Jónsmessa – 24. júní
Litur: Hvítur.
Vers vikunnar: Jóh 3.30
Þetta er vitnisburður Jóhannesar skírara: „Hann á að vaxa en ég að minnka.“
Kollekta:
Drottinn Guð, upphaf og skapari alls ljóss. Þú sem valdir Jóhannes í móðurlífi til að bera vitni um ljósið sem upplýsir öll börnin þín. Við biðjum þig: Gef okkur náð til þess að helga líf okkar því ljósi eins og Jóhannes, svo að Kristur vaxi og verði máttugur í okkur. Fyrir son þinn Jesú Krist, bróður okkar og Drottinn sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda frá eilífð til eilífðar. Amen.
Lexía: Slm 92.2-3, 5, 9
Gott er að lofa Drottin,
lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,
að kunngjöra miskunn þína að morgni
og trúfesti þína um nætur
Þú gleður mig, Drottinn, með dáðum þínum,
ég fagna yfir verkum handa þinna.
en þú, Drottinn, ert eilíflega upphafinn.
Pistill: 1Þess 5.5-7
Þið eruð öll börn ljóssins og börn dagsins. Við heyrum ekki nóttunni til eða myrkrinu. Sofum því ekki eins og aðrir heldur vökum og verum allsgáð. Því að þau sem sofa, sofa um nætur og þau sem drekka sig drukkin, drekka um nætur.
Guðspjall: Lúk 1.57-67, 76-80
Nú kom sá tími, að Elísabet skyldi verða léttari, og ól hún son. Og nágrannar hennar og ættmenn heyrðu, hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni, og samfögnuðu henni.
Nú kom sá tími að Elísabet skyldi verða léttari og ól hún son. Og nágrannar hennar og ættmenn heyrðu hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni og samfögnuðu henni.
Á áttunda degi komu þeir að umskera sveininn og vildu þeir láta hann heita Sakaría í höfuðið á föður sínum. Þá mælti móðir hans: „Eigi skal hann svo heita heldur Jóhannes.“
En þeir sögðu við hana: „Enginn er í ætt þinni sem heitir því nafni.“ Bentu þeir þá föður hans að hann léti þá vita hvað sveinninn skyldi heita.
Hann bað um spjald og reit: „Jóhannes er nafn hans,“ og urðu þeir allir undrandi. Jafnskjótt laukst upp munnur hans og tunga. Hann fór að tala og lofaði Guð. En ótta sló á alla nágranna þeirra og þótti þessi atburður miklum tíðindum sæta í allri fjallbyggð Júdeu. Og allir, sem þetta heyrðu, festu það í huga sér og sögðu: „Hvers má vænta af þessu barni?“ Því að hönd Drottins var með honum.
En Sakaría faðir hans fylltist heilögum anda og mælti af spámannlegri andagift:
Og þú, sveinn, munt nefndur verða spámaður Hins hæsta
því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans
og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu
sem er fyrirgefning synda þeirra.
Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors.
Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor
og lýsa þeim sem sitja í myrkri og skugga dauðans
og beina fótum vorum á friðar veg.
En sveinninn óx og varð þróttmikill í anda. Hann dvaldist í óbyggðum til þess dags er hann skyldi koma fram fyrir Ísrael.
Sálmur: Jónsmessuhymni
Elífum Föður öll hans hjörð
af hjarta syngi þakkargjörð,
með sinnar náðar sætu orð
sendi Jóhannes oss á jörð.
Hann öllum bauð að hafna synd,
hræddi dramblátra manna lund,
hæsta dómarans fengi fund,
fram til þess væri lítil stund.
Hér með þá lýður hræddur var,
hjálpar veg sannan predikar,
sjálft lamb með fingri sýnir þar,
sem mannkyn við Guð forlíkar.
Staðfastur þennan boðskap ber,
birti Krists komu fylgja sér.
Eins sem dagstjarnan undan fer
uppgöngu sólar kunngjörir.
Farisearnir fróman mann
fengu ei beygt né anda þann.
Elías annan héldu hann
hræsni djarflega straffa kann.
Ó, faðir þig áköllum vér
að þú vor hjörtu uppvekir
Svo öll vér trúum eflaust þér
eins sem Jóhannes vitni ber.
Úr Hólabókinni 1589. Philipp Melanchthon