6. Sunnudagur e.trin - Líf í skírnarnáð
6. Sunnudagur e.trin - Líf í skírnarnáð
Vers vikunnar:
Nú segir Drottin svo, sá sem myndaði þig Ísrael: óttast þú eigi, því að ég frelsa þig. Ég kalla
þig með nafni, þú ert minn. Jes.43,1.
Bæn dagsins / kollektan
Trúfasti Guð, þú sem í heilagri skírn gjörðir okkur að þínum börnum, og kallaðir okkur með
nafni til að vera þín eign. Leyfðu okkur að ganga í gleði og trúfesti vegu lífsins og reyna að
ekkert getur gjört okkur viðskila við kærleika þinn sem þú gafst okkur í Jesú Kristi þínum
kæra syni og bróður okkar. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía 5Mós 7.6-12
[Því að] þú ert heilög þjóð fyrir Drottni Guði þínum. Drottinn valdi þig til að verða
eignarlýður hans meðal allra þjóða sem búa á yfirborði jarðar. Ekki var það vegna þess að þið
væruð fjölmennari en allar aðrar þjóðir að Drottinn fékk ást á ykkur og valdi ykkur því að þið
eruð fámennari en allar aðrar þjóðir. En sökum þess að Drottinn elskaði ykkur og hélt eiðinn
sem hann sór feðrum ykkar leiddi hann ykkur út úr þrælahúsinu með sterkri hendi og keypti
ykkur frjálsa úr hendi faraós Egyptalandskonungs. Vita skaltu: Drottinn, Guð þinn, hann einn
er Guð, hinn trúfasti Guð sem heldur sáttmálann og veitir þeim heill í þúsund ættliði sem
elska hann og halda boðorð hans. En hann endurgeldur þeim umsvifalaust sem hatar hann og
afmáir hann. Hann hikar ekki heldur endurgeldur þeim umsvifalaust sem hatar hann. Þess
vegna skaltu halda fyrirmælin, lögin og ákvæðin, sem ég set þér nú í dag, og framfylgja
þeim.
Ef þið hlýðið á þessi ákvæði og haldið þau af kostgæfni mun Drottinn halda sáttmálann við
þig og veita þér þá heill sem hann hét feðrum þínum.
Pistill Post 8.26-39
En engill Drottins mælti til Filippusar: „Statt upp og gakk suður á veginn sem liggur ofan frá
Jerúsalem til Gasa.“ Þar er óbyggð. Hann hlýddi og fór. Þá bar að mann frá Eþíópíu. Hann
var háttsettur hirðmaður hjá drottningu Eþíópa, sem kallast Kandake, og settur yfir alla
fjárhirslu hennar. Hann hafði farið til Jerúsalem til að biðjast fyrir og var á heimleið, sat í
vagni sínum og las Jesaja spámann. Andinn sagði þá við Filippus: „Gakk að þessum vagni og
vertu sem næst honum.“ Filippus skundaði þangað og heyrði manninn vera að lesa Jesaja
spámann. Hann spurði: „Hvort skilur þú það sem þú ert að lesa?“ Hinn svaraði: „Hvernig ætti
ég að geta það ef enginn leiðbeinir mér?“ Og hann bað Filippus stíga upp í og setjast hjá sér.
En orð þeirrar ritningar, sem hann var að lesa, voru þessi: Eins og sauður sem leiddur er til
slátrunar, eða eins og lamb sem þegir fyrir þeim er rýja það, svo lauk hann ekki upp munni
sínum. Hann var niðurlægður en Guð nam brott sektardóm hans. Hver getur sagt frá ætt hans
því að líf hans var hrifið burt af jörðinni? Hirðmaðurinn mælti þá við Filippus: „Seg þú mér:
Um hvern segir spámaðurinn þetta, sjálfan sig eða einhvern annan?“ Filippus tók þá til orða,
hóf máls á ritningu þessari og boðaði honum fagnaðarerindið um Jesú. Þegar þeir fóru áfram
veginn komu þeir að vatni nokkru. Þá mælti hirðmaðurinn: „Hér er vatn, hvað hamlar mér að
skírast?“ Filippus sagði: „Ef þú trúir af öllu hjarta er það heimilt.“ Hirðmaðurinn svaraði
honum: „Ég trúi að Jesús Kristur sé sonur Guðs.“Hann lét stöðva vagninn og stigu báðir
niður í vatnið, Filippus og hirðmaðurinn, og Filippus skírði hann. En er þeir stigu upp úr
vatninu hreif andi Drottins Filippus burt. Hirðmaðurinn sá hann ekki framar og fór fagnandi
leiðar sinnar.
Guðspjall Mk. 16.15-16
Jesús sagði við þá: „Farið út um allan heim og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni. Sá
sem trúir og skírist mun hólpinn verða en sá sem trúir ekki mun dæmdur verða.
Sálmur Sb 353
1. Guð á svo stórt og fallegt fang,
í faðm hann tekur sinn
hvert barn, sem Jesús blessar í skírn,
og boðar: Ég er þinn.
2. Guð á svo stóra, bjarta bók,
hann brosir og færir þar inn
hvert barn, sem Jesús blessar í skírn,
og bókar: Þú ert minn.
3. Guð á sinn himin, hann er stór,
í hann ég stefni inn
og börnin öll, sem eru skírð
og elska Drottin sinn.
4. Þín ást er rík og undrastór,
lát ekkert villa mig
af vegi þínum, góði Guð,
sem gafst mér sjálfan þig.
Sam Perman , Sigurbjörn Einarsson