1. sunnudagur í föstu (Invokavit) - Freistingin / Prófið
Litur: Fjólublár.
Vers vikunnar: 1Jóh 3.8b
Til þess birtist Guðs sonur að hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins.
Kollekta:
Drottinn, við biðjum þig: Lít þú mildilega til lýðs þíns og vík í miskunn frá honum öllu því, sem gegn honum rís. Fyrir son þinn Drottin Jesú Krist sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: 1Mós 3.1-24
Höggormurinn var slóttugri en öll dýr merkurinnar sem Drottinn Guð hafði gert. Hann sagði við konuna: „Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?“
Konan svaraði höggorminum: „Við megum eta af ávöxtum trjánna í aldingarðinum en um ávöxt trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, sagði Guð: Af honum megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.“ Þá sagði höggormurinn við konuna: „Sannið til, þið munuð ekki deyja. En Guð veit að um leið og þið etið af honum ljúkast augu ykkar upp og þið verðið eins og Guð og skynjið gott og illt.“
Þá sá konan að tréð var gott af að eta, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks. Hún tók af ávexti þess og át og gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át. Þá lukust upp augu þeirra beggja og þeim varð ljóst að þau voru nakin. Þau saumuðu því saman fíkjuviðarblöð og gerðu sér mittisskýlur.
Þá heyrðu þau til Drottins Guðs sem gekk um í aldingarðinum í kvöldsvalanum og maðurinn og kona hans földu sig fyrir augliti Drottins milli trjánna í aldingarðinum. Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: „Hvar ertu?“ Og hann svaraði: „Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur því að ég er nakinn, og ég faldi mig.“ Hann sagði: „Hver sagði þér að þú værir nakinn? Hefur þú etið af trénu sem ég bannaði þér að eta af?“ Maðurinn mælti: „Konan sem þú hefur sett mér við hlið, hún gaf mér af trénu og ég át.“ Þá sagði Drottinn Guð við konuna: „Hvað hefurðu gert?“ Konan svaraði: „Höggormurinn tældi mig og ég át.“
Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn:
Af því að þú gerðir þetta
skaltu vera bölvaður
meðal alls fénaðarins
og meðal allra dýra merkurinnar.
Á kviði þínum skaltu skríða
og mold eta
alla þína ævidaga.
Ég set fjandskap
milli þín og konunnar
og milli þinna niðja og hennar niðja.
Þeir skulu merja höfuð þitt
og þú skalt höggva þá í hælinn.
Við konuna sagði hann:
Mikla mun ég gera þjáningu þína
er þú verður barnshafandi.
Með þraut skaltu börn fæða,
samt skaltu hafa löngun til manns þíns
en hann skal drottna yfir þér.
Við Adam sagði hann:
Vegna þess að þú hlýddir röddu konu þinnar
og ást af trénu sem ég bannaði þér að eta af,
þá sé akurlendið bölvað þín vegna.
Með erfiði skaltu hafa viðurværi af því
alla þína ævidaga.
Þyrna og þistla skal landið gefa af sér
og þú skalt lifa á grösum merkurinnar.
Í sveita þíns andlitis skaltu brauðs þíns neyta
þar til þú hverfur aftur til jarðarinnar
því af henni ertu tekinn.
Því að mold ert þú
og til moldar skaltu aftur hverfa.
Adam nefndi konu sína Evu því að hún varð móðir allra sem lifa. Og Drottinn Guð gerði skinnkyrtla handa Adam og konu hans og lét þau klæðast þeim.
Og Drottinn Guð sagði: „Nú er maðurinn orðinn sem einn af oss fyrst hann ber skyn á gott og illt. Bara að hann rétti nú ekki út hönd sína, taki einnig af lífsins tré og eti og lifi eilíflega.“
Og Drottinn Guð lét manninn fara úr aldingarðinum Eden til þess að yrkja jörðina sem hann var tekinn af. Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Eden og loga hins sveipanda sverðs til þess að gæta vegarins að lífsins tré.
Pistill: 2Kor 6.1-10
Sem samverkamaður Krists hvet ég ykkur einnig að þið látið ekki náð Guðs, sem þið hafið þegið, verða til einskis. Hann segir:
Á hagkvæmri tíð bænheyrði ég þig,
og á hjálpræðisdegi hjálpaði ég þér.
Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur. Í engu vil ég gefa neinum tilefni til ásteytingar, ég vil ekki að þjónusta mín sæti lasti. Í öllu læt ég sjást að ég er þjónn Guðs: Með miklu þolgæði í þrengingum, nauðum og andstreymi, þegar ég hef mátt þola barsmíðar, verið í fangelsi, orðið fyrir aðsúg, í erfiði mínu, andvökum og sulti, með grandvarleik, þekkingu, þolinmæði og mildi, með heilögum anda, með falslausum kærleika, með orði sannleikans, með krafti Guðs, með vopnum réttlætisins til sóknar og varnar, í heiðri og vanheiðri, lasti og lofi. Þótt talinn sé villumaður segi ég sannleikann, sagður óþekktur en er alþekktur, kominn í dauðann og samt lifi ég, tyftaður og þó ekki deyddur, hryggur en þó ávallt glaður, fátækur en auðga þó marga, öreigi en á þó allt.
Guðspjall: Matt 4.1-11
Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina til þess að djöfullinn gæti freistað hans. Þar fastaði Jesús fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður. Þá kom djöfullinn og sagði við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá bjóð þú að steinar þessir verði að brauðum.“
Jesús svaraði: „Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“
Þá tekur djöfullinn Jesú með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins og segir við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá kasta þér ofan því að ritað er:
Hann mun fela þig englum sínum
og þeir munu bera þig á höndum sér
að þú steytir ekki fót þinn við steini.“
Jesús svaraði honum: „Aftur er ritað: Þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns.“
Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“
En Jesús sagði við hann: „Vík brott, Satan! Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“
Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum.
Sálmur: 124
Við freistingum gæt þín og falli þig ver,
því freisting hver unnin til sigurs þig ber.
Gakk öruggur rakleitt mót ástríðu her,
en ætíð haf Jesú í verki með þér.
Hinn vonda soll varast, en vanda þitt mál,
og geymdu nafn Guðs þíns í grandvarri sál,
ver dyggur, ver sannur, því Drottinn þig sér,
haf daglega Jesú í verki með þér.
Hver sá, er hér sigrar, skal sigurkrans fá,
í trúnni vér vinnum, þótt verði margt á,
því sá, er oss hjálpar, við hrösun oss ver.
Ó, hafðu þinn Jesú í verki með þér.
Palmer – Sb. 1886 – Matthías Jochumsson