og um leið full togstreitu, en eftir því sem lengra dregur á verkið glittir smám saman í vonarneista um frið og kærleika.

Þetta verk og sögulegt samhengi þess endurspeglar efnisskrána í heild sinni, sem kanna á eiginleika tónlistar sem eins konar hugleiðsluaðferð í óreiðukenndum heimi.

Í tilkynningu frá henni segir:

„Á 16. og 17. öld var tónlist talin græðandi meðal við ýmsum kvillum líkama og sálar, og hafði það hlutverk að koma á jafnvægi hið ytra og innra.

Í mörgum tónverkum þess tíma má finna eins konar „möntrur“, stef sem koma aftur og aftur í meira og minna óbreyttri mynd á meðan hljómvefurinn í kringum þau er síbreytilegur.“


Halldór Bjarki Arnarson er ungur tónlistarmaður sem farið hefur um víðan völl í músíkheimi Íslands og Evrópu.

Hann stundaði fyrst nám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og hlaut síðar tvær bakkalársgráður, eina í hornleik og aðra í semballeik frá tónlistarháskólunum í Hannover og Den Haag.

Halldór lauk meistaranámi í semballeik árið 2022 frá Schola Cantorum Basiliensis í Sviss og hlaut fyrir lokatónleikana sína námsverðlaun úr sjóði Walters & Corinu Christen-Marchal.

Í kjölfarið lagði hann stund á nám í sögulegum spuna á sembal og orgel við hinn sama skóla og hlaut sína aðra meistaragráðu síðastliðið vor.

Nú starfar Halldór sem organisti við Kirkju Heilags Anda í Suhr í Sviss.

Halldór er fastur meðlimur tónlistarhópsins Amaconsort sem hreppti fyrstu verðlaun í hinni virtu „Van Wassenaer“ keppni í Utrecht sumarið 2021.

Íslenskir tónleikagestir þekkja hópinn frá Sumartónleikum í Skálholti, 15:15 í Breiðholtskirkju og Reykjavík Early Music Festival 2024.

Samhliða því spilar Halldór með Ensemble histoirefuture í verkefninu Musica Transalpina sem rannsakar tengingu tónlistar og náttúrulífs í og við Alpafjöll.

Hann hefur komið frám á sviðum virtra tónlistarhátíða, þar á meðal Luzern Festival, Amsterdam Grachtenfestival, Laus Polyphoniae Antwerpen og FIAS Madrid.

Þrátt fyrir erlenda búsetu stígur Halldór reglulega á svið á Íslandi og sérhæfing hans í tónlist fyrri alda hefur lagt mikið til íslenskrar barokksenu síðustu árin.

Hann hefur haldið einleikstónleika í Hörpu og Salnum í Kópavogi og spilað með Barokkbandinu Brák, Kammersveit Reykjavíkur og Kammeróperunni svo eitthvað sé nefnt.

Einnig hefur Halldór lagt mark sitt á endurreisn íslenskrar þjóðlagatónlistar með tónlistarhópnum Spilmenn Ríkínís.

Halldór hefur hlotið styrki úr minningarsjóðum Emils Thoroddsens og Karls Sighvatssonar og er stjórnarmeðlimur Sumartónleika í Skálholti frá og með árinu 2024.

slg


  • List og kirkja

  • Menning

  • Tónlist

  • Kirkjustaðir

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði