Vonin um að allt illt verði einn daginn burtu hreinsað úr þessum heimi er óvíða eins fallega fram sett eins og hjá Jesaja spámanni: Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og sproti vaxa af rótum hans. . . . Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum. Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna verða saman á beit, ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru, og ljónið mun bíta gras eins og nautið. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holu nöðrunnar og barn, nývanið af brjósti, stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn mun gera illt, enginn valda skaða á mínu heilaga fjalli því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið. (Jes 11.1,6-9)
Ólýsanlegum friði stafar af þessari mynd sem Jesaja uppteiknar með orðum sínum. Það er vart hægt að hugsa sér áhrifameiri lýsingu á hinum fullkomna friði. Þó kemst ein mynd nærri því. Sú mynd er einnig úr Biblíunni.
Ykkur grunar eflaust um hvaða mynd ég er að tala, við sjáum útlínur hennar koma fram og skýrast í hugskoti okkar: Lítið hús með hallandi þaki og mæni, dálítið eins og alpakofi, og framhliðin opin svo sjáist vel inn en fyrir miðju húsinu, sem við sjáum nú að hlýtur að vera gripahús, stendur giska venjulegt fóðurtrog eða jata. Og í jötunni er tugga fyrir skepnurnar - en það er ekki allt, á tuggunni liggur lítið nýfætt barn og það brosir framan í mann og það geislar af því eins og sólin sjálf liggi þar. Í bjarmanum frá barninu standa þar við jötuna foreldrarnir en þar hjá uxi og asni sem hneigja höfuð sín í átt að jötunni. En það er ekki allur fénaðurinn því þarna eru líka nokkrar ær og hirðarnir sem gæta þeirra og allir beina athygli sinni að barninu í jötunni en yfir öllu svífur englaher sem syngur: Gloria in excelsis deo, dýrð sé Guði í upphæðum. Þetta er hin hefðbundna mynd af Jesúbarninu nýfæddu í fjárhúsinu í Betlehem. Á sumum myndum hafa vitringarnir bæst í hópinn og krjúpa í tilbeiðslu frammi fyrir Jesú um leið og þeir leggja fram ríkmannlegar gjafir sínar: Skríni full af gulli, reykelsi og myrru en úlfaldarnir, sem báru þá alla leið frá Mesópótamíu standa hjá.
Þetta er stöðug, ævarandi mynd og ekkert virðist geta haggað henni eða aftengt hana jólunum í vitund okkar. Það eru engin jól án fjárhússins og jötunnar, án Maríu og Jósefs, án hirðanna og vitringanna, án fénaðarins og englanna. Nei, það væru alls engin jól án barnsins í jötunni, því það er þess vegna sem hinn kristni heimur heldur heilög jól, til þess að fagna komu þess í þennan heim, fæðingu frelsarans, kvistsins af stofni Ísaí, afkomanda Davíðs konungs.
Myndin sem Jesaja bregður upp af úlfinum búandi hjá lambinu, ljóninu bítandi gras og brjóstmylkingnum leikandi sér við holu nöðrunnar er kannski óraunsæ draumsýn, en hvað um myndina af Jesúbarninu í jötunni? Er hún draumsýn? Nei, því fer fjarri. Ímyndið ykkur bara allar þær mögulegu aðstæður sem börn hafa fæðst við á þessari jörð frá ómunatíð. Af hverju ekki í gripahúsi? Allir sem þekkja til dýra vita að þau skynja ýmislegt sem menn eru ónæmir fyrir. Hafi búpeningur verið nærri við fæðingu frelsarans, þá er ekki ólíklegt að hann hafi skynjað að eitthvað alveg einstakt var að gerast. Og hver myndi ekki hlaupa til eins og hirðarnir gerðu ef engill opinberaði þeim að sonur Guðs væri fæddur rétt hjá? En jú, vissulega eru viss atriði í sögunni sem erfitt er að trúa, svo sem það að María skyldi verða ófrísk án þess að vera við karlmann kennd, að engill skyldi birtast hirðunum eða að þrír vitringar frá fjarlægu landi skyldu leiddir af stjörnu, sem verður ekki útskýrð á nokkurn stjörnufræðilega máta. Því spyr maður sig kannski: Hvað er sagnfræði og hvað er helgisaga? Eða er sú spurning máski óþörf? Er Guði enda nokkuð um megn?
Sá sem les fæðingarfrásögn Matteusar annars vegar og Lúkasar hins vegar getur ekki annað en tekið eftir því að þeim ber ekki saman nema að því leyti að María verður ófrísk fyrir tilstilli heilags anda og fæðingin á sér stað í Betlehem. Það er því ljóst að ekki er hægt að taka frásagnir guðspjallamannanna sem nákvæma sannverðuga lýsingu á því hvernig fæðingu Jesú bar að en það er heldur ekki markmið þeirra með ritun sagnanna heldur að gera samfélaginu sem þeir skrifuðu fyrir ljóst hver Jesús er. Maður skyldi því alls ekki láta ósamræmið á milli guðspjallanna trufla sig og spilla upplifun sinni af jólaguðspjallinu.
Við þekkjum öll helgimyndirnar af hinni heilögu fjölskyldu í fjárhúsinu í Betlehem sem ég lýsti áður. Við sjáum þær – stundum dálítið sykursætar – á málverkum og póstkortum og mörg setjum við upp slíkt jólaskraut á jólunum úr tré eða plasti eða kannski leir. Þessum helgimyndum tekst á dásamlegan hátt að virða smáatriðamun á milli guðspjallanna að vettugi og beina augum áhorfandans að kjarna málsins: Barninu í jötunni.
Helgimyndin dregur fæðingarfrásögurnar tvær saman í eina heildarmynd sem er kannski sannari en hvor frásagan um sig því guðspjallamennirnir hafa hvor um sig mismunandi áherslur og standa á ólíkum sjónarhólum.
Það að Lúkas lætur rétta og slétta fjárhirða vera þá sem fyrstir fá fréttirnar um fæðingu Jesú og fyrstir sjá hann segir okkur að Guð svo að segja samsamar sig almúganum, hinum lægstu í samfélagi manna, fæðist enda allslaus. Jesú er þannig stillt upp sem andstöðu Ágústusar keisara sem gefur út tilskipunina sem neyðir Maríu og Jósef til að ferðast til Betlehem þrátt fyrir að hún sé á steypinum.
Matteus hefur annað í huga með því að láta vitringana frá útlöndum vera fyrstu gesti hinnar heilögu fjölskyldu; með því vill hann leggja á það áherslu strax í upphafi guðspjallsins að frelsunarverk Jesú beinist ekki aðeins að gyðingum heldur - og ekki síst - að heiðingjunum, þjóðunum, heiminum öllum.
Helgimyndin, þar sem vitringarnir og hirðarnir dást í sameiningu að nýfæddu barninu, tekur þessar áherslur saman í ein skilaboð: Jesús frá Nasaret er sonur Guðs og fæddist til að frelsa mennina undan valdi syndarinnar, alla menn í öllum aðstæðum. Enginn er of lágur til að Jesús vilji vitja hans, þrátt fyrir að vera konungur. Ágústus keisari hvarf af sviði sögunnar og væri varla minnst ef ekki væri hann nefndur af Lúkasi. Barnið sem fæddist við svo bágbornar aðstæður í fjarlægri sveit í hinum enda ríkis hans, það er enn þann dag í dag dýrkað sem hinn sanni konungur, ekki rómverska heimsveldisins, heldur alls heimsins, ekki í styrk grájárnaðra hersveita heldur í veikleika hins barnslega sannleika og ómælisdjúps kærleika Guðs sem á endanum er sterkasta afl í heimi hér.
Já, þetta er fögur mynd sem guðspjallamennirnir sýna okkur en skiptir hún einhverju máli fyrir okkur í dag? Var Jesús ekki líflátinn? Tapaði hann ekki baráttunni gegn illskunni og hatrinu? Er ekki allt tal um konung heimsins og kærleika Guðs, frelsun frá syndinni, bara orðagjálfur? A.m.k. tvennt segir okkur að svo sé ekki. Í fyrsta lagi reisti Guð Jesús aftur upp frá dauðum og braut þannig vald dauðans á bak aftur – tilvera og uppgangur kristnu safnaðanna eftir aftöku Jesú í mjög svo fjandsamlegu umhverfi vitnar um gríðarsterka sannfæringu fylgismanna Jesú um að þetta hafi í raun gerst. Í öðru lagi vitnar Kristin kirkja um að kærleikur Guðs er raunverulegt afl sem bætir líf þeirra sem á hann trúa - bæði sem einstaklinga og sem samfélags. Hvort tveggja gefur okkur von um að hið góða muni sigra að lokum, lífið öðlast tilgang sem er æðri en bara sá að eiga í sig og á.
Ein af nýjustu félagsfræðilegu skýringunum á uppgangi kristinnar trúar í Rómaríki er á þann veg að heiðingjar hafi dregist að kristnu söfnuðunum þegar þeir sáu og upplifðu að hjá þeim var mun minni barnadauði en hjá öðrum hópum samfélagsins, mun meira félagslegt öryggi og færri dauðsföll vegna sjúkdóma. Ástæðuna fyrir þessum einkennum kristnu safnaðanna var að finna í virðingunni fyrir skilyrðislausri helgi lífsins, samheldninni og náungakærleiknum innan þeirra. Velferðarsamfélagið sem einkennir vestræn ríki stendur djúpum rótum í þeim sverði sem fyrstu kristnu söfnuðirnir yrktu og sáðu í trúnni á ást Guðs á manninum, sem birtist í upprisu Krists, og sem leiðir af sér ást mannsins á Guði og náunga sínum.
Hinir fyrstu kristnu söfnuðir trúðu að Guðs ríki væri í nánd með tilheyrandi dómsdegi en þeim skjátlaðist; og þó ekki að öllu leyti, því að trú þeirra og lífið sem hún hafði í för með sér gerði Guðsríkið raunverulegt meðal þeirra, því að ríki Guðs er ekki aðeins að finna handan þessa heims á öðru tilverustigi heldur og okkar á meðal þegar við elskum Guð og náungann eins og okkur sjálf. Og það er stöðug vinna að halda ríki Guðs á jörðu við, því það er ekki byggt af steinum eða steypu heldur kærleiksríkum samskiptum manna á milli. Og ef Guðs ríki er þar sem menn elska Guð og náungann eins og sjálfa sig, þá er alveg víst að helvíti á jörð er víða að finna, eins og við þekkjum. Þess vegna megum við ekki slá slöku við; við megum ekki hætta að miða við Krist sem okkar vitaljós í lífsins ólgusjó og við megum ekki ræna börnin okkar þeim ómetanlegu gæðum sem felast í því að vera leidd af góðum Guði á lífsins göngu, Guði sem kaus að taka þátt í kjörum manna með því að verða maður í barninu sem brosir við okkur í jötunni í Betlehem, barninu sem með lífi sínu sýndi okkur inn í Guðs ríki og með dauða sínum og upprisu gaf okkur hlutdeild í sigri lífsins yfir dauðanum - ef við trúum því. Amen.