6. sunnudagur páskatímans Exaudi: Söfnuðurinn bíður / Hjálparinn kemur
Litur: Hvítur eða rauður.Vers vikunnar: Jóh 12.32
Jesús segir: „Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu mun ég draga alla til mín.“
Kollekta:
Almáttugi, eilífi Guð: Gef að vilji okkar sé ætíð helgaður þér og að við þjónum hátign þinni af einlægu hjarta. Fyrir son þinn Jesú Krist sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Esk 37.26-28
Ég mun gera við þá sáttmála þeim til heilla og það skal verða ævarandi sáttmáli við þá. Ég mun fjölga þeim og setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra um alla framtíð. Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín. Þjóðirnar munu skilja að ég er Drottinn sem helgar Ísrael þegar helgidómur minn verður ævinlega á meðal þeirra.
Pistill: 1Pét 4.7-11
En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla. 1Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónar sýni að Guð gefi máttinn til þess. Verði svo Guð vegsamaður í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.
Guðspjall: Jóh 15.26-16.4
Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi.
Þetta hef ég talað til yðar svo að þér fallið ekki frá. Þeir munu gera yður samkunduræk. Já, sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. Þetta hef ég talað til yðar til þess að þér minnist þess að ég sagði yður það þegar stund þeirra kemur.
Sálmur: 330
Ó, Guð, mér anda gefðu þinn
er glæðir kærleik, von og trú,
og veit hann helgi vilja minn,
svo vilji’ eg það, sem elskar þú.
Æ, lát hann stjórna lífi’ og sál,
að lifi’ eg eins og kristnum ber,
og öll mín hugsun, athöfn, mál,
til æviloka helgist þér.
Þig, sem hið góða gefur allt,
ó, Guð, af hjarta bið ég nú:
Við ótta þinn mér ætíð halt
við elsku þína’ og sanna trú.
Minn greiði veg þín gæskan blíð,
svo geti’ eg trúr mitt runnið skeið,
en þegar lyktar lífsins stríð,
mér líkna þú í dauðans neyð.
Að ég sé blessað barnið þitt,
ég bið þinn andi vitni þá.
Æ, heyr þú hjartans málið mitt,
vor mildi faðir himnum ! á.
Sb. 1871 – Páll Jónsson