10. sunnudagur eftir þrenningarhátíð - Drottinn og fólk hans / Gjafir náðarinnar
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
„Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði, þjóðin sem hann valdi sér til eignar.“ (Sálm 33.12)
Bæn dagsins:
Trúfasti Guð, þú sem í Jesú Kristi gjörðist maður meðal gyðinganna til hjálpar öllum heimi. Þú varst trúr þeim lýð er þú valdir, en þú raufst múrana og opnaðir öllum þjóðum og öllum mönnum, leið til þín, og þú kallar okkur til að fylgja þér. Styrk þú löngun okkar eftir ríki þínu þar sem kristnir og gyðingar munu sameinast og lofa þig um eilífð. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Hlj 5.1, 11-22
Minnstu þess, Drottinn, hvað hefur á oss dunið, lít þú á og sjá smán vora…..
Konum er nauðgað í Síon,
meyjum í borgum Júda,
höfðingjar gripnir og hengdir,
öldungum engin virðing sýnd.
Æskumennirnir verða að þræla við kvörnina
og sveinarnir hrasa undir viðarbyrðunum.
Öldungarnir eru horfnir úr borgarhliðunum,
æskumennirnir frá strengleikum.
Fögnuður hjartna vorra er horfinn,
gleðidans vor snúinn í sorg.
Kórónan er fallin af höfði voru,
vei oss, því að vér höfum syndgað.
Sökum þessa er hjarta vort sjúkt
og vegna þessa eru augu vor döpur,
vegna Síonarfjalls sem er í eyði
og refir hlaupa nú um.
Þú, Drottinn, ríkir að eilífu,
hásæti þitt stendur frá kyni til kyns.
Hví hefur þú gleymt oss með öllu,
yfirgefið oss svo lengi?
Snú þú oss til þín, Drottinn, þá snúum vér aftur,
endurnýja daga vora eins og til forna.
Eða hefur þú hafnað oss fyrir fullt og allt
og ert oss reiður úr öllu hófi?
Pistill: Róm 11.25-32
Ég vil, bræður mínir og systur,[ að þið varist að ofmeta eigið hyggjuvit. Því vil ég að þið þekkið þennan leyndardóm: Nokkur hluti Ísraels er forhertur orðinn og það varir uns allir heiðingjar eru komnir inn. En þá mun allur Ísrael frelsast eins og ritað er: „Frá Síon mun frelsarinn koma og útrýma guðleysi frá Jakob. Og þetta er sáttmáli minn við þá þegar ég tek burt syndir þeirra.“ Í ljósi fagnaðarerindisins eru þeir óvinir Guðs. Það varð til þess að þið fenguð að heyra fagnaðarerindið. En í ljósi útvalningar sinnar eru þeir elskaðir sakir forfeðranna. Guð iðrar ekki náðargjafa sinna og köllunar. Þið voruð fyrrum óhlýðin Guði en hafið nú hlotið miskunn vegna óhlýðni þeirra. Eins hafa þeir nú orðið óhlýðnir svo að þið hlytuð miskunn til þess að þeim mætti einnig verða miskunnað. Guð hefur gefið alla menn óhlýðninni á vald til þess að hann geti miskunnað öllum.
Guðspjall: Jóh 4.19-26
Konan segir við hann: „Drottinn, nú sé ég að þú ert spámaður. Feður okkar hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli en þið segið að í Jerúsalem sé sá staður þar sem tilbiðja skuli.“
Jesús segir við hana: „Trú þú mér, kona. Sú stund kemur að þið munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem. Þið tilbiðjið það sem þið þekkið ekki. Við tilbiðjum það sem við þekkjum því hjálpræðið kemur frá Gyðingum. En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra tilbiðjenda. Guð er andi og þeir sem tilbiðja hann eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“ Konan segir við hann: „Ég veit að Messías kemur – það er Kristur. Þegar hann kemur mun hann kunngjöra okkur allt.“ Jesús segir við hana: „Ég er hann, ég sem við þig tala.“
Sálmur 727
Er hjartað nístir hryggðin sár
og hvarma lauga tár,
þá signir Drottinn sorgar und
og sefar dapra lund.
Hann gefur von og viljans gnótt
er veitir nýjan þrótt
því lífi sem er þrautum þjáð
og þráir styrk og náð.
Hann, æðsta nafn af öllum ber,
sem ávallt veitir þér
þá miskunn sem að bætir böl
og beiska sálar kvöl.
Hann gefur blessað ljósið blítt
og boðar lífið nýtt,
í frelsi sem þá færir þér
þann frið sem mestur er.
Hann heitir Jesús, hirðirinn
sem helgar söknuð þinn,
er líknarhönd hans ljúf og góð
þig leiðir dimma slóð.
Hann bendir þér á bjarta leið -
þá braut sem verður greið,
og liggur sorgar fjötrum frá
í fögnuð, Drottni hjá.
Bragi J. Ingibergsson