Hvað viljum við?

Hvað viljum við?

Þegar við erum ung og ódauðleg leiðum við ógjarnan hugann að ellinni. En hún kemur, sumum hagstæð, - öðrum þungbær. Aðbúnaður stórs hluta aldraðra sem dvelja þurfa á stofnunum lýsir þvílíkri mannfyrirlitningu að það er þyngra en tárum taki. Sama gildir um fjölda öryrkja.

Þegar átta dagar voru liðnir, skyldi umskera hann, og var hann látinn heita Jesús, eins og engillinn nefndi hann, áður en hann var getinn í móðurlífi. Lúk. 2.21

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Guð gefi ykkur öllum gleðilegt ár og hafið heila þokk fyrir það sem liðið er.

Áramót. Tími sem vekur blendnar tilfinningar. "Nú árið er liðið í aldanna skaut, og aldrei það kemur til baka." Áminning um að okkur er afmörkuð stund. Áminning um að það sem í fyrra var framtíð er nú orðin fortíð sem eki verður breytt. Kannski getum við horft til þeirrar fortíðar með gleði og þakklæti og óskað okkur þess að sú framtíð sem bíður okkar verði okkur jafn gjöful. Kannski eru minningarnar um hið liðna svo sárar að við biðjum þess að þurfa ekki að lifa slíkt aftur. Áramót, tími vona og vonbrigða, tími söknuðar og tilhlökkunar, tími brosa og tára, - og spurnar: Hvað bíður mín?

Áramót. Áminning um þáttaskil. Fyrir mér og okkur hjónum eru þessi áramót öðrum áleitnari þar sem ég mun ljúka starfsævinni á árinu, - "og aldrei hún kemur til baka." Nýtt æviskeið, æviskeið ellinnar, bíður handann hornsins. Nú á maður langa fortíð en stutta framtíð.

Hvað bíður mín? Áleitin spurning á öllum æviskeiðum. Svo áleitin að heilu útvarpsþættirnir á einkastöðvunum eru fengnir þeim sem telja sig geta skyggnst inn í framtíð fólks, bara ef það hringir inn eru einhver pappasnifsi lögð á borð og þar liggur svarið. En hversu mörgum spilum sem flett er verður framtíðin hulin. Samt ber okkur að huga að framtíðinni, spyrja hvert við viljum stefna og gera áætlanir svo við fljótum ekki sofandi að feigðarósi.

Hvað bíður mín?

Stjórnmálamennirnir okkar eru sífellt að huga að framtíðinni og gera framtíðaráætlanir svo þessari þjóð farnist sem best. Og við deilum um framtíðarsýn þeirra og ákvarðanir. Sem betur fer. Álitamálin eru mörg. Þó finnst manni stundum sem uppbyggingarákafinn byrgi mönnum sýn til þeirra sem troðast undir í atganginum. Fátt hefur verið meira rætt undanfarið en kjör og aðbúnaður aldraðra og öryrkja. Nú er kominn tími til að gera áætlanir um uppbyggingu á því sviði. - "Heiðra skaltu föður þinn og móður svo þú verðir langlífur í landinu." Fjórða boðorðið er eina boðorðið sem fyrirheiti fylgir. Svo mikilvægt var það talið fyrir samfélagið að foreldrum væri sýnd virðing. Vanræksla þess leiddi til ófarnaðar. Mörgum foreldra okkar eru búnar snautlegar aðstæður. Það vitum við. Lítum til sjálfra okkar. Vil ég búa við þessar aðstæður þegar aldurinn færist yfir og þrek og vit tekur að bila? Vil ég það? Eftir að ég fór að þjóna sem prestur og heimsækja stofnanir fyrir aldraða hér í sókninni hefur þessi spurning leitað á mig með síauknum þunga? Er það þetta sem bíður mín? Þegar við erum ung og ódauðleg leiðum við ógjarnan hugann að ellinni. En hún kemur, sumum hagstæð, - öðrum þungbær. Aðbúnaður stórs hluta aldraðra sem dvelja þurfa á stofnunum lýsir þvílíkri mannfyrirlitningu að það er þyngra en tárum taki. Sama gildir um fjölda öryrkja. Stundum finnst mér eins og brennt sé fyrir skilningarvitin á ráðamönnum þegar talað er um lífeyri þessa fólks sem í flestum tilvikum er um 100.000 krónur á mánuði, 7-10 sinnum lægrai en þeir búa við sjálfir. Þeir sem koma til okkar prestanna hér segjast gjarnan borga af þessu þrjátíu til fjörutíu þúnund í húsaleigu, oftar en ekki fyrir eina herbergisholu.

Já, en það er svo dýrt að hækka lífeyrinn og byggja ný dvalarheimili! Já, það er dýrt. En þjóð sem étur sér til óbóta og veltist á milli húsa í bílum sem kosta milljónir hver, hlýtur að hafa ráð á að gera betur við foreldra sína og sína minnstu bræður og systur. Þetta er spurning um hugarfar, ekki fjármuni. Þetta er spurning um virðingu fyrir þeim sem ólu okkur upp og byggðu upp það sem við njótum. Þetta er spurning um virðingu fyrir þeim sem illa hafa orðið úti af völdum sjúkdóma, fötlunar eða annarrar ógæfu. Hver er framtíðarsýn okkar um þessi áramót? Í hvers konar þjóðfélagi viljum við lifa?

En ég vil spyrja um fleira. Hvaða virðingu berum við fyrir börnum okkar? Þau eru flest vel klædd og södd, með sjónvarp og leikjatölvur og eiga kost á góðri menntun. En er það nóg? Það leita sífellt á mig staðhæfingar sálfræðinga sem á síðustu öld settu fram þær kenningar að mikilvægasta hlutverk manneskjunnar, allt frá frumbernsku, væri að mynda tengsl við annað fólk, það væri ein af frumþörfum mannsins. Grundvöllurinn að þessari tengslamyndun er lagður á fyrstu árum barnsins, allt frá því að það er fyrst lagt á brjóst. Bregðist þessi tengslamyndun getur það haft óheillavænlegar afleiðingar fyrir einstaklinginn, sjálfsmynd hans, andlegan þroska, geðheilbrigði og samskipti við annað fólk. Hvernig myndast tengsl? Með samvistum sem gefinn er tími. Þar er ábyrgð foreldra mest. Með fullri virðingu fyrir leikskólum og grunnskólum og starfi kennara koma tengsl við þá ekki í staðinn fyrir tangslin við foreldrana. Sumir segja að það sé nú ekki fallegt að ræða þetta svona og planta samviskubiti í hjörtu foreldranna. Þau hafi rétt til að lifa sínu lífi og nýta menntun sína og hæfileika og bera björg í bú. Ég segi, - börnin eiga rétt á foreldrum sínum og samvistum við þá. Vissulega skiptir máli að allir njóti sín. En það á líka við um börnin. Vissulega er dýrt að lifa og þörf á að draga að og koma sér upp híbýlum. En það er dýrara að gleyma frumþörfum barnanna fyrir traust, öryggi og tengsl við sína nánustu.

"Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta," sagði í textanum úr Davíðssálmum sem lesinn var hér áðan. Þetta er áminning um að okkur er afmörkuð stund. En þetta er líka áminning um að láta þá staðreynd hvetja okkur til að leita viskunnar meðan tími er til. Þegar Biblían talar um visku er það yfirleitt sú viska sem felst í vilja Guðs með manninn og sköpunarverkið allt. "Ótti Drottins er upphaf viskunnar." Heimskan er þá fólgin í að hunsa vilja Guðs. Ótti Drottins er ekki skelfing, heldur virðing fyrir heilagleika hans og virðing fyrir manninum. Viturt hjarta þess sem kann að telja daga sína leiðir hann til þess að leggja kvarða Guðs á líf sitt og það þjóðfélag sem hann vill taka þátt í að móta. Íslenskt samfélag svo og samfélögin flest í Evrópu hafa til skamms tíma borið þess merki að hafa mótast af kristnum gildum, og gjarnan litið til Norðurlandann sérstaklega. Við stöndum frammi fyrir því að áhrif kristinnar trúar fara þverrandi í Evrópu og þar er að búa um sig einhvers konar kæruleysisguðleysi, skeytingarleysi um kristna trú og kristin gildi. Slíkt er góður jarðvegur fyrir önnur gildi, önnur lífsviðhorg og önnur trúarbrögð. Hvað viljum við í þeim efnum? Er okkur sama? Teljum við allt jafngott? Teljum við að umburðarlyndi sé fólgið í því að leggja sannfæringu sína til hliðar svo aðrir fái pláss fyrir sína sannfæringu? Það er afskræming umburðarlyndisins. Það felst í því að allir hafa rétt til að hafa og halda fram sannfæringu sinni. Það felur í sér rétt manna til að takast á um ólík viðhorf og ólíka trúarsannfæringu, ólík gildi, en af fullri viirðingu hver fyrir öðrum.

Hvaða trúarsannfæringu höfum við? Hversu mikils virði er hún okkur? Hvað viljum við gera til að festa hana í sessi og láta hana hafa áhrif á eigið líf og á þjóðlífið? Hversu mikils virði teljum við hana vera í uppeldisviðleitni okkar, að miðla henni til framtíðar? Trúarsannfæring sem ekki er smitandi er harla lítils virði. Við þurfum ekki að óttast gin ljónanna eins og hinir fyrstu kristnu í Róm. En hvaða ljón erum við hrædd við? Álit annarra á okkur ef við gerumst of trúuð? Staðhæfingar um skort á umburðarlyndi ef við leyfum okkur að hafa sannfæringu? Eða er hættulegasta ljónið skeytingarleysi okkar sjálfra? Svo virðist, samkvæmt könnunum, að kirkjan sé í sókn hér á landi. Það ber þeim vitni sem hafa kristna trúarsannfæringu. En guðleysið er einnig í sókn og ætlar sér að hafa áhrif. Það ber sannfæringu hinna guðlausu vitni. Þetta eru menningarátök. Hvað viljum við að móti andlegt líf, gildismat og menningu þessarar þjóðar? Sú mótun gerist ekki af sjálfri sér. Hún gerist vegna þess að einhverjir hafa sannfæringu og vilja hafa áhrif.

Menningarátök. Frakkar hafa sett því skorður að trúarleg tákn séu áberandi í almannarýminu. Í Bandaríkjunum heyrast þær raddir að varlega skuli farið í að bjóða gleðileg jól af tillitssemi við þá sem ekki halda jól. Í Kanada er mér sagt, af presti sem þar starfar, að sífellt sé þrengt að því að kristin tákn og kristin viðhorf séu of áberandi í þjóðfélaginu og opinberri umræðu. Allt í nafni umburðarlyndis. Þetta eru menningarátök, en ekki umburðarlyndi. Maður getur spurt sig hvort sá dagur renni upp að ekki megi syngja opinberlaga Ó, Guð vors lands.. , Yfir voru ættarlandi... og Ísland ögrum skorið... vegna þess að Guð sé þar of áberandi og meiði þá sem hafna honum?

Fjarlægir órar? Var það ekki einnig fjarlægt kristnum Evrópubúum fyrir einni öld að á 21. öldinni yrði kristni víkjandi og Islam ríkjandi í flestum Evrópuríkjum. Í það stefnir. Það er ekki grýla sem einhverjir kristnir ofstækismenn hafa fundið upp. Tölfræðin nægir og talar sínu máli. Hvað viljum við?

Menningarátök.

Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.

Guðspjall dagsins er hið stysta í kirkjuárinu, aðeins eitt vers, og segir frá því að barninu sem fæddist í Betlehem var gefið nafn - Jesús. Drottinn frelsar. Viljum við að þetta nafn verði yfirskrift yfir lífi okkar og þjóðlífinu yfirleitt? Það gerist ekki nema við séum tilbúin til að skuldbinda okkur honum. Hvað viljum við? Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.

Dýrð sé Guði föður og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verða mun um aldir alda.