Boðunardagur Maríu – 25. mars
Boðunardagur Maríu er 25. mars, en er oft haldinn hátíðlegur 5. sunnudag í föstu (iudica). Litur: Hvítur. Dýrðarsöngur/lofgjörð eru sungin.Vers vikunnar:
„En þegar fylling tímans kom sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli -“ (Gal 4.4)
Kollekta:
Drottinn Guð, vér biðjum þig: Vitja vor í náð og gef, að vér sem samkvæmt boðun engilsins vitum, að eilífur sonur þinn fæddist af Maríu meyju, megum sakir krossferils hans fæðast til himneskrar dýrðar upprisu hans, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Lexía: Mík 5.2-3
Því verður þjóðin yfirgefin
þar til sú hefur fætt er fæða skal.
Þá munu þeir sem eftir lifa ættmenna hans
snúa aftur til Ísraels lýðs.
Hann mun standa sem hirðir þeirra
í krafti Drottins,
í mætti nafns Drottins, Guðs síns,
og þeir óhultir verða.
Þá munu menn mikla hann
allt til endimarka jarðar.
Pistill: Opb 21.3-7
Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu er sagði: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“
Sá sem í hásætinu sat sagði: „Sjá, ég geri alla hluti nýja,“ og hann segir: „Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.“ Og hann sagði við mig: „Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns. Sá er sigrar mun erfa þetta og ég mun vera hans Guð og hann mun vera mitt barn.
Guðspjall: Lúk 1.26-38
En í sjötta mánuði sendi Guð Gabríel engil til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret, til meyjar er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs en mærin hét María. Og engillinn kom inn til hennar og sagði: „Heil vert þú sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.“
En María varð hrædd við þessi orð og hugleiddi hvað þessi kveðja ætti að merkja. Og engillinn sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu og á ríki hans mun enginn endir verða.“
Þá sagði María við engilinn: „Hvernig má þetta verða þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?“
Og engillinn sagði við hana: „Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur Hins hæsta mun yfirskyggja þig. Þess vegna verður barnið heilagt, sonur Guðs. Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni og þetta er sjötti mánuður hennar sem kölluð var óbyrja en Guði er enginn hlutur um megn.“
Þá sagði María: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ Og engillinn fór burt frá henni.
Sálmur: 573
Nú gleðifregn oss flutt er ný
úr fögrum himinsölum:
Sá Guð, er hæst býr hæðum í,
vill hér í jarðardölum
oss búa hjá; um blessun þá
og birta leyndardóma
Guðs engla raddir óma.
Ein kyrrlát mær þá kveðju fær,
sem kætir bæði’ og hræðir,
að hennar sonur hjartakær,
er hún á síðan fæðir,
það veldi fær, er voldugt nær
um víðar heimsins álfur
og hærra’ en himinn sjálfur.
Við mey þá engill mæla réð:
“Þú munt af himnum þiggja
Guðs anda gjöf; þig mun þar með
Guðs máttur yfirskyggja.
Og lífs þíns von, þinn ljúfa son,
þú lausnara skalt kalla,
hann endurleysir alla.”
Lát kraft þinn, Jesús, Jesús minn,
mig jafnan yfirskyggja,
og lát þitt orð og anda þinn
mér æ í hjarta byggja,
svo ég sé þinn og þú sért minn
og þinn æ minn sé vilji
og ekkert okkur skilji.
Þitt himnaríki’ í hjarta mér
þinn helgur andi búi,
svo hafni’ eg því, sem holdlegt er,
en hjarta til þín snúi,
uns englum jafnt þitt Jesúnafn
fæ ég með þeim að róma
hjá þér í lífsins ljóma.
Valdimar Briem þýddi
Bæn dagsins:
Eilífi Guð, þú sem forðum sendir engil þinn til Maríu til að boða henni að fyrir hana skyldi þitt eilífa Orð verða maður til þess að við mættum frelsast. Gef þú okkur eins og Maríu að mega taka á móti náð þinni og kærleika í auðmýkt og í trausti til þín svo að veröldin öll megi þekkja þig og frelsara sinn, Drottin Jesú Krist. Við biðjum í hans nafni. Amen.