Starfsreglur um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar.
Teymi þjóðkirkjunnar:
Kirkjuráð skipar teymi þjóðkirkjunnar til fjögurra ára í senn. Í teymi eru;
Bragi Björnsson, lögmaður, Lögvörn ehf. s. 512-1212 - bragi@logvorn.is
Ragna Björg Guðbrandsdóttir, forstöðumaður Bjarkahlíðar, s. 553-3000
Karl Reynir Einarsson, geðlæknir, gsm. 7860926
Öll eru þau sérfróð um þau mál sem falla undir teymið og starfsreglur.
Teymi þjóðkirkjunnar, starfsmönnum hennar, fagaðilum og talsmönnum, ef við á, er skylt að gæta þagmælsku um þau mál sem til umfjöllunar eru hjá teyminu samkvæmt starfsreglum þessum.
Við störf sín skal teymið hafa til hliðsjónar stefnu þjóðkirkjunnar, þar sem tekin er skýr afstaða gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og öðru ofbeldi, svo og um meðferð kynferðisbrota innan kirkjunnar,
Hverjum þeim er starfar innan þjóðkirkjunnar og býr yfir vitneskju um ætlað kynferðisbrot gegn barni, er skilyrðislaust skylt að tilkynna slíkt samkvæmt gildandi lögum.
Þeir málaflokkar sem falla undir teymið eru: einelti, kynferðisleg áreiti, kynbundið áreiti, kynferðisbrot og ofbeldi í allri sinni víðustu mynd.
Ávallt stendur til boða að hafa samband við, Ragnhildi Ásgeirsdóttur,framkvæmdastjóra Biskupsstofu s. 528-4000 og á netfangið ragnhilduras@kirkjan.is til frekari aðstoðar og samtals.
Skilgreiningar á ofbeldi;
Ofbeldi er hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.
Skilgreiningar á kynbundnu áreiti og kynbundnu ofbeldi;
Með hugtakinu kynbundin áreitni er átt við hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni.
Kynbundið ofbeldi er hvers kyns hegðun á grundvelli kyns eða kyngervis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þeirra sem fyrir henni verða, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.