Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF
Á dögunum voru veittir styrkir úr Tónlistarsjóði kirkjunnar og STEFs. Valnefnd sjóðsins skipa þau Guðný Einarsdóttir, Davíð Þór Jónsson og Hilmar Örn Agnarsson. Varamenn nefndarinnar eru Jóhann Baldvinsson og Ragnheiður Gröndal.
Guðný sagði við afhendinguna að það hafi verið úr vöndu að ráða við yfirferð umsóknanna, enda fjölmargar að þessu sinni. Úr varð að veita styrki til níu verkefna. Þau verkefni eru:
Ásbjörg Jónsdóttir - Frelsi hugans, þrjú tónverk og hugleiðslubænir fyrir Heiðu Árnadóttur
Cantores Islandie - Hljóðritun og myndbandsupptaka af Þorlákstíðum
Kór Hallgrímskirkju - Pöntun á verki eftir Finn Karlsson
Magnús Ragnarsson - Frumsamin orgelverk útfrá þjóðlögum
Schola Cantorum - Hljóðritun og myndbandsupptaka af nýjum sálmum eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur og Tómas Guðna Eggertsson
Sigrún Magna Þórsteinsdóttir - Pöntun á orgelverki eftir Steingrím Þórhallsson
Söngfjelagið - Pöntun á verki eftir Elínu Gunnlaugsdóttur, samið í minningu Hauks Guðlaugssonar
Þórður Magnússon - Nótnasetning á lögum Megasar við Passíusálma Hallgríms Péturssonar
Þórunn Vala Valdimarsdóttir - Upptökur á barnasálmum eftir konur
Við afhendingu flutti Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ræðu þar sem hún undirstrikaði mikilvægi tónlistarinnar fyrir kirkjuna. „Kirkjan væri fátæk án tónlistarinnar,“ sagði biskupinn meðal annars. Sagði hún jafnframt að tónlist væri órjúfanlegur hluti kirkjustarfs og hefði alltaf verið. Því væri nýsköpun og þróun í kirkjutónlist gríðarlega mikilvæg. Óskaði hún styrkþegunum til hamingju og hvatti þá áfram í sínum verkum.