Sæl/l

Sæl/l

Komdu nú sæll og margblessaður sagði eldri maður jafnan við mig sem vann með mér í Slippnum í Reykjavík á unglingsárum mínum. Ég svaraði honum jafnan með því að segja ,,Sæll vertu” án þess að vita hvað ég var að segja, eða þannig. En mér fannst alltaf eitthvað notalegt við þessa kveðju á morgnana þegar ég mætti í vinnuna. Stundum velti ég fyrir mér hver þessi sæla væri.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
03. nóvember 2024
Flokkar

Saga allra heilagra messu tengist  sögu hins fræga Panþeons í Rómaborg.  Panþeon var heiðið hof tileinkað öllum guðum og var reist árið 172 fyrir Krist og þykir enn í dag jafn stórkostlegt verkfræðiafrek og það var þá. Panþeon þýðir einmitt ,,allra guða”. Eftir að kristnin sigraði Rómaveldi breytti Bonifacius 4 páfi hofinu í kirkjuna ,,Kirkja heilagrar Maríu og allra dýrlinga” -. Panþeon var vígt sem kirkja þann 13. maí árið 609 og var vígsludagur kirkjunnar tileinkaður öllum píslarvottum. Það var svo Gregorius 3. páfi sem helgaði daginn sem messudag allra helga karla og kvenna og kallaði hann Festum omnium sanctorum eða allra heilagra messu.

Gregorius 4. páfi færði síðan hátíðina yfir á 1. nóvember. Þar er hún staðsett enn í dag. Hátíðin nautsnemma mikilli vinsælda og barst hratt norður Evrópu og alla leið til Íslands köldu stranda. Hér á landi varð hún snemma að stórhátíð og er hennar getið með íslensku nafni í handriti frá því um 1200. Þorlákur helgi, verndardýrlingur Íslands, sagði svo fyrir um að halda skyldi sérstaka 6 daga föstu fyrir allra heilagra messu alveg eins og fyrir jólin. Í hans huga voru því þessar hátíðir jafnar. Þegar bylgja siðbreytingarinnar gekk yfir Evrópu á 14, 15 og 16. öld var helgi dýrlinga kirkjunnar afnumin í mörgum þeim löndum þar sem hún var lögtekin. Það gerðist einnig hér á landi. Allra heilagra messa var þó ekki afnumin sem helgidagur 1. nóvember fyrr en árið 1770.

 Þá færðist allra heilagra messa yfir á fyrsta sunnudag í nóvember. Samtímis var hætt að helga hann öllum dýrlingum. Þess í stað varð dagurinn minningardagur um allar látnar sálir.  

 Við Íslendingar notum orðið Sæl / Sæll og blessuð / blessaður þegar við við heilsumst og kveðjumst. Vertu sæl og blessuð,  vertu sæll og blessaður.

Komdu nú sæll og margblessaður sagði eldri maður jafnan við mig sem vann með mér í Slippnum í Reykjavík á unglingsárum mínum. Ég svaraði honum jafnan með því að segja ,,Sæll vertu” án þess að vita hvað ég var að segja, eða þannig. En mér fannst alltaf eitthvað notalegt við þessa kveðju á morgnana þegar ég mætti í vinnuna. Stundum velti ég fyrir mér hver þessi sæla væri.

Ég hygg að það séu ekki margar þjóðir sem búa við þessa fallegu málvenju. Hver er  merking þessara orða í máli okkar? Að mínu mati er merkingin fyrst og fremst sú að við óskum hverju öðru velfarnaðar til líkama, sálar og anda í hverju því sem við tökum okkur fyrir hendur hér og nú og um alla framtíð.

Fjallræða Jesú Krists hefst með Sæluboðunum. Sérhvert sæluboð hefst með orðunum ,,Sælir eru”. Gríska orðið er ,,makarios”.  Það merkir að sá sem notar þetta orð ,,makarios” óskar þeim sem hann talar við velfarnaðar á öllum sviðum mannlegs lífs.

Gríska orðið makarios er þýtt sem sæla á íslensku. Það þýðir guðleg sæla eða blessun sem kemur frá Guði og er ekki hægt að taka frá þér því að Guð hefur snert þig. Þetta er ákaflega dýrmæt gjöf sem vert er að minnast og þakka fyrir í lífsins ólgusjó. Í gleði jafnt sem raun er Guð með okkur.

Í sæluboðunum bregður Jesús upp mynd af hamingjusamri fullkominni  manneskju eins og hann sér hana fyrir sér, manneskju sem leggur umfram allt traust sitt á Guð.

Drifkraftur vestrænnar menningar er leit fólks að hamingjunni. Við fyllumst vellíðan þegar við förum í nýkeyptu fötin okkar og þegar við erum búin að borða góðan mat. Við verðum líka ánægð, nánast hamingjusöm þegar við erum búin að skila af okkur góðu verki í vinnunni eða heima fyrir í eldamennskunni eða tiltektinni, heimanáminu svo nokkuð sé nefnt.  Þegar við lítum yfir daginn þá klöppum við okkur stundum og hrósum fyrir dagsverkið og finnum vellíðunartilfinningu streyma um okkur.

En þegar við lítum á efnisskrá frelsarans í dag yfir hamingjuna þá fallast okkur gjörsamlega hendur, eða hvað segir guðspjall dagsins sem við hlýddum á? Þetta er undarleg lesning því að margt af því sem hann bendir á virðist við fyrstu sýn, já, og heyrn,  vera í andstöðu við það sem við erum að leita að í leit okkar að hamingjunni. Hann segir t.d. ,,Sælir eru fátækir.. “ Hver hefur heyrt  og getur tekið undir að fátækt sé grundvöllur hamingjunnar? Er hamingjan fólgin í því að róta eftir fémæti í ruslatunnu eða á ruslahaugum stórborga heimsins til að geta keypt sér eitthvað að borða?   

,,Sælir eru þér sem nú hungrar því að þér munuð saddir verða.“ Segir Jesús í guðspjalli dagsins. Hvernig getur hamingjan verið fólgin í því að vera hungraður?  Þetta hljómar frekar eins og örvæntingarfull leit að því sem ekki er hægt að höndla.

Hvernig verðum við södd?  Vissulega verðum við södd þegar við erum búin að borða góðan mat.  Er Jesús að tala um eitthvað annað en það sem varðar líkamlega mettun?

Í Matteusarguðspjalli er fjallræðuna í heild sinni að finna. Þar er haft eftir Jesús: ,Sælir eru þeir sem huungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þeir munu saddir verða.“

Ég vil  trúa því að flestir hælisleitendur og flóttamenn sem hingað leita séu flýja ofsóknir og stríð heima fyrir eða aðstæður þar sem lífi þeirra sé hætta búin af ýmsum ástæðum.  Þetta fólk hungrar og þyrstir eftir réttlætinu. Hafnfirðingar hafa ekki vísað þessu fólki á dyr, öðru nær. Um tíma tók sveitarfélagið á móti flestum flóttamönnum  miðað við önnur sveitarfélög og veitti því húsaskjól og margvísleg önnur bjargráð í samráði við Rauða krossinn, kirkjuna  og önnur félög.

Í guðspjalli dagsins segir Jesús jafnframt: ,,Sælir eru þér þá er menn hata yður, þá er þeir útskúfa yður og smána og bera út óhróður um yður vegna Mannssonarins.“

Við eigum að elska útlendinginn að mínum dómi en hvað erum við að gera íslendingar um þessar mundir í garð þeirra flóttamanna og hælisleitenda sem biðja um hæli hér á landi? Nú höfum við tekið upp á því að girða fyrir komu þessa fólks til landsins og við höfum verið að flytja það nærri vikulega úr landi til síns heima. En ég veit ekki betur en að flogið hafi verið nærri vikulega um skeið með fólk frá Venesúela til síns heima. Við eigum að elska útlendinginn segir Jesús og skapa honum mannsæmandi aðstæður til að geta lifa sómasamlegu lífi. Vissulega er þetta mjög erfiður málaflokkur fyrir íslenskt samfélag um þessar mundir eins og okkur er öllum kunnugt um. En við íslendingar verðum að komast að ásættanlegri niðurstöðu í þessum málaflokki þar sem mannúð er höfð að leiðarljósi.

Hvernig getum við verið sæl þegar fólk hatar okkur vegna þess að við komum frá öðrum menningarsvæðum og iðkum aðra trú en við þekkjum best og teljum besta, kristna trú?  Hvað á Jesús við þegar hann segir að sá eða sú sem verður fyrir óhróðri, já, kynþáttaníði,  verði sæll eða sæl?

 Hefur þú einhvern tíman hitt einstakling sem hefur sagt við þig: ,,Ég vildi óska þess að einhver réðist á mig og berði mig og skildi mig eftir blæðandi í vegkantinum, þá félli hamingjan mér í skaut.”

Við fyrsta lestur virðist efnisskrá frelsarans yfir hamingjuna mjög skrítin og nánast út úr öllu korti á þessum tímum sem við lifum á.  Hann skerpir enga matarlyst og blæs engu sjálfstrausti í brjóst okkar,  öðru nær.  Þetta virðist frekar vera listi yfir það sem við eyðum lífinu í að flýja frá.

Ég hygg þó að Jesús sé ekki að tala um líkamlega eiginleika í sæluboðum sínum en flestir leita hamingjunnar á því sviði í heiminum í dag. Ég tel að hann sé að segja að hamingjuna sé að finna á hinu andlega sviði. Hann er líka að tala um mikilvægi þess að standa með sjálfum sér, bera ábyrgð á sjálfum sér og sýna öðru fólki vinsemd og kærleika.Við verðum að setja sæluboðin í rétt samhengi eins og svo margt annað í rituðu máli í ritningunni og víðar.

 Samhengið fæst með því að rifja upp komu Krists í heiminn og til hvers hann var kominn. ,,Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.”  Eilífa lífið byrjar við skínarlaugina þegar barnið er tekið í samfélag heilagra, kirkjuna sem á sér enginn landamæri á jörðu sem himni, með bæn og beiðni ásamt þakkargjörð. Með skírninni eignast barnið öll fyrirheiti Krists, þar á meðal eilíft líf.

 Í gær skírði ég lítinn fjögurra ára dreng frá Litháen við þennan skírnarfont. Hann heitir Markas Jonas. Hann hélt sjálfur á logandi skírnarkerti sínu og horfði í logann og blés svo á hann sjálfur. Hvert fór ljósið? Það flöktar nú í hjarta hans sem senn tekur að brenna þegar foreldrar hans fara að kenna honum bænirnar.  Foreldrar hans fluttu hingað fyrir nokkrum árum í leit að betra lífi og borga nú sína skatta og skyldur til samfélagsins og þau vilja tengjast kirkjunni í sinni sókn.

Í Matteusarguðspjalli er haft eftir Jesús á fjallinu forðum. ,,Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða”.

Orðið sorg ristir ekki djúpt í vitund ef það tengist ekki persónulegri reynslu. Þegar sorgin verður hins vegar okkar, þín og mín þá breytir orðið um hljóm. Þá sjáum við ekki fyrir okkur nafn í frétt eða andlit á skjá, heiti eða augu þjáðrar syrgjandi manneskju sem við þekkjum ekki og á enga beina aðild að einkalífi og innra lífi okkar. Þá er þrautin okkar. Við lifum okkur sjálf í þeim harmi og kvöl sem þyrmdi yfir. Og enginn annar grætur tárum okkar. Enginn annar lifir okkar þungu, sáru hjartaslög. Þessi reynsla er einstök hverjum einstökum einstaklingi.

 Guð. Ekkert orð er eldra en það. En það hefur túlkað margvíslegar og sundurleitar hugmyndir. Það getur verið tómt, efnislaust, dautt hugtak. En það getur fengið hljóm og líf þegar það verður veruleiki í vtund manns, samofið meðvitund hans um sjálfan sig.  Þessari reynslu kynnumst við í Biblíunni og í kristnum trúarvitnisburði. Þessi reynsla kristins manns gæti verið á þessa leið í bænarorðum : ,,Guð minn, þú ert hjá mér, þú ert í hverju æðaslagi mínu, þú skynjar hugrenningar mínar, sérð inn í huga minn, skilur mig alveg til grunna. Og allt, það getur ekki haggast, hvað sem annars kann að bresta eða hrynja, hvað sem ég missi. Ég á sjálfan mig og alla hluti með þér. Því að þú átt mig. Þess vegna get ég í rauninni ekkert misst. Allt er varðveitt hjá þér. Þú ert og verður Guð minn. Miskunn þín er mætari en lífið. Þótt hold mitt og hjarta tærist ert þú Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð.”

 Það getur sannarlega gerst að þú spyrjir. Hvar ertu Guð minn? Hvar varstu að þetta skyldi koma fyrir mig, að þetta skuli geta gerst? Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?

Allur sársauki leitar að líkn, hvert böl verður bæn í einhverju formi. Þegar ógn og myrkri lýstur yfir verður hver maður líkt og hjálparlaust barn og kallar eftir hjálp með andvarpi eða með öðrum hætti. Þó að við vissum ekkert, þá var það ofið inn í hverja taug að einhver væri í nánd sem heyrði og skildi og hlyti að hjálpa.

Þessi var vafalaust sammannleg reynsla margra þeirra sem hlýddu á Jesú flytja sæluboðin forðum á fjallinu. Fólkið skynjaði að Jesús ætti auðvelt með að setja sig í þeirra spor og hlyti að hjálpa því.

Hannes Hafstein kemst vel að orði er hann yrkir:

 Er sólin hnígur hægt í djúpan sæ

og höfuð sitt til næturhvíldar byrgir,

á svalri grund, í golu þýðum blæ,

er gott að hvíla þeim, er vini syrgir.


Í hinstu geislum hljótt þeir nálgast þá,

að huga þínum veifa mjúkum svala.

Hver sælustund, sem þú þeim hafðir hjá,

í hjarta þínu byrjar ljúft að tala.

 

Og tárin, sem þá væta vanga þinn,

er vökvan, send frá lífsins æðsta brunni.

Þau líða eins og elskuð hönd um kinn

og eins og koss þau brenna ljúft á munni.

 

Þá líður nóttin ljúfum draumum í,

svo ljúft að kuldagust þú finnur eigi,

og, fyrr en veistu, röðull rís á ný,

og roðinn lýsir yfir nýjum degi.