Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“
Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“
Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“
Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“
Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“
Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Þetta sagði Jesús til að kynna með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt sagði hann við hann: „Fylg þú mér.“ Jóh 21.15-19
Í dag eru konur í forgrunni þjónustunnar hér í Laugarneskirkju, bæði í guðsþjónustunni sjálfri og hádegisverðinum góða sem stendur öllum til boða að lokinni messu. Hvoru tveggja er að vísu guðsþjónusta þ.e.a.s athöfnin hér og athöfnin niðri þar sem konurnar vinna að því að næra viðstadda með súpu og brauði. Það er náttúrulega guðsþjónusta að gefa fólki að borða enda sjáum við það endurtekið í guðspjöllunum að Jesús leggur hugsun í það hvernig næra má fólkið. Það gerist raunar oft við næsta furðulegar aðstæður stundum þar sem mikill mannfjöldi er saman komin og stundum eftir að Jesús hefur læknað eða gert kraftaverk í lífi fólks, þá leggur hann til að menn nærist t.d. þegar hann læknaði dóttur Jaírusar þá sagði hann grátbólgnum foreldrunum að gefa stúlkunni að borða, kannski eitthvað sem var þeim ekki ofarlega í huga á þeirri stundu. Og þegar hann svo bjó sig undir að kveðja lærisveina sína þá bauð hann til kvöldverðar þar sem hann gaf þeim sjálfan sig í brauði og víni. Já hann gaf þeim sjálfan sig til næringar og nærveru. Í ljósi þessa er dálítið merkilegt að hugsa til þess hvernig þjóðfélag okkar hefur þróast á undanförnum árum, einhvern veginn höfum við fjarlægst þá hugsun að hlúa að og næra, þessir tveir þættir hafa ekki samrýmst þeim áherslum sem hafa verið ríkjandi í þjóðarsálinni og í raun höfum við með viðmóti okkar skrifað þessa þætti á fortíðina gert þá að viðfangsefni sögunnar af því að framsækni og markmiðssetning, nýsköpun og framþróun, er einfaldlega bara málið. Og í raun kemst maður bara býsna langt á því að kunna þessa fjóra frasa. En aðhlynning, nærvera og umhyggja það er bara eitthvað sem hægt er að lesa um í Öldinni okkar á sömu síðu og umfjöllun um kvenfélög í Reykjavík, getum við ekki verið sammála um að þetta sé eitthvað sem við getum afhent Þjóðminjasafninu til varðveislu, strax í dag? Eða hvað? Erum við kannski búin að fá upp í kok af frösum og frasafræðingum en þráum þess í stað innihald og áþreifanleika? Mér fannst ég skynja það í aðdraganda þessara kosninga sem réðust í nótt, mér fannst ég skynja þrá eftir sannleika og siðferði og mér fannst þolmörk þjóðarinnar gagnvart bulli og vitleysu sjaldan eða aldrei hafa verið minni. Mér finnst þjóðin hafa komið vel útúr afvötnun undangenginna mánaða og mér finnst við bara býsna edrú þessa dagana. Það er eitthvað mjög gott að gerast í heiminum í dag, nýr Bandaríkjaforseti Barak Obama vekur manni von um bætt samskipti milli vestrænna ríkja og múslima, Hann virðist vera allt sem fyrirrennari hans er ekki. Hún var líka táknræn myndin sem náðist af Obama og Hugo Chaves forseta Venesúela á dögunum þar sem þeir hlógu og spjölluðu saman eins og fullorðnir menn en það er alveg ljóst að Chaves og Bush hefðu aldrei tekist í hendur eða yrt á hvorn annan, Bandaríkin og Venesúela hafa eldað grátt silfur undanfarin ár eins og reyndar Bandaríki Bush hafa gert við fleiri þjóðir með skelfilegum afleiðingum eins og við öll þekkjum. En það er eitthvað gott að gerast núna, einhver afhjúpun lyginnar sem hefur ógnað heimsbyggðinni meira undanfarin ár en fuglaflensan eða svínaflensan á nokkurn tímann eftir að gera.
En svo við lítum okkur dálítið nær þá er það helst að frétta í dag að kvenfélagið hér í Laugarneskirkju hefur fæðst að nýju og ekkert sem bendir til að það sé á leiðinni á safn, hér hefur hópur ungra kvenna gengið til liðs við félagið og kynslóðirnar mæst í sameiginlegu erindi sínu að hlúa að og næra, feta sporin hans Jesú sem eru svo áþreifanleg og sönn og laus við alla innantóma frasa. Hér starfar eitt elsta kvenfélag Reykjavíkur og innan þess eru konur sem hafa ljáð því krafta sína í fjölda ára og hlúð þannig að fjölda manns, barna jafnt sem fullorðinna í hverfinu. Þær eru ekki mjög sýnilegar en verk þeirra vitna um þær. Kvenfélagið er og verður hornsteinn kirkjunnar vegna þess að framlag þess er þjónusta og aftur þjónusta, það starfar með heill manneskjunnar að markmiði og aðferðin er sú sem Jesús kenndi með framgöngu sinni, aðferðin sú er borin uppi af kærleika, virðingu og umhyggju. Í ljósi nýafstaðinna kosninga og í ljósi þess að guðsþjónustan í dag er borin uppi af kvenfélaginu er mjög freistandi að bera saman eðli kvenfélagsins og eðli stjórnmálaflokka, að vísu er samanburðurinn ekki hagstæður þ.e.a.s. fyrir stjórnmálaflokkinn en getur engu að síður varpað ljósi á það mikilvæga starf sem kvenfélag vinnur og jafnframt varpað ljósi á þá þætti sem stjórnmálin mættu tileinka sér úr starfi kvenfélagsins. Já hugsið ykkur ef kvenfélagið skipaði næstu ríkisstjórn Íslands, þá myndi sennilega vera harla erfitt fyrir Kastljósið og Silfur Egils að halda úti dagskrá bæði vegna þess að enginn spillingarmál væru í kortunum og síðan gæti orðið erfitt að fá fulltrúa félagsins í viðtal af því að þær hefðu engan áhuga á að vekja athygli á sjálfum sér þar sem þær starfa ekki með sjálfan sig að markmiði. Já stóri munurinn á kvenfélagi og stjórnmálaflokki er að kvenfélagið gætir ekki eigin hagsmuna heldur annarra. Guð gefi að það verði dálítið meiri kvenfélagsbragur á nýju ríkisstjórninni okkar. Í pistli dagsins erum við minnt á að dreifa valdi í stað þess að safna því að okkur og við erum minnt á að leiða samfélög sem fyrirmyndir en ekki sem valdhafar. Það eru gríðarlega mikilvæg skilaboð sem í raun undirstrika fullkomlega þá valdbeitingu sem Jesús Kristur viðhafði en hann stýrði sem fyrirmynd en ekki sem valdhafi, hann tróð fyrstur slóðann og óð ána svo við sem á eftir komum gætum lifað örugg. Valdið dróst að honum en hann dró það ekki að sér. Þessa valdbeitingu bið ég Guð um að leiða hinu nýja framkvæmdavaldi fyrir sjónir.
Guðspjall dagsins fjallar um hina umbreytandi elsku, Jesús spyr Símon Pétur eftirfarandi spurningar “Símon Jóhannesson, elskar þú mig?” Og Símon Pétur svarar “Já Drottinn þú veist að ég elska þig.”Spurninguna ber Jesús fram þrisvar sinnum og í hvert sinn sem Pétur svarar játandi boðar Jesús honum að umbreyta þeirri ást og gera hana að gæfu annarra, “gæt þú lamba minna, ver hirðir sauða minna”segir Jesús, það er erindið sem hann ætlaði kirkjunni, ekki bara launuðu starfsfólki hennar heldur hreyfingunni allri. Þess vegna liggur sú krafa á herðum allra kristinna manna, að gera elsku Guðs að gæfu annarra. Til þess dó hann og reis upp, til að sú gjöf ávaxtaðist mann fram af manni. Þær eru margar manneskjurnar sem hafa gert kærleikann að umbreytandi valdi í sínu lífi um eina þeirra lærði ég fyrir viku síðan þegar ég fór í leikhús og sá sýninguna um Rachel Corrie, bandarísku stúlkuna sem fór sem friðargæsluliði til Palestínu þar sem hún starfaði á Gazasvæðinu, eitt af hlutverkum hennar þar var að standa vörð um vatnsbrunna og koma í veg fyrir eyðileggingu á palestínskum húsum og heimilum sem átti að jafna við jörðu svo að hægt væri að reisa tíu metra háan aðskilnaðarmúr í kringum borgina. Þann 16.mars árið 2003 keyði jarðýta í átt að heimili apótekarans sem Rachel Corrie hafði búið hjá í Rafah. Rachel vissi að tvær fjölskyldur sem bjuggu í húsinu voru innandyra og því tók hún sér stöðu milli jarðýtunnar og heimilisins íklædd appelsínugulu vesti og umkringd öðrum friðargæsluliðum . Jarðýtan valtaði yfir Rachel Corrie þrátt fyrir að friðargæsluliðar hefðu baðað út höndum til að stöðva ökumann hennar. Rachel náði að klifra upp á hrúgu sem stóð henni nærri en missti fljótt fótanna og hvarf undir jarðýtuskófluna.(1)
Eftir þessa áhrifaríku leiksýningu sem byggð er á tölvupóstum og dagbókarbrotum Rachel Corrie, stigu foreldrar hennar upp á sviðið og ræddu við áhorfendur, það var ótrúlega dýrmæt lífsreynsla að hlýða á þau og það var svo merkilegt að upplifa hversu andi Rachel lifir sterkt í þeirra lífi og hugsjónir hennar um frið fyrir botni Miðjarðarhafs knýja þau áfram. Þau hafa sjálf farið á Gazasvæðið og vita allt um ástandið þar og hafa mjög sterka og gagnrýna skoðun á aðkomu Bandaríkjamanna að þessu stríði. Ég held að það hafi enginn farið samur út af þessari sýningu og ef ég hef einhvern tímann verið sannfærð um möguleikann á umbreytandi valdi kærleikans í okkar annars yfirborðslega heimi, þá studdi þessi saga mína sannfæringu.
Kærleikurinn, umhyggjan og nærveran ásamt líkamlegri og andlegri næringu er það sem getur breytt þessum heimi og ég held að við stöndum frammi fyrir því í dag að kjósi þá leið umfram aðra, í dag höfum við áhuga á að heyra um manneskjur eins og Rachel Corrie, við viljum stjórnmálamenn eins og Barak Obama og við viljum stjórnmálaflokka sem starfa meira eins og kvenfélög, við höfum fengið nóg af yfirborðsmennsku, innantómum frösum og fölskum fyrirheitum, ekki satt?
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen
(1) Upplýsingar fengnar á vef Borgarleikhússins