Hver ert þú?

Hver ert þú?

Jólasveinarnir koma í röðum þessa dagana. Þeir tjá svo sannarlega eftirtekarverðan boðskap. Svo er Jóhannes skírari til íhugunar á fjórða sunnudegi í aðventu. Hvað eiga jólasveinar, Jóhannes og við sameiginlegt? Spurninguna: Hver ert þú? Og við megum gjarnan reyna að svara.

Í gærmorgun fór ég og fjölskyldan í Þjóðminjasafnið til að hitta Askasleiki, sem hefur áhuga á að þrífa matarílát. Með sömu snilld og undanfarin ár stjórnaði Guðni Franzson samverunni, spilaði á hljóðfærið og stýrði fjöldasöng. Þetta var skemmtileg stund og fjölsótt.

Eins og við, hin eldri, hafa drengirnir mínir gaman af þessum “jólasveinaferðum.” Þeir voru óðamála á heimleið og þurftu að tala um upplifun sína og tilfinningar. Ótti þeirra við jólasveinana er snöggtum minni en í fyrra og nú eru hinar rýnandi skynsemisspurningar orðnar meira áberandi. Annar drengjanna stoppaði mig á leiðinni úr safninu og spurði: “Var Askasleikir raunverulegur jólasveinn eða var þetta maður sem var að leika hann?” Og pabbinn sem hvorki vill eyðileggja ævintýrið né raunveruleikann, heiðarleikann eða gleðina, sagði drengnum sínum að hann héldi að þetta hafi ekki verið jólasveinn úr Esjunni, heldur kannski duglegur maður, sem hafi verið að leika. Af hverju héldi pabbinn það? Jú, vegna þess að jólasveinar væru eiginlega hluti af ævintýraveröldinni sem væri mjög merkileg og við gætum farið inn í þegar við notuðum ímyndunarafl okkar. Og ævintýraveröldin væri mikilvæg og dýrmæt - við mættum aldrei skemma hana, heldur leyfa henni að skemmta okkur, gleðja og vekja í okkur visku. Og svo hélt ég áfram, að þannig væri með skáldsögurnar, bækurnar sem ég væri að lesa fyrir hann. Það væri söguveröldin, sem væri hluti af ævintýraveröldinni. Sú veröld kenndi okkur margt og svo væru kvikmyndirnar hluti þess veruleika líka. Við ættum ekki að ruglast á veröldum, heldur ættum að reyna að skilja eðli og gildi hverrar veraldar og leyfa því að flæða á milli sem væri mikilvægt.

Jólasveinar væru hluti af ævintýrinu og ættu sér bara leikandi fulltrúa í þessari veröld. Ævintýraveröld er ekki raunveröld, en báðir heimar væru mikilvægir. Hvað er jólasveinn? Hver er merking hans, raunvera, tilgangur og eðli? Að læra á mörkin og tengsl veraldanna er hluti þess að verða heilbrigð, vitur manneskja.

Hver ertu? Spurning guðspjallstexta dagsins er tengd þessum jólasveinapælingum. Hún er skýr og skörp: Hver ert þú? Þetta er sakleysisleg spurning en þó ein sú erfiðasta sem við glímum við. Þetta er spurning fyrir mikilvægu stundir lífsins. Við getum lifað á mörgum plönum og víddum. Ein víddin er ævintýraveröldin, sem getur skemmt okkur og kennt margt. Svo er veröld sýndarveruleika og ásýndar. Hvað við viljum að aðrir sjái og trúi um okkur? Svo eru leikritin, sem fólk býr til um sig og leikur oft listilega vel til að búa til vitund og boðskap um sig. Við, prestar, sjáum stundum meistarastykki af því taginu þegar við tölum við fólk á krossgötum lífsins. Svo er að baki ásýndinni það, sem fólk vill ekki að komi í ljós og í sum tilvikum veit það ekki af, bældar minningar, bæld bernska, hulin fortíðarmál.

Ef ég vissi það nú Hver ert þú? Saga var sögð af manni sem sat hugsi á bekk í almenningsgarði. Hann var djúpt sokkinn í eigin þanka og á kafi í eigin hugarheimi. Lögreglumaður gekk hjá og leist ekki á ástand mannsins. Þegar hann gekk svo aftur hjá var maðurinn jafn fjarlægur og áður. Löggan fór því til hans og spurði. “Hver ertu?” Maðurinn rankaði við sér en svaraði ráðvilltur: “Ef ég vissi það nú”! (þessa sögu fékk ég úr smiðju sr. Guðmundar Guðmundssonar, héraðsprests)

Hver ert þú? Við erum verur margra heima. En dýpst og innst er það, sem er okkar innsta inni, við sjálf, persónudýpt okkar. Ef sýndarveröld eða ævintýraveröld yfirtekur þá dýpt og fyllir sjálf okkar erum við byrjuð að deyja. Það er við dýptina sem Guð vill tala og eiga þar heima.

Jóhannes Hver ert þú? Stjórnvöld í Jerúsalem voru stressuð. Þau höfðu gert sér grein fyrir að alþýðuprédikarinn Jóhannes skírari var farinn að valda óróa. Hver var hann eiginlega? Margir höfðu fordóma gegn Jóhannesi og þótti hann skítugur og illa lyktandi utangarðsmaður. En nú var einhvers konar búsáhaldabylting andans hafin. Fólk var farið að streyma til hans og allt að fara úr böndum. Embættismenn og þar með taldir prestar voru sendir til að spyrja hann sjálfan. Hver ertu?

Jóhannes var ekki í neinum vandræðum með ásýnd og raunveru, veruleika og ævintýri, sjálfsmynd sína, styrkleika, veikleika, ógnir og tækifæri. “Nei, ég er ekki Messías,” sagði hann, “ekki heldur Móse eða einhver spámaður. Ég undirbý komu hans sem Guð sendir. Ég bý til veginn og leiðina, ég er í vegagerð Guðs – eða þekkið þið ekki spádómana um hann í hinum fornu bókum?”

Var Jóhannes hættulegur? Hann var boðberi, eiginlega undanfari. Annar flokkur fór og fékk sömu upplýsingar nema að sá sem á eftir kæmi væri svo mikilvægur, að Jóhannes skírari væri ekki einu sinni verður að hnýta skóþveng hans. Þá var alveg ljóst að annað hvort væri Jóhannes alger auli eða stórhættulegur.

Jóhannes skírari undirbjó jólin. Á undan jólum er aðventan. Aðventan er ekki nafn á tíma, sem merkir eitthvað ótilgreint og almennt. Orðið aðventa merkir að koma. Koma hvers? Koma Herra himinsins, adventus Domini. Það er hann, en ekki eitthvert almennt, vera hans og persóna sem skilgreinir jólin og ekkert annað. Hann skilgreinir aðventuna. Við höldum aðventu í von um komu Jesúbarnsins, að Guð komi í heiminn. Og þegar þýðingarfræði biblíunnar er skoðuð kemur í ljós að latneska orðið adventus er notað til að þýða gríska orðið parousia, sem er orðið í Nýja testamentinu, sem er notað um endurkomu Jesú. Aðventa er því tíminn sem er til að vænta þess að Jesús komi raunverulega aftur.

Það er því ekkert undarlegt að frásögn um Jóhannes skírara sé sett á aðventutímann, síðasta sunnudag fyrir jól. Við, menn, erum eiginlega í stöðu Jóhannesar. Við bíðum komu sendiboða himinsins. Við megum vænta sálarkonungs, friðarhöfðingja, lausnara og frelsara. Jóhannes sagði skýrt, að hann væri þjónn þess sem á eftir kæmi. Það svar er því ljómandi skilgreining á eðli trúar í þessari veröld. Við erum öll kölluð til að vera Jóhannesar í veröldinni, ganga erinda Guðs, vera fulltrúar Guðs, þjóna fólki eins og Guð vill að því sé þjónað, bera frið milli manna eins og Jesús Kristur þjónaði sjálfur, laga brautir í lífi fólks svo lífið batni og Guð komi. Við eigum að vera í þessari umferðardeild, vegagerð Guðsríkisins.

Við sjálf Raunverulegir jólasveinar koma ekki í Þjóðminjasafn - held ég - en ég held að íslensku jólasveinarnir sé merkilegir engu að síður. Þeir minna okkur á, að við þurfum að gæta að atvinnuvegum, heimilum og okkur sjálfum. Við þurfum að passa, að enginn steli lífsviðurværi okkar, skelli hurðum á sálarheimili okkar, steli næringu okkar og enginn steli ljósi jólanna frá okkur. Við megum gjarnan ræða við börnin um lífsleiknina - að við þurfum að þekkja mörk, læra siðvit, stæla kærleika og góð samskipti við annað fólk. Og við þurfum að næra dýptir okkar eigin innri manns – læra að þekkja okkur sjálf, virða og rækta.

Jóhannes skírari var með hlutverk sitt á hreinu. Hann er fyrirmynd, tjáir berlega hver við erum og hvaða hlutverki við þjónum í lífi og öllum okkar veröldum og víddum.

Þú Hver ert þú? Jú, vissulega ertu með þessar hendur og fætur, andlit, háralit, átt heima í húsinu þínu og í þinni götu. Þú átt þetta farsímanúmer og þú ert með ásjónu í veröldum þínum, t.d. á facebook. En hvað er svo þar á bak við? Hverjir eru draumar þínir, innsta þrá, vonir, erfiðleikar, hláturefni, ástarmál, vinnulíf, ástvinir, tengsl, trú, gildi, siðferði, kækir, styrkleikar, draumar, undirvitund – já allt þetta sem gerir erfðaefni þitt, sögu, menntun og mótun að þér? Hvert er þitt innsta inni?

Hver ert þú? Er aðventan þér bið eftir að Guðsbarnið komi til þín? Hver er sýndarvera þín og svo líka raunveruleiki? Leyfðu sýndinni bara að vera það sem hún er en taktu þér endilega stöðu með Jóhannesi og beindu sjónum til raunveruleika raunveruleikans og dásemdarkomu himins til jarðar. Á aðventunni máttu undirbúa faðmlag tíma og eilífðar, himins og heims. Þetta er tími draumsins sem rætist svo á jólum.

Amen.

Neskirkja, 18. desember, 2011.

4. sunnudagur í aðventu, B-röð

Lexía er skráð í spádómsbók Jesaja (52.7-10) Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: „Guð þinn er sestur að völdum.“ Heyr, varðmenn þínir hefja upp raustina, hrópa fagnaðaróp allir í einu því að með eigin augum sjá þeir Drottin hverfa aftur til Síonar. Hefjið upp fagnaðarsöng allar í einu, rústir Jerúsalem, því að Drottinn hefur huggað þjóð sína, endurleyst Jerúsalem. Drottinn hefur afhjúpað heilagan armlegg sinn í augsýn allra þjóða og allt til endimarka jarðar munu menn sjá hjálpræði Guðs vors.

Pistill er skráður í Filippíbréfinu (4.4-7) Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.

Guðspjall Jóh 1.19-28 Þessi er vitnisburður Jóhannesar þegar ráðamenn í Jerúsalem sendu til hans presta og Levíta til að spyrja hann: „Hver ert þú?“ Hann svaraði ótvírætt og játaði: „Ekki er ég Kristur.“ Þeir spurðu hann: „Hvað þá? Ertu Elía?“ Hann svarar: „Ekki er ég hann.“ „Ertu spámaðurinn?“ Hann kvað nei við. Þá sögðu þeir við hann: „Hver ert þú? Við verðum að svara þeim er sendu okkur. Hvað segir þú um sjálfan þig?“ Hann sagði: „Ég er sá sem Jesaja spámaður talar um. Ég er rödd hrópanda í eyðimörk er segir: Gerið beinan veg Drottins.“ Sendir voru menn af flokki farísea. Þeir spurðu hann: „Hvers vegna skírir þú, fyrst þú ert hvorki Kristur, Elía né spámaðurinn?“ Jóhannes svaraði: „Ég skíri með vatni. Mitt á meðal ykkar stendur sá sem þið þekkið ekki, hann sem kemur eftir mig og skóþveng hans er ég ekki verður að leysa.“ Þetta bar við í Betaníu, handan Jórdanar, þar sem Jóhannes var að skíra.