Hver hefur ákveðið og ákveður ýmislegt í lífi mínu? T.d. að ég er karlmaður, að ég er Japani, að ég bý núna í Vesturbænum, að ég er fráskilinn en á tvö yndisleg börn, að ég er fylgismaður NY Yankees, að ég borða núðlur í kvöld en ekki nautasteik o.fl.
Er það Guð? Heppni? Tími og staðurinn þar sem ég bý? Örlög sköpuð í einhvers stað? Eða ég sjálfur? Línan er ekki endilega skýr, á milli þess sem við getum ákveðið sjálf eða stjórnað og þess sem við getum ekki. Stundum ruglumst við og reynum að ákveða eitthvað sem við höfum ekki stjórn á, eða við skautum framhjá ákvörðun sem við berum ábyrgð á, með því að misskilja og láta sem hún tilheyri okkur ekki.
Eins er margt sem við hugsum ekki sérstaklega um, hvort maður ætti að taka ákvörðun um eða ekki.
Hluti af lífi okkar sem við viðurkennum ekki
Við getum ímyndað okkur dæmi um slíka hegðun þegar við komum á kassa í Hagkaupum eða Krónunni. Bjóðum við afgreiðslufólkinu góðan daginn vingjarnlega og brosandi? Eða er framkoma okkar bara tilfinningalaus eða pirrandi?
Ég er oftast háður því sem afgreiðslufólkið gerir. Ef það er kurteist, þá er ég kurteis og ef það heilsar ekki, heilsa ég ekki heldur. Í hreinskilni sagt, hef ég hingað til ekki hugsað um þetta sem ,,ákvörðun mína“ s.s. hvernig ég ætti að haga mér við afgreiðslukassa. En í rauninni er það mín ákvörðun.
Ef einhver maður kemur til mín og heilsar ekki almennilega, þá held ég að hann kunni enga mannasiði. Þ.e. sá sem ekki heilsar öðrum almennilega er í mínum huga maður sem á að haga sér betur. Ég sjálfur vill ekki vera þannig maður eða álitinn sem slíkur.
Engu að síður, ef ég er háður viðmóti starfsfólks á kassa í búð, hvort ég heilsa því almennilega eða ekki, gæti ég einmitt orðið að þeim manni sem ég virði ekki. Það er ekki gott.
Ástæða þess að slíkt gerist hjá mér, og ef til vill hjá mörgum öðrum, er sú að þannig framkoma er ekki afleiðing stórrar ákvörðunar eins og t.d. hvaða flokk ég kýs í kosningum, heldur er hún næstum ómeðvituð hversdagsleg viðbrögð. Að henda rusli á götuna, að skilja eftir hundaskít fyrir framan annarra manna hús, að þakka ekki almennilega fyrir hjálp frá öðrum… skipta slík smáatriði okkur ekki máli?
Þetta er það sem við viðurkennum ekki sem hluta af lífi okkar, hluta af okkur sjálfum, en samt er það staðreynd. Þess vegna má benda mér á ef ég geri eitthvað slíkt, og segja: ,,Nú, Toshiki. Þú ert svona maður! Hananú“.
Ljótt orð er ekki mál sem varðar mannkosti mína?
Um daginn kom flóð skítugra ummæla og hatursorða sem rann gegnum netheiminn í þjóðfélagi okkar eftir að fréttir bárust um HIV smitaðan mann sem var jafnframt umsækjandi um alþjóðlega vernd. Margir alhæfðu gjarnan neikvætt um alla umsækjendur um alþjóðlega vernd og skrifuðu niðrandi orð í kommentakerfin.
Slíkt er alls ekki nýtt fyrirbæri eins og við vitum, en oft eru múslímar eða flóttamen skotmark þeirra hatursorða.
Ég hef velt þessu fyrirbæri fyrir mér og spurt sjálfan mig hvort þessi skítaummæli væru afleiðing velhugsaðrar ákvörðunar eða frekar tillitslaus en asnaleg framkoma. En jafnvel þó að þetta sé tillitslaus framkoma, er framkoma af þessu tagi alls ekki saklaus. Skítug orð særðu margar saklausar manneskjur.
Mér sýndist fólkið sem skrifaði niðrandi ummæli í kommentakerfin vera ,,venjulegt fólk“. Eftir því sem ég best gat séð á netinu, voru það bæði karlar og konur, ungir sem gamlir og fólk í alls konar störfum.
Þarna gætu hafa skrifað einhverjir aðilar sem tilheyra samtökum með ákveðnar hugmyndir gegn útlendingum, en samt virtist meirihlutinn ekki tilheyra slíkum samtökum. Staðreyndin er sú að þetta fólk viðrar ekki skoðanir sínar opinberlega eða í samfélaginu nema þegar það skrifar ljót orð í kommentakerfin. Það sýnir að þetta eru hvorki útlendingahatar né alvöru rasistar, því ef svo væri myndu þeir opinbera skoðanir sínar skýrar. En það gerir fólk ekki.
Því lít ég svo á að þetta fólk sé ekki virkir rasistar heldur misnoti tækifærið til að úthrópa sig án djúprar hugsunar og lætur sér líða eins og það hafi síðasta orðið. ,,Þetta er ekki mál sem varðar mannkosti mína“ gæti fólk hafa hugsað, af því að það telur þetta ekki vera ,,stóran hluta“ lífs síns, heldur bara ,,aukaskemmtun“ fyrir sig.
,,Vertu næs“ við náungann, varðar okkur sjálf
En þetta er misskilningur. Maður þarf að bera ábyrgð á því, sem maður lætur út úr sér. Maður getur ekki fullyrt eins og: ,,Þessi framkoma og ljótu orð tilheyra ekki sönnum mér sjálfum/sannri mér sjálfri, af því að ég sagði þau bara til að skemmta mér og ekkert meira en það. Ég er ekki svona manneskja“.
Einhvern tíma gæti umsækjandi um alþjóðlega vernd birtist fyrir framan manninn og fjölskyldu hans og sagt: ,,Þessi ummæli eru um mig. Þú þekkir mig ekki einu sinni. Af hverju sagðir þú þetta? Þessi skítaorð, þau eru þú. Þú ert svona manneskja. Hananú!“.
Hvernig líður manninum? Hvernig sjá börnin föður sinn? Vill hann vera svona maður í alvöru? Hvað segir hann þegar hann fattar að hann er einmitt metinn og dæmdur eftir ljótum orðum sem hann hefur kastað fram, án þess að hugsa? Getur maður verið stoltur af sér vegna þess?
Þegar allt kemur til alls, er það maður sjálfur sem maður hefur verið að særa og skíta út. ,,Vertu næs“ varðar ekki aðeins náunga okkar. Það varðar fyrst og fremst okkur sjálf, hvers konar manneskja sérhver okkar er eða vill vera. Verum næs við okkur sjálf, með því að vera næs við náunga okkar.