4. sunnudagur páskatímans (Kantate)
Litur: Hvítur
Vers vikunnar:
„Syngið drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk.“ (Slm 98.1a)
Bæn dagsins:
Skapari himins og jarðar öll verk þín lofa þig. Kenndu okkur að standa ekki þögul hjá þegar öll sköpunin syngur þér lof, heldur gef af mildi þinni að líf okkar allt sé lofsöngur um miskunn þína og máttarverk þín. Kenndu okkur aftur nýtt lag við ljóðið um vonina sem í okkur býr. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: 1Mós 21.8b-21
Þann dag, er Ísak var vaninn af brjósti, gerði Abraham veislu mikla. Sá þá Sara son Hagar hinnar egypsku, sem hún hafði fætt Abraham, að leik og sagði við Abraham: „Rektu burt ambátt þessa og son hennar því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með Ísak, syni mínum.“
Abraham féllu þessi orð mjög þungt vegna sonar síns. En Guð sagði við Abraham:
„Lát þér ekki falla þetta þungt vegna sveinsins og ambáttar þinnar. Öllu sem Sara segir skaltu hlýðnast því að afkomendur þínir munu kenndir verða við Ísak. En ambáttarsoninn mun ég einnig gera að þjóð því að hann er afkvæmi þitt.“
Snemma næsta morgun tók Abraham brauð og vatnsbelg og fékk Hagar, lyfti drengnum á öxl henni og sendi hana á braut. Reikaði hún um eyðimörkina við Beerseba.
Er vatnið þraut úr skinnbelgnum lagði hún drenginn undir runna einn, gekk þaðan og settist skammt undan eins og í örskots fjarlægð því að hún hugsaði: „Ég vil ekki horfa á drenginn deyja.“ Og hún tók að gráta hástöfum.
Þá heyrði Guð grát sveinsins og engill Guðs kallaði til Hagar af himni og sagði:
„Hvað amar að þér, Hagar? Óttast þú ekki því að Guð hefur heyrt grát sveinsins þar sem hann liggur. Stattu upp, reistu drenginn á fætur og leiddu hann þér við hönd því að ég mun gera hann að mikilli þjóð.“
Og Guð lauk upp augum hennar svo að hún sá vatnslind, fór og fyllti vatnsbelginn og gaf drengnum að drekka.
Guð var með sveininum og hann óx og settist að í óbyggðunum og gerðist bogmaður. Hann hafðist við í Paranóbyggðunum og móðir hans tók handa honum konu frá Egyptalandi.
Pistill: 1Jóh 3.19-24
Af þessu munum við þekkja að við erum sannleikans megin og munum geta friðað hjörtu okkar frammi fyrir honum, hvað sem hjarta okkar kann að dæma okkur fyrir. Því að Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt. Þið elskuðu, ef hjartað dæmir okkur ekki, þá höfum við djörfung til Guðs. Og hvað sem við biðjum um fáum við hjá honum af því að við höldum boðorð hans og gerum það sem honum er þóknanlegt. Og þetta er hans boðorð, að við skulum trúa á nafn sonar hans Jesú Krists og elska hvert annað, samkvæmt því sem hann hefur gefið okkur boðorð um. Sá sem heldur boðorð Guðs er stöðugur í Guði og Guð í honum. Að hann er stöðugur í okkur þekkjum við af andanum sem hann hefur gefið okkur.
Guðspjall: Jóh 8.25-30
Fólkið spurði hann þá: „Hver ert þú?“ Jesús svaraði því: „Sá sem ég hef sagt yður frá upphafi. Margt hef ég um yður að tala og fyrir margt að dæma. En sá sem sendi mig er sannorður og það sem ég heyrði hjá honum, það tala ég til heimsins.“
Fólkið skildi ekki að hann var að tala við þá um föðurinn. Því sagði Jesús: „Þegar þér hefjið upp Mannssoninn munuð þér skilja að ég er sá sem ég er og að ég geri ekkert einn og sér heldur tala ég það eitt sem faðirinn hefur kennt mér. Og sá sem sendi mig er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan því ég geri ætíð það sem honum þóknast.“ Þegar hann mælti þetta fóru margir að trúa á hann.
Sálmur 857
Heyrðu mig, hjartakær Jesús,
hlusta á mitt bænamál.
Hjálpa mér að þóknast þér,
þjóna af lífi og sál.
Læt ég þig leiða mig, Jesús,
lífsins um hála stig.
Náðin þín mun nægja mér,
nóg er að trúa á þig.
Með þér er gott hér að ganga
götuna fram á leið.
Fela sig í faðmi þér
fallvalt um æviskeið.
Svo þegar leið minni lýkur,
legg upp í hinsta sinn,
hvað þá verður mér hvíldin góð,
Kristur við hástól þinn.
Hugrún (Filippía Kristjánsdóttir)