Eins og margir prestar hef ég fyrir sið að kveðja söfnuð minn við kirkjudyr eftir messu. Þá fæ ég stundum örlítil viðbrögð við prédikun minni. Það kitlar ákveðna girnd þegar fólk þakkar mér fyrir ræðuna og enn betra finnst mér þegar söfnuðurinn þakkar mér fyrir Orðið. Þá fæ ég á tilfinninguna að hugsanlega hafi mér tekist þokkalega upp og verið notaður af heilögum anda sem hans tæki.
Fáir skamma mig fyrir það sem ég sagði af stólnum. Þó er ábyggilega oft fyllsta ástæða til þess. Ég las um daginn nokkrar ekkert svo rosalega gamlar prédikanir eftir mig og Guð minn góður! Mikið hef ég búið við kurteisa og tillitssama áheyrendur. Þó að það sé ef til vill ekki notalegt væri tilbreyting að heyra sagt við mann við kirkjudyrnar: "Þetta var nú meira endemis bullið í þér, séra minn!"
Einn minna lærifeðra benti á að prestar hefðu heitið því að prédika Guðs orð hreint og ómengað. Gerðu þeir eitthvað annað hefði söfnuðurinn ekki einungis rétt til þess að þagga niður í prestunum, honum bæri skylda til þess og ætti helst ekki að láta þar við sitja, heldur kasta slíkum prédikurum út úr kirkjunum.
Kannski örvaði það kirkjusókn ef von væri á slíkum uppákomum í messum?
Nýlega var ég að prédika og lá töluvert á hjarta. Prédikunin var þeirrar gerðar að hún var lítið evangelísk, frómt frá sagt. Þó kenni ég yfirleitt margt lint. Ég sveiflaði svipu lögmálsins úr stólnum. Eiginlega vorkenndi ég blessuðum áheyrendunum að hlusta á þetta. Meðan ég talaði skannaði ég söfnuðinn. (Hann var reyndar fljótskannaður.)
Voru þar einhverjir líklegir til að gera bragð úr ellefta borðorðinu og henda mér út úr guðshúsinu?
Mér datt í hug að milda þetta aðeins og hrista hönd hvers einasta manns eftir guðsþjónustu, horfa í augu hans og segja hlýlega en ákveðið: "Þetta var ekki persónulega meint."
Nokkrir útlendingar voru í kirkjunni þetta kvöld. Einn þeirra, japönsk stúlka, spurði mig við kirkjudyrnar hvort ég talaði ensku. Ég kvaðst gera það. Þá tók hún þétt í hönd mér og sagði: "Þakka þér fyrir að segja sannleikann!" Ég varð hissa og spurði hvort hún hefði skilið það sem ég sagði. Hún svaraði brosandi: "Nei, nei, en ég fann að þú varst að segja sannleikann!"
Þannig getur maður fengið hrós fyrir ræðu frá manneskju sem skildi ekki orð af því sem þar var sagt.
En þá verður maður líka að segja sannleikann.