Kirkjudagur
Kirkjudagur:
Lexía 1. Kon. 8. 22-30. 9.1-3.Pistill 1. Pét. 2. 4-9 ,Guðspjall Jóh. 10. 22-30
Litur hvítur eða rauður.
Vers
Hversu yndislegir eru bústaðir þínir,
Drottinn hersveitanna.
Sálu mína langaði til,
já, hún þráði forgarða Drottins,
nú fagnar hjarta mitt og hold
fyrir hinum lifanda Guði. Sálm 84.2-3.
Bæn dagsins / kollektan
Eilífi Guð, vér þökkum þér, að þú hefur látið orð þitt búa meðal vor og helgað þetta hús með
nálægð þinni: Heyr bænir vorar og gef, að sérhver sá er hér leitar þín, megi finna þig og fagna
yfir miskunn þinni og réttlæti. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og
ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexían
1.Kon. 8. 22-30, 1.Kon. 9. 1-3
Þessu næst gekk Salómon fyrir altari Drottins andspænis öllum söfnuði Ísraels, lauk upp
lófum til himins og bað: „Drottinn, Guð Ísraels, enginn guð er sem þú, hvorki á himni né á
jörðu. Þú heldur sáttmálann og sýnir þeim þjónum þínum trúfesti sem breyta af heilum hug
frammi fyrir augliti þínu. Þú hefur staðið við það sem þú lofaðir þjóni þínum, Davíð föður
mínum. Það sem þú lofaðir með munni þínum hefur þú efnt í dag með hendi þinni. Drottinn,
Guð Ísraels, efndu nú einnig fyrirheitið sem þú gafst þjóni þínum, Davíð föður mínum, þegar
þú sagðir: Niðjar þínir munu ætíð sitja frammi fyrir mér í hásæti Ísraels svo framarlega sem
þeir vanda framferði sitt og breyta frammi fyrir mér eins og þú hefur gert. Guð Ísraels, stattu
nú við fyrirheitið sem þú gafst Davíð, þjóni þínum.
Býr Guð þá í raun og veru á jörðinni? Nei, jafnvel himinninn og himnar himnanna rúma þig
ekki, hvað þá þetta hús sem ég hef byggt. Gefðu gaum að ákalli þjóns þíns og bæn hans,
Drottinn Guð. Heyr ákallið og bænina sem ég, þjónn þinn, ber fram fyrir þig í dag.
Lát augu þín vaka yfir þessu húsi dag og nótt, þeim stað sem þú hefur sagt um: Þar skal nafn
mitt búa. Heyr bænina er þjónn þinn biður á þessum stað. Er þjónn þinn og lýður þinn, Ísrael,
biður og snýr í átt til þessa staðar, heyr ákall hans. Hlustaðu á það í himninum þar sem þú
býrð. Heyr það og fyrirgef.
Þegar Salómon hafði reist musteri Drottins og konungshöllina og komið öllu í verk sem
hugur hans stóð til, þá birtist Drottinn Salómon öðru sinni eins og hann hafði birst honum í
Gíbeon. Drottinn sagði við hann: „Ég hef heyrt ákall þitt og bæn sem þú fluttir fyrir augliti
mínu. Ég hef helgað þetta hús sem þú hefur reist til þess að nafn mitt búi þar ævinlega. Augu
mín og hjarta munu ætíð vera þar.
Pistillinn 1.Pét. 2. 4-9
Komið til hans, hins lifanda steins, sem menn höfnuðu en er í augum Guðs útvalinn og
dýrmætur. Látið sjálf uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús til heilags prestdóms, til
að bera fram andlegar fórnir fyrir Jesú Krist, Guði velþóknanlegar. Því að svo stendur í
Ritningunni:
Sjá, ég set hornstein í Síon,
valinn og dýrmætan.
Sá sem trúir á hann mun alls eigi verða til skammar.
Yður sem trúið er hann dýrmætur en hinum vantrúuðu er steinninn, sem smiðirnir höfnuðu,
orðinn að hyrningarsteini
og:
ásteytingarsteini og hrösunarhellu.
Þeir steyta sig á honum af því að þeir óhlýðnast boðskapnum. Það var þeim ætlað. En þið
eruð „útvalin kynslóð, konunglegur prestdómur, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þið
skuluð víðfrægja dáðir hans,“ sem kallaði ykkur frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.
Guðspjallið Jóhs 10. 22-30
Nú var vígsluhátíðin í Jerúsalem og kominn vetur. Jesús gekk um í súlnagöngum Salómons í
helgidóminum. Þá söfnuðust menn um hann og sögðu: „Hve lengi lætur þú okkur í óvissu? Ef
þú ert Kristur, þá segðu okkur það berum orðum.“
Jesús svaraði þeim: „Ég hef sagt yður það en þér trúið ekki. Verkin, sem ég geri í nafni föður
míns, vitna um mig en þér trúið ekki því að þér eruð ekki úr hópi sauða minna. Mínir sauðir
heyra raust mína og ég þekki þá og þeir fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf og þeir skulu aldrei
að eilífu glatast og enginn skal slíta þá úr hendi minni. Faðir minn, sem hefur gefið mér þá, er
meiri en allir og enginn getur slitið þá úr hendi föðurins. Ég og faðirinn erum eitt.“
Sálmur Sb 618
1 Kirkja vors Guðs er gamalt hús,
Guðs mun þó bygging ei hrynja.
Guð er til hjálpar henni fús
hvernig sem stormarnir dynja.
Mannvirki rammgjörst féllu fljótt,
finnur enn skjólið kristin drótt
Herrans í húsinu forna.
2 Herrann ei býr í húsum þeim
hagleg er mannaverk þykja,
musteri gjörvöll hér um heim
himnanna Drottin ei lykja.
Þó hefur bústað byggðan sér
blessaður Guð í veröld hér
dýran, af duftinu reistan.
3 Inni Guðs veglegt erum vér
upp byggt af lifandi steinum,
skírn vora tállaus trú ef er
tengd við í kærleika hreinum.
Jörðinni þó að allri á
aðeins vér lifðum tveir oss hjá
byggi vor blessaði Drottinn.
4 Hvar sem í náðarnafni Krists
nokkrir í sameining biðja
andans er friður æ þeim viss,
orðin Guðs heilög þá styðja.
Guð sjálfur er sem orð hans blíð
alls staðar nærri' á hverri tíð
náðþyrstum sálum að svala.
5 Hús þau er kirkjur köllum vér
kær skulu' oss öllum þó vera.
Frelsarinn börn svo faðmi' að sér
foreldrar þangað þau bera.
Guðs hús er þar og himnahlið,
hefur þar sáttmál gjört oss við
hann sem oss himinerfð gæddi.
6 Skírnarker minnir skýrt oss á
skírnina' er náðinni heitir,
altarið máltíð eins á þá
andans er næringu veitir.
Fögnuði með þar finnum vér
frelsari vor að hjá oss er,
miskunn hans sífellt hin sama.
7 Náðugi Guð, af náð veit þú
nær sem að klukkurnar kalla,
söfnuðir Krists í sannri trú
safnist um veröldu alla,
lát þá í anda son þinn sjá,
sonar þíns kveðju heyrða fá:
„Friður sé öllum með yður.“
T Nikolaj F.S. Grundtvig 1837 – Helgi Hálfdánarson – Sb. 1886