Að fyrirgefa öllum allt, alltaf

Að fyrirgefa öllum allt, alltaf

Það er þó afar mikilvægt að ná ákveðinni sátt í hjarta sínu við það sem gerðist. Sáttin þarf ekki að felast í fyrirgefningu og ekki heldur í því að sætta sig við skelfilega atburði. Hún felst í því að komast á þann stað að sá eða sú sem braut á þér skiptir þig ekki máli lengur, hefur engin áhrif á líf þitt eða líðan. Stundum er erfitt að komast á þennan stað án hjálpar.

Hér er hægt að horfa á prédikunina flutt í Borgarholtsskóla. Þú átt að fyrirgefa öllum, allt, alltaf! Ef þú gerir það ekki þá fyrirgefur Guð þér ekki.

Ef þú fyrirgefur öllum þá fyrirgefur Guð þér.

Eða hvað? Fyrirgefðu Um daginn sá ég leikrit sem heitir Fyrirgefðu ehf og er sýnt í Tjarnarbíói um þessar mundir. Í leikritinu er búið að markaðsvæða fyrirgefninguna. Fólk getur leitað til fyrirtækisins Fyrirgefðu ehf, og fengið aðstoð við að biðjast fyrirgefningar og við að fyrirgefa. Eigendur fyrirtækisins hafa komist að því að þau sem fyrirgefa og geta beðist fyrirgefningar lifi harmónískara lífi og eigi betri samskipti við náungann og sjálf sig. Launin eru ekki þau að Guð fyrirgefi þér allt heldur betri líðan og hamingjusamara líf.

Gallinn er sá að fyrirtækið græðir m.a. á því að hjálpa opinberum aðilum að biðjast afsökunar til þess að halda fólki og viðskiptatengslum góðum, án þess að þeir endilega meini það. Kosturinn við fyrirtækið, Fyrirgefðu ehf. er sá að mikið af fólki fyrirgefur raunverulega eftir að hafa fengið þessa hjálp.

Í leikritinu eru tekin nokkur dæmi um það sem fólk er að burðast með. Ein vill ekki fyrirgefa makanum framhjáhald. Önnur getur ekki fyrirgefið sjálfri sér eitthvað sem kannski var aldrei henni að kenna. Annarri langar að fyrirgefa einhverjum nokkuð sem gerðist í fortíðinni. Hún veit bara ekki hverjum hún á að fyrirgefa. En það sem kemur svo skýrt í ljós í þessu leikriti og ég held að sé einmitt hárrétt, er að öll erum við að burðast með svo mikið af flóknum tilfinningum vegna atburða sem hafa átt sér stað í fortíðinni og atvika sem eiga sér stað á hverjum degi. Og kannski hefur hæfileikinn til að fyrirgefa og að geta beðist fyrirgefningar, áhrif á hvernig manneskjur við erum í dag, hvernig við tökumst á við lífið.  Hversu sátt við erum við aðstæður okkar og stöðu í lífinu.

Til þess að fyrirgefning geti orðið þarf ákveðið ferli að hafa átt sér stað. Sú sem braut á annarri manneskju þarf að biðjast fyrirgefningar og sýna iðrun. Ef það er ekki gert þá er ekki hægt að gera ráð fyrir því að fyrirgefning geti orðið að veruleika.

Gott dæmi um þetta er Ísland eftir hrunið. Þá var farið í einhverskonar sannleiksleit og rannsóknarskýrslur unnar. Vandinn var bara sá að engin(n) baðst fyrirgefningar og engin(n) gekkst við neinu. Enda er ekki hægt að segja að sátt hafi náðst enn og rannsóknarskýrslurnar rykfalla í skúffum og hillum.

Dæmi um sáttarferli sem bar ríkan árangur er það sem átti sér stað í Suður Afríku eftir að aðskilnaðarstefnan leið undir lok og Nelson Mandela hafði tekið við sem forseti landsins. Þar fór fram sannleiksleit, þar sem þau sem höfðu verið beitt óréttlæti af rasistunum sögðu frá sinni upplifun og öllu ranglætinu og þau sem höfðu beitt því urðu að hlusta á það. Að þessu ferli loknu náðist sátt og hægt var að horfa fram á veginn og halda áfram.

Mér virðist sem fyrirgefningin sé að verða vinsælla fyrirbæri hér á Íslandi undanfarið. Til að mynda virkaði hún vel fyrir íþróttafréttamanninn unga sem stjórnaði Evrópustofu þegar evrópukeppnin í handbolta var sýnd í sjónvarpinu fyrir nokkru. Í hita leiksins líkti hann liði Íslendinga við Nasista í fyrri heimstyrjöldinni sem “slátruðu” Austurríkismönnum. Hann var fljótur að átta sig á því hvað þetta var ljótt og rangt og baðst fyrirgefningar á einlægan hátt. Enda var ekkert erfitt að fyrirgefa honum. Hann var reyndar ekki látinn taka  afleiðingum orða sinna (sem voru mjög alvarleg) og látinn hætta í Evrópustofu. Það var ákvörðun RÚV sem vel er hægt að deila um. Þótt hann hefði verið tekinn út úr Evrópustofu og síðan látinn stjórna Spurningakeppni framhaldsskólanna stuttu síðar þá hefði honum ekki verið minna fyrirgefið. En kannski eru fyrirgefningarbeiðnir opinbera aðila það nýjar á Íslandi að ekki er búið að átta sig á því að þær verða enn trúverðugri ef fólk tekur afleiðingum gjörða sinna.

Annað nýlegt dæmi um fyrirgefningarbeiðni sem virkaði vel er þegar ræðulið MÍ bað stúlku úr ræðuliði MA fyrirgefningar á hegðun sinni í hennar garð. En hegðun þeirra hafði verið sterklega lituð af kvenfyrirlitningu og fordómum í garð þessa keppanda MA. Í tilkynningu frá skólastjórnendum kom fram að þau hafi þurft að taka afleiðingum gjörða sinna. Auk þess baðst þjálfari liðsins fyrirgefningar og ákvað í kjölfarið að hætta sem liðsstjóri. Hann tók þannig ábyrgð og afleiðingum gjörða sinna enda hafði hann notað sömu aðferð við að niðurlægja stúlkur í ræðuliðum fleiri skóla í gegnum árin. Að sjálfsögðu fyrirgefum við þeim.

Og nú er spurning hvort Hildi Lilliendahl verði fyrirgefinn orð hennar í garð ýmis fólks sem hún viðhafði á spjallsíðum Barnalands. En hún hefur beðist fyrirgefningar og ekki reynt að verja orð sín.

Nei! Þú átt að fyrirgefa öllum allt, alltaf!

Getur það verið?

Vill Guð virkilega að við fyrirgefum manninum sem lemur konuna sína flesta daga vikunnar? Vill Guð að strákurinn fyrirgefi kærustunni sinni sem heldur reglulega framhjá honum og finnst það allt í fína? Vill Guð að við fyrirgefum einhverjum sem hefur misnotað barnið okkar? Á að fyrirgefa nauðgaranum sem neitar öllu og kemst upp með það þar sem ekkert er hægt að sanna?

Nei!

Hvað sem stendur í Biblíunni þá eigum við ekki að fyrirgefa öllum allt, alltaf. Það er ómögulegt.

Sagan Dæmisagan um skulduga þjóninn er svolítið harkaleg. Auðvitað á þjónninn sem fékk að sleppa við að greiða allar sínar skuldir, að gera það sama við vin sinn eða samþjón. En það gerði hann ekki og beitti hann auk þess mikilli hörku. Hann komst ekki upp með það og þurft því sjálfur að lokum að greiða allar sínar skuldir. Þannig var honum refsað fyrir að fyrirgefa ekki sínum samþjóni eftir að hann hafði sjálfur hlotið slíka náð hjá yfirmanni sínum.

Samkvæmt þessari sögu og orðum Jesú á undan henni og eftir, eigum við að fyrirgefa allt. Og við eigum að fyrirgefa sömu manneskjunni aftur og aftur. Já og ef við fyrirgefum ekki þeim sem gera okkur illt þá mun Guð ekki fyrirgefa okkur.

Hvernig getur þetta staðist? Ætli Jesús hafi ekki þekkt til stærri og alvarlegri mála. Að fólk væri fært um að nauðga, lemja, svíkja og drepa?

Ég velti fyrir mér öðrum frásögum úr Nýjatestamenu þar sm Jesús t.d. reiðist þegar fólk er að nota musterið fyrir sölubúð. Hann kastar um húsgögnum og öskrar á fólk. Þar var hann ekkert að rétta fram hægri kinnina.

Einnig hefur verið bent á að þegar fyrirgefning á sér stað í Nýjatestamentinu þá er það alltaf manneskja í valdastöðu sem fyrirgefur manneskju sem ekki er í valdastöðu. Það er aldrei maður sem er háður einhverjum sér valdameiri sem fyrirgefur þeim valdamikla.

Þetta á líka við í þessari sögu. Sá sem fyrirgefur er valdameiri eða í það minnsta jafnoki þeim sem hann fyrirgefur. Þegar Jesús er í mestu þjáningunni á krossinum segir hann ekki: “Ég fyrirgef ykkur”. Hann biður Guð að fyrirgefa sér. Þarna er hann ekki í valdastöðu og getur því ekki, samkvæmt fyrirgefningarhefð Nýjatestamenntisins, verið að fyrirgefa þeim sem eru að níðast á honum.

Fyrirgefum ekki öllum allt, alltaf Út frá þessu er því nokkuð ljóst að fyrirgefning er ekki alltaf möguleg. Og ég held að hún sé ekki alltaf nauðsynleg þegar brotin eru of skelfileg og sá eða sú sem braut á þér sýnir engin merki um iðrun og heldur jafnvel áfram að brjóta á öðrum.

Það er þó afar mikilvægt að ná ákveðinni sátt í hjarta sínu við það sem gerðist. Sáttin þarf ekki að felast í fyrirgefningu og ekki heldur í því að sætta sig við skelfilega atburði. Hún felst í því að komast á þann stað að sá eða sú sem braut á þér skiptir þig ekki máli lengur, hefur engin áhrif á líf þitt eða líðan. Stundum er erfitt að komast á þennan stað án hjálpar.

Ég er ekki viss um að hver einasta manneskja sem tók þátt í sáttarferlinu í Suður Afríku hafi í hjarta sínu fyrirgefið öllum sem á henni brutu. Það er ekki víst að hún hafi upplifað að viðkomandi hafi iðrast og það er ólíklegt að allir brotamennirnir hafi tekið þátt. Enda var þetta ferli ekki kallað fyrirgefningarferli heldur sáttaferli. Og sáttin varð til þess að þjóðin gat haldið áfram. Ég veit að það er sannarlega hægt að fyrirgefa alvarlega hluti þó ekki sé það alltaf nauðsynlegt. Ég er viss um að það sé gott fyrir allar manneskjur að lifa í fyrirgefandi umhverfi. Þar sem við vitum að við verðum ekki dæmd fyrir minnstu mistök og okkur verði fyrirgefið ef okkur verður alvarlega á og iðrumst gjörða okkar. Lausnin er því líklega fólkin í því að fyrirgefa mörgum margt, oft. (Sættast við lífið og aðstæður okkar með því að fara í gegnum hlutina og byrgja þá ekki inni og verða þannig bitrar og reiðar manneskjur. Þá verður lífið svo miklu betra. Ég er sannfærð um að Guð fyrirgefi þér og mér ef við reynum okkar besta við að vera almennilegar manneskjur, getum beðist fyrirgefningar og tekið ábyrgð á gjörðum okkar og fyrirgefið öðrum þegar það á við. Amen.