Kirkjan hafnar ofbeldi gegn konum

27. nóvember 2024

Kirkjan hafnar ofbeldi gegn konum

Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir varaforseti LWF

Mánudaginn 25. nóvember hófst alþjóðlegt átak gegn kynbundnu ofbeldi sem stendur til 10. desember n.k., en það er Alþjóðlegi mannréttindadagurinn.

Í pistli sem dr. Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor við Guðfræði og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og varaforseti Lútherska heimssambandsins segir:

„Kynbundið ofbeldi er eitthvað sem kemur okkur öllum við.

Tölurnar yfir útbreiðslu ofbeldisins eru óhuggnanlegar, hvort sem um er að ræða tölur úr okkar íslenska samfélagi eða á heimsvísu.

Þó að ofbeldið sé hvergi meira heldur en á stríðshrjáðum svæðum, verða konur og stúlkubörn fyrir ofbeldi af hendi einhvers nákomins eða einhvers sem þær þekkja, alls staðar í heiminum, óháð stétt, kynþætti eða þjóðerni.

UN Women hefur í tilefni átaksins vakið sérstaka athygli á útbreiðslu grófustu birtingarmynd kynbundins ofbeldis, kvennamorða, sem hefur á síðustu árum færst í aukana.

Á heimasíðu samtakanna kemur fram að árið 2023 hafi kona eða stúlka verið myrt af maka eða fjölskyldumeðlim á tíu mínútna fresti.

Sjá fréttina á heimasíðunni hér.

Í myndbandi sem framkvæmdastjóri Lútherska heimssambandsins, dr. Anne Burghardt, sendi frá sér í tilefni 16 daga átaksins, hvetur hún aðildarkirkjur sambandsins, en einnig kristnar kirkjur hvar sem er í heiminum, þvert á kirkjudeildir, að taka þátt í átakinu og láta þannig um sig muna í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi sem beinist gegn þriðjungi stúlkna og kvenna um víða veröld.

Burghardt leggur áherslu á persónuna að baki tölfræðinni, á sögu einstaklingsins og þá staðreynd að líf þolandans verður aldrei eins aftur.

Kynbundið ofbeldi er ekki aðeins gróft mannréttindabrot heldur einnig synd, segir Burghardt, og vill þannig árétta hið trúarlega samhengi ofbeldisins, þar sem brot gegn mannréttindum einstaklings sé einnig brot gegn vilja Guðs.

Sjá hvatningu Burghardt hér.

Árið 2002 gaf Lútherska heimssambandið út bækling sem hafði yfirskriftina Churches Say “No” to Violence against Women. Action Plan for the Churches.

Finna má bæklinginn hér á ensku, spænsku, þýsku og frönsku. (Innskot fréttaritara).

Íslensk þýðing kom út ári seinna undir heitinu Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum. Framkvæmdaáætlun fyrir kirkjuna.

Með þessari útgáfu voru gefin skýr skilaboð um að ofbeldi, í þessu tilfelli kynbundið ofbeldi, er eitthvað sem kirkjunni kemur við og ber að standa gegn.

Kristin trú byggir á boðskap Krists um réttlæti og kærleika og þeirri bjargföstu trú að frammi fyrir Guði séum við öll jöfn, óháð kyni, kynþætti eða þjóðfélagsstöðu (Gal 3.28).

Af þessum sökum ber kirkjunni og þeim sem tilheyra henni að gera hvað sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að brotið sé á fólki, vegna kynferðis eða hverju öðru sem greinir þau að.

Framundan er aðventan, tími íhugunar og sjálfsskoðunar.

Í aðdraganda aðventunnar erum við hvött til að líta inn á við og spyrja hvað við, hvert og eitt og sem samfélag, getum gert til að stemma stigu gegn ofbeldismenningunni sem þrífst á meðal okkar.

Við erum hvött til að standa upp og mótmæla, hvar sem við verðum vör við óréttlæti og ofbeldi.

Og sem kirkja erum við hvött til að láta muna um okkur og segja hátt og skýrt „nei“ við kynbundnu ofbeldi í samfélagi okkar, undir öllum kringumstæðum, alltaf og allsstaðar.“

 

slg


  • Guðfræði

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Lútherska heimssambandið

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Alþjóðastarf

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði