Íslenska þjóðin hefur aldrei haft eins mikil tækifæri til menntunar og nú á dögum enda hefur menntun þjóðarinnar aukist jafnt og þétt á undanförnum áratugum. BA próf hefur svipaða stöðu nú og stúdentspróf hafði fyrir nokkrum áratugum. Háskólum fjölgar og það hlutfall þjóðarinnar sem lýkur háskólaprófi eykst. Háskóli Íslands stefnir að því að verða á meðal 100 bestu háskóla í heimi. Vonandi uppfyllist þessi draumur þjóðinni til hagsældar.
Fyrir allmörgum árum kom eþíópískur prestur í heimsókn til landsins á vegum Kjalarnessprófastsdæmis. Hann hafði fengið góða menntun á Vesturlöndum og doktorsgráðu í guðfræði. Maðurinn þekkti okkar heimshluta vel og auðvitað Afríku og gat borið þá saman. Ég fékk það hlutverk að fylgja honum á ferðum hans víða um land og túlka mál hans. Þetta var mjög lærdómsríkur tími og forréttindi að fá að kynnast honum. Gesturinn sem var frá einu af fátækustu ríkjum heims þar sem opinberri þjónusta er um margt mjög ábótavant undraðist kraft og auð íslensku þjóðarinnar. Vetrarveður voru óvenjuhörð á meðan á dvöl hans stóð en snjóruðningstæki geistust út á götur og vegi eftir hvern byl og gerðu þá ferðafæra. Honum þótti merkilegt að svo fámenn þjóð sem Íslendingar skyldu eiga jafn marga háskóla og raun ber vitni og allar þær stofnanir sem nauðsynlegar eru til reksturs sjálfstæðs lýðræðisríkis.
Í einni af ræðum sínum tók hann tilefni af þessu og benti á hve gott við hefðum það á Íslandi og að hann dáðist af auði okkar og afli. En síðan áminnti áheyrendur sína um að hrokst ekki upp af allri velsældinni, að þeir teldu sig ekki hafa allt og vita allt í krafti menntunar og auðs og gleyma Guði. Hann benti á að í öllu vísindastarfi væri fólk að uppgötva fyrirbrigði og lögmál sem hafa alltaf verið til í sköpunarverkinu. Hann sagði: „Guð hefur skapað þetta allt, við erum bara að uppgötva það sem alltaf hefur verið til.“
Þetta var mikil speki sem ég hef oft hugsað um síðan. Sá tími kemur tæplega að menn hafi rannsakað allt. Lífið verður því aldrei sett upp í jöfnu sem hægt er að skilja að öllu leyti.
Þetta ætti að fylla okkur auðmýkt hvað sem öllu bókviti okkar líður og fá okkur til að nema staðar og íhuga boðskap Biblíunnar um Guð, skaparann, höfund alls þessa, hugann að baki öllum leyndardómum sköpunarverksins. Fyrir honum ert þú mikilvægasti hluti þess, miðpunkturinn, kórónan sem hann vill deila lífi sínu með. Hann vill vera lífsförunautur þinn í amstri dagsins og lífsbaráttunni. Hann vill að þið séuð ávallt í nærveru hvors annars og að þú getir nært huga þinn á vissunni um óbifanlegan kærleika hans til þín og stuðning í öllu lífi þínu.