Umhverfistefna

Umhverfisstefna þjóðkirkjunnar

Vísindin hafa fært sönnur á að mannkynið stendur frammi fyrir loftslagsvá sem ógnar lífríki og vistkerfum jarðar og teflir hlutskipti komandi kynslóða í tvísýnu. Fátækt fólk á jaðarsvæðum, frumbyggjar á pólsvæðum og íbúar strandbyggða og lálendra eyja glíma þegar við afleiðingar loftslagsbreytinga. Takist ekki á næstu áratugum að koma fram þeirri umbreytingu sem Parísarsamkomulag þjóðríkja kallaði á árið 2015, blasa við hamfarir um heim allan. Þessi vandi er siðferðilegt málefni sem varðar alla.

Alkirkjuráðið og Lútherska heimssambandið hafa í þrjá áratugi látið loftslagsmál til sín taka.

Description

Íslenska þjóðkirkjan er aðili að stefnu þeirra þar sem áréttað er   að jörðin sé ekki til sölu. Í henni felst áskorun til safnaða og leiðtoga kirkjunnar um að boða frið við jörðina, hófsaman  lífsstíl og réttláta skiptingu jarðargæða. Þar er einnig um að ræða hvatningu til trúmennsku við þá spámannlegu köllun kirkjunnar   að benda á óréttlæti, ójöfnuð, félagslega neyð og náttúruspjöll af mannavöldum.

Lífið og tilveran öll er sköpunarverk Guðs. Lífið er heilagt og hefur eigið gildi. Manneskjan er hluti af náttúrunni en ekki yfir hana hafin. Hún ber jafnframt sérstaka ábyrgð vegna stöðu sinnar í sköpunarverki Guðs samkvæmt gyðing-kristinni hefð. Þeirri ábyrgð fylgir sú siðferðilega skylda að hlú að öllu lífi. Hlutverk mannkyns er að yrkja jörðina, vernda hana og næra, og nýta gæði hennar af umhyggju og virðingu með sjálfbærni að leiðarljósi.

Einkennisorð þjóðkirkjunnar eru: Biðjandi, boðandi, þjónandi.

  • Við biðjum fyrir því að allir sem á Íslandi búa vakni til vitundar um nauðsyn þess að umbreyta lífsháttum þannig að markmið í loftslagsmálum og náttúruvernd náist.
  • Við boðum lífsmáta sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda, sóun orku og matar og notkun skaðlegra umbúða.
  • Við þjónum náttúrunni sem allra best öllum i hag, meðal annars með endurheimt votlendis, skógrækt, landgræðslu og vistvænni starfsemi söfnuða kirkjunnar.

Við sem störfum í kirkjunni viljum taka höndum saman við aðrar hreyfingar og einstaklinga sem láta sig náttúruvernd og baráttuna gegn loftslagvá varða. Samstillt átak og stuðning almennings þarf til þess að knýja fyrirtæki og stjórnvöld til þess að standa við markmið í loftslagsmálum og náttúruvernd.

Kirkjan lætur sig varða náttúruvernd og sýnir í orði og verki að hún tekur loftslagsmálin alvarlega. Kirkjuráði og umhverfisnefnd kirkjunnar er falið að fylgja umhverfisstefnunni eftir með aðgerða- og starfsáætlun sem sé fjármögnuð. Markmiðið er að vekja starfsólk og söfnuðinn til umhugsunar um náttúruna og náttúruvernd, veita þeim úrræði til að sporna gegn frekari loftslagsbreytingum og til að leggja sitt að mörkum.