Þrettándinn – 6. janúar - Birtingarhátíð Drottins / Dýrð Guðs í Kristi. / Guðssonurinn
Litur: Hvítur eða gylltur.
Vers vikunnar:
„Myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.“ (1Jóh 2.8c)
Bæn dagsins:
Drottinn Guð, þú lést stjörnu vísa vitringunum um langan veg til sonar þíns Jesú Krists svo þú gætir opinberað þeim hann. Leið einnig okkur til hans svo að við megum í trúnni þekkja hann og um síðir sjá hann í dýrð sinni. Gef að allar þjóðir fái að heyra um hann og megi lúta honum í trú og kærleika. Fyrir hinn sama son þinn Jesú Krist, frelsara okkar og bróður. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Jes 60.1-6
Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur
og dýrð Drottins rennur upp yfir þér.
Myrkur grúfir yfir jörðinni
og sorti yfir þjóðunum
en Drottinn er runninn upp yfir þér
og dýrð hans birtist yfir þér.
Þjóðir munu stefna á ljós þitt
og konungar á ljómann sem rennur upp yfir þér.
Hef upp augu þín og litast um,
þeir safnast allir saman og koma til þín,
synir þínir koma langt að
og dætur þínar verða bornar á örmum.
Við þá sýn muntu gleðjast,
hjarta þitt mun slá hraðar og fyllast fögnuði
því að til þín hverfur auður hafsins
og auðæfi þjóða berast þér.
Aragrúi úlfalda mun þekja land þitt,
drómedarar frá Midían og Efa
og allir, sem koma frá Saba,
færa þér gull og reykelsi
og flytja Drottni lof.
Pistill: Ef 3.2-12
Víst hafið þið heyrt um þá náð sem Guð hefur sýnt mér og um það hlutverk sem hann hefur falið mér hjá ykkur: Með opinberun birtist mér leyndardómurinn. Um það hef ég stuttlega skrifað áður. Þegar þið lesið það getið þið skynjað hvað ég veit um leyndardóm Krists. Hann var ekki birtur mannanna börnum fyrr á tímum. Nú hefur Guð látið andann opinbera hann heilögum postulum sínum og spámönnum: Vegna samfélagsins við Krist Jesú og með því að hlýða á fagnaðarerindið eru heiðingjarnir orðnir erfingjar með okkur, einn líkami með okkur, og eiga hlut í sama fyrirheiti og við.
Ég varð þjónn þessa fagnaðarerindis af því að Guð gaf mér þá náð með krafti máttar síns. Mér, sem minnstur er allra heilagra, var veitt sú náð að boða heiðingjum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists og að upplýsa alla um það hvernig Guð hefur ráðstafað þessum leyndardómi sem frá eilífð var hulinn hjá Guði sem allt hefur skapað.
Nú skyldi kirkjan látin kunngjöra tignunum og völdunum á himnum hve margháttuð speki Guðs er. Þetta er Guðs eilífa fyrirætlun sem hann hefur framkvæmt í Kristi Jesú, Drottni vorum. Á honum byggist djörfung okkar. Í trúnni á hann eigum við öruggan aðgang að Guði.
Guðspjall: Matt 2.1-12
Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“
Þegar Heródes heyrði þetta varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum og spurði þá: „Hvar á Kristur að fæðast?“
Þeir svöruðu honum: „Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum:
Þú Betlehem, í landi Júda,
ekki ert þú síst meðal hefðarborga Júda.
Því að höfðingi mun frá þér koma
sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.“
Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim hvenær stjarnan hefði birst.Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: „Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið og er þið finnið það látið mig vita til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.“
Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim uns hana bar þar yfir sem barnið var. Þegar þeir sáu stjörnuna glöddust þeir harla mjög, þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru.
En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar fóru þeir aðra leið heim í land sitt.
Sálmur 110
Hve fagurt ljómar ljósa her
á loftsins bláa geim.
Hve milt og blítt þau benda mér
í bústað Drottins heim.
Hve björt og fögur sú var sól,
er sást um austurgeim
og fegurst skein hin fyrstu jól
við fæðing Guðs í heim.
Ó, lát þá stjörnu lýsa mér
um lífsins eyðisand
og sýna mér, nær fjörið fer,
hið fyrirheitna land.
Ó, lát þá stjörnu lýsa mér
um lífsins myrka dal
og leiða mig, nær lífið þver,
í ljóssins bjarta sal.
Sb. 1886 - Valdimar Briem