2. sunnudagur eftir þrettánda Meistari gleðinnar Lífsins lind
2. sunnudagur eftir þrettánda
Meistari gleðinnar Lífsins lind
Af gnægð hans höfum vér öll þegið, náð á náð ofan. Jóh. 1.16
Litur hvítur.
Bæn dagsins / kollektan
Miskunnsami Guð í kærleika þínum er kraftur til umbreytingar. Leyfðu okkur að komast að
raun um að þú getur látið gleði vaxa upp úr sorginni, frið og sátt verða milli þeirra sem deila,
öruggt traust fæðast í vonleysinu og fyrirgefningu í sektinni. Gef okkur styrk trúarinnar að
við treystum því að líf okkar beri ávöxt. Þess biðjum við í nafni Jesú Krists sem vitjar barna
sinna. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexían Jes. 49.1-6
Hlýðið á mig, eylönd,
hyggið að, fjarlægu þjóðir.
Drottinn hefur kallað mig allt frá móðurlífi,
nefnt mig með nafni frá því ég var í móðurkviði.
Hann gerði munn minn sem beitt sverð
og huldi mig í skugga handar sinnar.
Hann gerði mig að hvassri ör
og faldi mig í örvamæli sínum.
Hann sagði við mig: „Þú ert þjónn minn,
Ísrael, ég læt þig birta dýrð mína.“
En ég svaraði: „Ég hef erfiðað til ónýtis,
sóað kröftum mínum til einskis og út í vindinn
en réttur minn er hjá Drottni
og laun mín hjá Guði mínum.“
En nú segir Drottinn,
hann sem myndaði mig í móðurlífi
til að vera þjónn sinn,
til að ég sneri Jakobi aftur til sín
og til að Ísrael yrði safnað saman hjá honum.
Ég er dýrmætur í augum Drottins
og Guð minn varð minn styrkur.
Hann segir: Það er of lítið að þú sért þjónn minn
til að endurreisa ættbálka Jakobs
og leiða þá aftur heim
sem varðveist hafa af Ísrael.
Ég geri þig að ljósi fyrir þjóðirnar
svo að hjálpræði mitt nái allt til endimarka jarðar.
Pistillinn 1.Kor 6.12-15a, 18- 20
Allt er mér leyfilegt en ekki er allt gagnlegt. Allt er mér leyfilegt en ég má ekki láta neitt fá
vald yfir mér. Maturinn er fyrir magann og maginn fyrir matinn en Guð mun hvort tveggja
gera að engu. En líkaminn er ekki fyrir saurlífi heldur fyrir Drottin og Drottinn fyrir
líkamann.
Guð hefur uppvakið Drottin með mætti sínum og mun á sama hátt uppvekja okkur.
Vitið þið ekki að líkamar ykkar eru limir Krists?
Forðist saurlifnaðinn! Sérhver önnur synd, sem maðurinn drýgir, er fyrir utan líkama hans. En
saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama. Vitið þið ekki að líkami ykkar er musteri
heilags anda sem í ykkur er og þið hafið frá Guði? Þið eigið ykkur ekki sjálf. Þið eruð verði
keypt. Vegsamið því Guð með líkama ykkar.
Guðspjallið Matt. 9. 27-31
Þá er Jesús hélt þaðan fóru tveir blindir menn eftir honum og kölluðu: „Miskunna þú okkur,
sonur Davíðs.“
Þegar hann kom heim gengu blindu mennirnir til hans. Jesús spyr þá: „Trúið þið að ég geti
gert þetta?“ Þeir sögðu: „Já, Drottinn.“
Þá snart hann augu þeirra og mælti: „Verði ykkur að trú ykkar.“ Og augu þeirra lukust upp.
Jesús lagði ríkt á við þá og sagði: „Gætið þess að enginn fái að vita þetta.“ En þeir fóru og
víðfrægðu hann í öllu því héraði.
Sálmur Sb 452
Þín miskunn, ó, Guð, er sem himinninn há
og hjarta þíns trúfestin blíða,
þinn heilagan vísdóm má hvarvetna sjá
um heims alla byggðina fríða.
Sem rammbyggðu fjöllin þín réttvísin er,
sem reginhaf dómur þinn hreini.
Vor Guð, allra þarfir þú glögglega sér
og gleymir ei aumingjans kveini.
Já, dásöm er náð þín og dag sérhvern ný,
ó, Drottinn, í skaut þitt vér flýjum.
Vér hræðast ei þurfum í hælinu því,
er hörmunga dimmir af skýjum.
Ef sálirnar þyrstir, þú svölun þeim lér,
þær saðning fá hungraðar frá þér.
Vor Guð, þínu' í ljósinu ljós sjáum vér,
og lífsins er uppspretta hjá þér.
Sl 36 - Ingemann - Sb. 1886 - Helgi Hálfdánarson