13. sunnudagur eftir þrenningarhátíð - Dagur díakoníunnar
Þrettándi sunnudagur eftir þrenningarhátíð er dagur díakoníunnar.Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
Kristur segir: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ (Matt 25.40b)
Kollekta:
Almáttugi, eilífi Guð: Auk oss trú, von og kærleika. Lát oss elska það, sem þú býður, að vér öðlumst það, sem þú hefur heitið oss. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Lexía: 1Mós 4.3-16a
Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“
Þá sagði Kain við Abel, bróður sinn: „Göngum út á akurinn.“
Og er þeir voru á akrinum réðst Kain á Abel, bróður sinn, og drap hann. Þá sagði Drottinn við Kain: „Hvar er Abel, bróðir þinn?“ Kain svaraði: „Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?“ Drottinn sagði: „Hvað hefurðu gert? Blóð Abels, bróður þíns, hrópar til mín af jörðinni. Þess vegna skaltu vera bölvaður og burtrekinn af jörðinni sem opnað hefur munn sinn og tekið á móti blóði bróður þíns er þú úthelltir. Þegar þú yrkir jörðina skal hún ekki framar gefa þér uppskeru sína. Landflótta og flakkandi skaltu vera á jörðinni.“
Kain sagði við Drottin: „Sekt mín er meiri en svo að ég fái borið hana. Nú hefur þú rekið mig burt af landinu. Ég verð að fela mig fyrir augliti þínu, landflótta og flakkandi um jörðina. Þá getur hver sem finnur mig drepið mig.“ Drottinn sagði við Kain: „Svo skal ekki verða. Hver sem drepur Kain skal sæta sjöfaldri hefnd.“
Og Drottinn setti merki á Kain til þess að enginn sem rækist á hann dræpi hann. Og Kain gekk burt frá augliti Drottins.
Pistill: 1Jóh 4.7-11
Þið elskuðu, elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur. Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf. Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.
Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað.
Guðspjall: Lúk 10.23-37
Og Jesús sneri sér að lærisveinum sínum og sagði einslega við þá: „Sæl eru þau augu sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið en sáu það ekki og heyra það sem þér heyrið en heyrðu það ekki.“
Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista Jesú og mælti: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“
Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“
Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa.“
En lögvitringurinn vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“
Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn en sveigði fram hjá. Eins kom og Levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum og er hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur.
Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?“
Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gerði á honum.“
Jesús sagði þá við hann: „Far þú og ger hið sama.“
Sálmur: 191
Hvar lífs um veg þú farinn fer,
þú finnur ávallt marga,
er eigi megna sjálfum sér
úr sinni neyð að bjarga.
Þótt fram hjá gangi fjöldi manns,
þú fram hjá skalt ei ganga,
lát þig langa
að mýkja meinin hans,
er mæðu líður stranga.
Hvar sem þú einhvern auman sér,
hann aðstoð máttu’ ei svipta.
Hvort sem hann vin eða’ óvin er,
það engu lát þig skipta.
Þið eruð báðir börnin hans,
er báða skapað hefur
vernd og vefur,
og limir lausnarans,
er líf hann báðum gefur.
Þú getur sífellt alveg eins
í ólán ratað líka,
þér getur orðið margt til meins,
að miskunn þurfir slíka.
Vilt þú þá ei, að aðrir menn
því úr að bæta reyni
mæðu meini?
Þeir fara fram hjá enn,
þó flýr ei burt sá eini.
Sá eini’ er hvergi fram hjá fer,
er frelsarinn vor blíði.
Hvert mein hann veit, hvert sár hann sér,
er svellur lífs í stríði.
Hann sjálfur bindur sárin öll
og særðum heimför greiðir,
eymdum eyðir,
og loks í himnahöll
til herbergis oss leiðir.
Sb. 1886 – Valdimar Briem
Bæn dagsins:
Guð, sem elskar, þú sem sérð eymd og neyð okkar mannanna og sendir son þinn til þess að þjóna okkur í kærleika. Hjálpa þú okkur að líkjast honum. Gefðu okkur góðvild og miskunnsemi svo að við göngum ekki framhjá þeim sem þarfnast hjálpar okkar. Heyr þá bæn fyrir Jesú Krist. Amen.