5. sunnudagur í föstu (iudica)
Ef boðunar Maríu er minnst með sérstakri messu 25.mars þá eru lesnir textar 5.sd. í föstu. Litur er þá fjólublár og Dýrðarsöngur/lofgjörð eru ekki sungin.Vers vikunnar:
„Ég helga mig fyrir þá svo að þeir séu einnig helgaðir í sannleika.“ (Jóh 17.19)
Kollekta:
Almáttugi Guð, vér biðjum þig. Lít í líkn til vor, barna þinna, og lát gæsku þína leiða oss og vernda til lífs og sálar. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Lexía: 4Mós 21.4b-9
En þolinmæði fólksins þraut á leiðinni og það tók að tala gegn Guði og Móse: „Hvers vegna leidduð þið okkur upp frá Egyptalandi til að deyja í eyðimörkinni? Hér er hvorki brauð né vatn og okkur býður við þessu léttmeti.“
Þá sendi Drottinn eitraða höggorma gegn fólkinu. Þeir bitu fólkið og margir Ísraelsmenn dóu. Fólkið kom þá til Móse og sagði: „Við höfum syndgað vegna þess að við höfum talað gegn Drottni og þér. Bið þú til Drottins svo að hann sendi höggormana burt frá okkur. Þá bað Móse fyrir fólkinu og Drottinn sagði við Móse: „Gerðu höggorm og settu hann á stöng. Sérhver sem hefur verið bitinn skal horfa til hans og halda lífi.“
Móse bjó þá til eirorm og setti á stöng. Þegar höggormur beit mann og maðurinn horfði til eirormsins hélt hann lífi.
Pistill: Heb 9.11-15
En Kristur er kominn sem æðsti prestur þeirra gæða sem komin eru. Hann gekk inn í gegnum hina stærri og fullkomnari tjaldbúð sem ekki er með höndum gerð, það er að segja er ekki af þessari sköpun. Ekki fór hann með blóð hafra og kálfa heldur með eigið blóð inn í hið heilaga í eitt skipti fyrir öll og aflaði eilífrar lausnar. Blóð hafra og nauta og askan af kvígu, stráð á menn, er óhreinir hafa gerst, á að helga þá svo að þeir verði hreinir hið ytra. Hve miklu fremur mun þá blóð Krists, þegar hann hefur í krafti eilífs anda borið sjálfan sig fram fyrir Guð sem lýtalausa fórn, hreinsa samvisku okkar af dauðum verkum svo að við getum þjónað lifanda Guði.
Þess vegna er hann meðalgangari nýs sáttmála. Hann dó og bætti að fullu fyrir afbrotin undir fyrri sáttmálanum til þess að þau sem Guð hafði kallað mættu öðlast hina eilífu arfleifð sem heitið var.
Guðspjall: Jóh 8.46-59
Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“
Þeir svöruðu honum: „Er það ekki rétt sem við segjum að þú sért Samverji og hafir illan anda?“
Jesús ansaði: „Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn en þér smánið mig. Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til sem leitar hans og dæmir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja.“
Þá sögðu þeir við hann: „Nú vitum við að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir og þú segir að sá sem varðveitir orð þitt skuli aldrei að eilífu deyja. Ert þú meiri en faðir okkar, Abraham? Hann dó og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?“
Jesús svaraði: „Ef ég vegsama sjálfan mig er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar. Og þér þekkið hann ekki en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann væri ég lygari eins og þér. En ég þekki hann og varðveiti orð hans. Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn og hann sá hann og gladdist.“
Þá sögðu þeir við hann: „Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur og hefur séð Abraham!“
Jesús svaraði: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist er ég.“
Þá tóku menn upp steina til að grýta Jesú. En hann duldist og hvarf úr helgidóminum.
Sálmur: 297
Ó, Herra Jesús, hjá oss ver,
því heims á vegum dimma fer,
þitt orðaljósið lát oss hjá
með ljóma hreinum skinið fá.
Þótt ill sé tíð og öldin spillt,
lát oss, þinn lýð, ei fara villt,
en hjá oss æ þitt haldast orð
og helga skírn og náðarborð.
Ó, Kristur, þína kirkju styð,
þótt kuldi’ og svefn oss loði við,
og kenning þinni götu greið,
um gjörvöll löndin hana breið.
Það náði, Guð, þín miskunn mild,
hvað margir kenna’ að eigin vild
og hærra meta hugboð sitt
en heilagt sannleiksorðið þitt.
Ei oss ber heiður, heldur þér,
en heiður þinn, ó, Jesús, er,
að sigri haldi hjörðin sú,
er heiðrar þig með réttri trú.
Þitt orð er sálar æðsta hnoss,
þitt orð er sverð og skjöldur oss.
Þótt annað veltist veröld í,
oss veit til enda að haldi því.
Þitt heilagt orðið heims í nauð
sé, Herra kær, vort daglegt brauð,
oss leiðsögn holl um harmadal
og himins inn í gleðisal.
Melankton 1. v. – Selnecker
Sb. 1886 – Helgi Hálfdánarson