16. sunnudagur eftir trinitatis: Hin sterka huggun / Dauðinn og lífið
Litur: Grænn
Vers vikunnar:
Jesús Kristur afmáði dauðann, en leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu. (2Tím 1.10b)
Bæn dagsins:
Guð lífsins, þú sem reistir son þinn upp frá dauðum og opnaðir okkur leið til eilífs lífs. Við biðjum þig: Hjálpa okkur að treysta því að ekkert getur tekið þetta líf frá okkur aftur, því að þú geymir okkur örugg í þinni hönd um aldur og ævi. Heyr þá bæn í Jesú nafni. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Job 5. 8-11, 17-18
Ég mundi leita til Guðs
og leggja mál mín fyrir hann
sem vinnur ómæld stórvirki,
kraftaverk sem ekki verður tölu á komið.
Hann gefur jörðinni regn
og sendir vatn yfir vellina.
Hann upphefur smælingja
og syrgjendum verður hjálpað.
Sæll er sá sem Guð leiðbeinir,
sá sem hafnar ekki ögun Hins almáttka
því að hann særir en bindur um,
hann slær en hendur hans græða.
Pistill: Fil 1.20-26
Það er einlæg löngun mín og von að ég verði ekki til smánar í neinu, heldur að ég hafi þann kjark nú eins og ávallt að sýna með lífi mínu og dauða fram á hve mikill Kristur er. Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur.En eigi ég áfram að lifa á jörðinni, þá verður meiri árangur af starfi mínu. Ekki veit ég hvort ég á heldur að kjósa.
Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi því að það væri miklu betra. En ykkar vegna er nauðsynlegra að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu. Og í trausti þess veit ég að ég mun lifa og halda áfram að vera hjá ykkur öllum, ykkur til framfara og gleði í trúnni. Þá kem ég aftur til ykkar og þið finnið enn betur hvílík upphefð það er að fylgja Kristi
Guðspjall: Jóh 11.32-45
María kom þangað sem Jesús var og er hún sá hann féll hún honum til fóta og sagði við hann: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn.“
Þegar Jesús sá hana gráta og þau[ gráta, sem með henni komu, komst hann við, varð djúpt hrærður 34 og sagði: „Hvar hafið þið lagt hann?“
Þau sögðu: „Drottinn, kom þú og sjá.“ Þá grét Jesús. Þau sögðu: „Sjá, hversu hann hefur elskað hann!“ En nokkrir sögðu: „Gat ekki sá maður sem opnaði augu hins blinda einnig varnað því að þessi maður dæi?“
Jesús varð aftur mjög djúpt hrærður og fór til grafarinnar. Hún var hellir og steinn fyrir. Jesús segir: „Takið steininn frá!“
Marta, systir hins dána, segir við hann:
„Drottinn, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag.“
Jesús segir við hana: „Sagði ég þér ekki: Ef þú trúir munt þú sjá dýrð Guðs?“ Nú var steinninn tekinn frá. En Jesús hóf upp augu sín og mælti: „Faðir, ég þakka þér að þú hefur bænheyrt mig. Ég vissi að sönnu að þú heyrir mig ávallt en ég sagði þetta vegna mannfjöldans sem stendur hér umhverfis til þess að fólkið trúi að þú hafir sent mig.“ Að svo mæltu hrópaði hann hárri röddu: „Lasarus, kom út!“ Hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. Jesús segir við fólkið: „Leysið hann og látið hann fara.“ Margir Gyðingar sem komnir voru til Maríu og sáu það sem Jesús gerði tóku nú að trúa á hann.
Sálmur 850
Hver stýrir veröld styrkri hönd
og stjörnur tendrað hefur?
Hver huggar þína hrelldu önd
og hjarta fögnuð gefur?
Það Guð þinn er sem gerir það.
Hann gefur öllu tíð og stað
og býr í brjósti þínu.
Hvert er það vald, sem allt fram knýr,
en ásýn tjöldin hjúpa,
sem innst í vitund allra býr
og allra hné því krjúpa?
Á himni' og jörðu heldur það,
þitt hjarta er því innsiglað,
þess nálægð nær úr fjarska.
Við lífsins barm, við dauðans dyr
vér drúpum þöglum vörum.
Þú sjálfur hnígur síð sem fyr
og seint átt von á svörum.
Ó, vesæll maður, mold ert þú.
Því minnstu Guðs þíns, vak og trú
og bið hann þig að blessa.
Í hjarta þínu Guð þér gaf
sinn geisla úr himins boga.
Lát tendrast þína trú, er svaf,
sem tiginborinn loga.
Í þér er Guð. Í Guði þú.
Frá Guði kemur hjálp þín nú.
Ó, krjúp hans barn til bænar.
Lárus Blöndal