Nýársdagur – 1. janúar – Í Jesú nafni
Nýársdagur – 1. janúar – Í Jesú nafni
Áttidagur jóla.
Litur: Hvítur.
Í nafni Drottins. Í Jesú nafni. Á Guðs vegi
Vers vikunnar: Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir. Hebr. 13.8
Þriðja lestraröð
Bæn dagsins / kollektan
Jesús Kristur. Með þér viljum við byrja þetta nýja ár og taka á móti því sem það færir okkur
af gleði og af sorgum. Þar sem þú ert víkur óttinn og óvissan. Lát hið nýja ár verða náðarár
þar sem við lifum af gæsku þinni og gefum hana öðrum. Dýrð sé þér Drottinn. Amen.
Lexía: 4Mós 6.22-27
Drottinn talaði til Móse og sagði:
„Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn:
Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,
Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.
Þannig skuluð þið leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn og ég mun blessa þá.“
Pistill: Post 10.42-43
Og hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað
dómara lifenda og dauðra. Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann
fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“
Guðspjall: Jóh 2.23-25
Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn
sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess
ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.
Sálmur Sb 66
Ljóss barn, heims barn, fætt á jörð í smæð.
Glatt barn, Krists barn, tákn frá himnahæð.
Nú við nýtt ár ný renni tíð
er jólin vitja allra jafnt,
jafnt og sólin blíð.
Vegbarn, sært barn, þess er veröld ill,
meitt barn, beygt barn, enginn vita vill.
Ný við nýtt ár ný upp renni tíð
er jólin vitja allra jafnt,
jafnt og sólin blíð.
Gleymt barn, stórt barn, sérhver minning sár.
Hryggt barn, týnt barn, sögu segja tár.
Nú við nýtt ár ný upp renni tíð
er jólin vitja allra jafnt,
jafnt og sólin blíð.
Spar-barn, spillt barn, á allt, meir vill fá,
spakt barn, tælt barn, veit ei hvað hér má.
Nú við nýtt ár ný upp renni tíð
er jólin vitja allra jafnt,
jafnt og sólin blíð.
Væntir-lífs barn, tákn um ást og von.
Guðs barn, manns barn, Guðs hinn góði son.
Nú við nýtt ár ný upp renni tíð
er jólin vitja allra jafnt,
jafnt og sólin blíð.
Shirley Erena Murray Kristján Valur Ingólfsson.