Fræðsla
Í upphafi nýs vinnuvetrar er gott að minna á nokkrar hinsegin skilgreiningar.
Hvetur jafnréttisnefnd sóknir til þess að eiga samtal innan hverrar kirkju um þessi hugtök og hvernig viðkomandi sókn megi ná betur til þeirra hópa sem þar falla undir.
Skilgreiningar:
Kynhneigð segir til um það hverjum fólk getur orðið skotið í, ástfangið af og laðast að. Kynhneigð getur verið allskonar, hún getur tekið breytingum og er mismunandi hjá hverjum og einum.
Gagnkynhneigð: Að laðast að manneskjum af öðru kyni.
Samkynhneigð (lesbía, hommi): Að laðast að manneskjum af sama kyni.
Tvíkynhneigð: Að laðast að tveimur kynjum.
Pankynhneigð: Að laðast að fólki óháð kyni þeirra (t.d. konum, körlum og fólki sem skilgreinir sig á annan hátt).
Asexúsal: Að laðast lítið eða ekki að öðru fólki.
Kynvitund segir til um hvernig við viljum lifa og vera í okkar kyni. Kynvitund hefur ekki með kynfæri, líffræði eða útlit að gera, heldur upplifun okkar af eigin kyni. Sumt fólk upplifir sig sem karla eða konur, sumt sem blöndu af hvoru tveggja og annað fólk upplifir sig hvorki sem konu né karl. Sumt fólk fer í aðgerðir eða tekur inn hormón til að breyta líkama sínum og útliti og þannig samræma það við kynvitund sína. Annað fólk vill ekki fara í slíkar aðgerðir.
Sís-kynjun: Fólk sem býr yfir kynvitund og/eða kyneinkennum sem samræmast kyninu sem því var úthlutað við fæðingu (er hvorki trans né intersex).
Trans kona: Kona sem var úthlutað karlkyni við fæðingu.
Trans karl: Karl sem var úthlutað kvenkyni við fæðingu.
Kynsegin: Manneskja sem skilgreinir sig utan kynjatvíhyggjunnar (karl eða kona).
Kynleiðrétting: Ferli sem sumt trans fólk fer í gegnum til að samræma líkama sinn og kynvitund.
Trans: Regnhlífarheiti yfir fólk sem fer út fyrir það sem er talið hefðbundið kyn, þar undir eru trans karlar og trans konur, fólk sem fer í aðgerðir, fólk sem vill ekki aðgerðir, fólk sem vill hvorki skilgreina sig sem konu né karl, eða vill blöndu af báðu.
Kyneinkenni eru líffræðilegir þættir á borð við litninga, kynkirtla og líffærafræðileg sérkenni sem eru notaðir til þess að ákvarða og flokka fólk í kyn. Intersex er hugtak sem nær yfir fólk sem hefur kyneinkenni sem ekki er hægt að flokka sem annað hvort karl- eða kvenkyns. Á íslensku er stundum talað um intersex sem millikyn.
Ofangreind hugtök eru fengin úr fræðsluefni Samtakanna 78. Frekari upplýsingar má nálgast á vefsíðu Samtakanna 78, www.samtökin78.is auk þess sem beina má fyrirspurnum til jafnréttisfulltrúa kirkjunnar.