Öflug starfsemi Kirkjuhússins og Skálholtsútgáfunnar
Kirkjuhúsið – Skálholtsútgáfan gefur út fjölda bóka fyrir almenning og kirkjustarf á hverju ári, ásamt því að reka bókabúð.
Framkvæmdasdtjóri Kirkjuhússins – Skálholtsútgáfunnar er Edda Möller og hefur hún verið það um fjögurra áratuga skeið.
Að hennar sögn er Kirkjuhúsið þjónustumiðstöð fyrir kirkjur landsins og gjafavöruverslun á trúar og samfélagslegum grunni.
„Þjóðkirkjan stofnaði til félags um reksturinn fyrir margt löngu og skipar 3 stjórnarmenn“
segir Edda.
„Stjórnarfólk er alls níu auk framkvæmdastjóra og lesa þau handrit af miklum ákafa og gleði.
Í Kirkjuhúsið sækir auðvitað almenningur, kirkjustarfsfólk, djáknar og prestar auk þess sem sóknarnefndir leita til Kirkjuhússins vegna ýmislegs sem vantar til kirkjunnar.
Má þar nefna kerti, oblátur, óáfengt messuvín, skírnarkerti og skírnarkveðjur, rykkilín og altarisdúka svo fátt eitt sé nefnt.“
Edda segir að með sanni mætti segja að Kirkjuhúsið sé samkomustaður fyrir fólk sem brennur fyrir kirkjustarfi af ýmsum toga.
„Kirkjuhúsið – Skálholtsútgáfan er ásamt Fræðslusviði þjóðkirkjunnar til húsa í Bústaðakirkju, neðri hæð, þar sem áður var Borgarbókasafnið.
Skálholtsútgáfan og Fræðslusvið sameinast um mörg verkefni á sviði fræðslu og útgáfu.
Fræðslustjóri þjóðkirkjunnar er Elín Elísabet Jóhannsdóttir Löve og við vinnum mikið saman“
segir Edda.
Mörg af þeim sem lesa fréttir reglulega á kirkjan.is muna eftir Kirkjuhúsinu á Laugaveginum til margra ára.
Þar var oft erfitt um bílastæði.
Aðkoman að húsnæðinu í Bústaðakirkju er afar góð því bílastæði eru mörg og strætóstöð beint fyrir neðan við Bústaðaveg.
Heimasíðu Kirkjuhússins má finna hér.
Facebook síðan er einnig afar virk og athyglisverð.
slg