Kirkjan.is á nýju ári
Heimir Hannesson samskiptastjóri kirkjunnar gerir hér grein fyrir breytingum á kirkjan.is á nýju ári:
„Nýtt ár, nýtt upphaf, en lífið heldur áfram.“
Svo sagði Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, í prédikun sinni í hátíðarguðsþjónustu í Dómkirkjunni í Reykjavík á nýársdag.
Þau orð eiga sérstaklega vel við hjá okkur á samskiptasviði þjóðkirkjunnar nú í upphafi árs.
Heimasíða þjóðkirkjunnar, kirkjan.is, eins og mörg okkar, keypti sér kort í líkamsrækt nú um áramótin og hyggur á mikið átak!
Undanfarnar vikur og mánuði hefur starfsfólk samskiptasviðs þjóðkirkjunnar nefnilega unnið hörðum höndum að því að búa til efni á nýja heimasíðu kirkjunnar.
Auk þess er nú unnið að uppfærslu á heildarútliti alls markaðsefnis þjóðkirkjunnar.
Mikið verk er framundan og áhersla á að leyfa þjónustu kirkjunnar að njóta sín á nýrri heimasíðu.
Enn fremur er ætlun okkar að stórefla sýnileika þjóðkirkjunnar á samfélagsmiðlum á þessu ári og auglýstum við því eftir samfélagsmiðlasérfræðingi til að leiða það verkefni núna rétt fyrir jól.
Frumskilyrði er að kunna á samfélagsmiðlana, auglýsingakerfi þeirra og hafa auga fyrir tækifærum og reynslu af framleiðslu efnis fyrir samfélagsmiðla.
Að auki er góður húmor auðvitað ófrávíkjanlegt skilyrði.
Ef þú, kæri lesandi, veist um manneskju sem tikkar í þessi box þá er auglýsinguna að finna hér á þessum hlekk.
Ætlun okkar er að koma þessum hlutum í gagnið sem allra fyrst og verkefnum á samskiptasviði forgangsraðað í þágu vinnu nýrrar heimasíðu og nýs heildarútlits.
Það þýðir að minni áhersla verður lögð á fréttaskrif hér á kirkjan.is.
Í staðinn komum við á næstu mánuðum tvíefld til leiks víðsvegar á veraldarvefnum og hlökkum við mikið til.
Nýárskveðjur,
Heimir Hannesson
samskiptastjóri þjóðkirkjunnar.