3. sunnudagur í aðventu – Fyrirrennarinn Fyrirrennari Drottins. Greiðið Drottni veg
3. sunnudagur í aðventu – FyrirrennarinnFyrirrennari Drottins. Greiðið Drottni veg
Litur: Fjólublár, rósbleikur eða rauðbleikur. Dýrðarsöngur/lofgjörð ekki sungin.
Vers vikunnar:
„Greiðið Drottni veg“ „Sjá, Guð yðar kemur“ (Jes 40.3 og 10)
Þriðja lestraröð
Bæn dagsins / kollektan
Drottinn Guð. Þú ert á leiðinni til okkar. Við viljum mæta þér en það er svo margt sem
hindrar okkur í að taka á móti gæsku þinni. Yfirvinn það sem skilur okkur frá þér svo við
mætum þér sem ert þegar kominn í Jesú Kristi og vilt vera hjá okkur með anda þínum að
eilífu. Amen.
Lexía Jes. 61:1-4
Andi Drottins er yfir mér
því að Drottinn hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
til að græða þá sem hafa sundurmarin hjörtu,
boða föngum lausn
og fjötruðum frelsi,
til að boða náðarár Drottins
og hefndardag Guðs vors,
til að hugga þá sem hryggir eru
og setja höfuðdjásn í stað ösku
á syrgjendur í Síon,
fagnaðarolíu í stað sorgarklæða,
skartklæði í stað hugleysis.
Þeir verða nefndir réttlætiseikur,
garður Drottins sem birtir dýrð hans.
Þeir munu endurreisa fornar rústir,
reisa það við sem féll fyrir löngu,
endurbyggja eyddar borgir
sem legið hafa í rústum kynslóð eftir kynslóð.
Pistill I. Þess 5:16-24
Verið ætíð glöð. Biðjið án afláts. Þakkið alla hluti því að það er vilji Guðs með ykkur í Kristi
Jesú. Slökkvið ekki andann. Fyrirlítið ekki spádómsorð. Prófið allt, haldið því sem gott er. En
forðist allt illt í hvaða mynd sem er. En sjálfur friðarins Guð helgi yður algerlega og andi
yðar, sál og líkami varðveitist alheil og vammlaus við komu Drottins vors Jesú Krists. Trúr er
sá er yður kallar, hann mun koma þessu til leiðar.
Guðspjall Lúk. 1:67-80
En Sakaría faðir hans fylltist heilögum anda og mælti af spámannlegri andagift:
Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels,
því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn.
Hann hefur reist oss horn hjálpræðis
í húsi Davíðs þjóns síns
eins og hann talaði fyrir munn sinna heilögu spámanna frá öndverðu,
frelsun frá óvinum vorum
og úr höndum allra er hata oss.
Hann hefur auðsýnt feðrum vorum miskunn
og minnst síns heilaga sáttmála,
þess eiðs er hann sór Abraham föður vorum
að hrífa oss úr höndum óvina
og veita oss að þjóna sér óttalaust
í heilagleik og réttlæti fyrir augum hans alla daga vora.
Og þú, sveinn, munt nefndur verða spámaður Hins hæsta
því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans
og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu
sem er fyrirgefning synda þeirra.
Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors.
Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor
og lýsa þeim sem sitja í myrkri og skugga dauðans
og beina fótum vorum á friðar veg.
En sveinninn óx og varð þróttmikill í anda. Hann dvaldist í óbyggðum til þess dags er hann
skyldi koma fram fyrir Ísrael.
Sálmur vikunnar Sb 17
1 Hér leggur skip að landi
sem langt af öllum ber
en mest ber frá um farminn
sem fluttur með því er.
2 Þar kemur sæll af sævi
Guðs son með dýran auð:
Síns föður náð og frelsi,
hans frið og lífsins brauð.
3 Hann braust í gegnum brimið
við bjargarlausa strönd
að seðja, líkna, lækna
og leysa dauðans bönd.
4 Sinn auð hann fús vill færa
þeim fátæku á jörð
og endurgjaldið eina
er ást og þakkargjörð.
T Johannes Tauler 14. öld – Sigurbjörn Einarsson 1987 – Vb. 1991