Hver dagur heimsþings Alkirkjuráðsins hefst á bænastund, þar sem ólíkar kirkjuhefðir fá að njóta sín, en allir sameinast í því helgihaldi. Það er magnað að heyra faðir vorið lesið og beðið á öllum þessum þjóðtungum. Einingin er sterk þótt skoðanir séu skiptar á útfærslu helgisiðanna og einstökum þjóðmálum. Biblíulestur tekur við af helgistundinni, þar sem þátttakendum er skipt í fjölda hópa og fjörugar umræður ríkja, en allir eru á sama veginum í átt til þess sem sagði. ,,Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“
Forsætisráðherra S-Kóreu ávarpaði heimsþingið í dag. Viðbúnaður var mikill og öryggisgæsla mjög sýnileg. Merkilegt var að heyra þann jákvæða tón sem forsætisráðherrann sló. Hann talaði um hve mikið kristin kirkja gæfi til samfélagsins í S-Kóreu, hvað varðar menntun, þjónustu og kristniboð. Hann deildi, með áheyrendum, væntingum sínum til kirkjunnar í heiminum, og sagði eitthvað á þá leið að kirkjan gæti gefið mikið til samfélags sem byggja ætti á kærleika.
Drög að ályktunum um samfélagsleg málefni voru kynnt á þinginu í dag. Þau verða afgreidd á næstu dögum. Þar eru til umræðu málefni ríkisfangslausra einstaklinga, ástandið milli Norður og Suður Kóreu, staða kirkjunnar í mið-Austurlöndum og fleira. Í umræðum bar á góma ,,Peace – theology“ eða friðar-guðfræði, þar sem meðal annars var rætt um þá staðreynd að þjóðir margra aðildarkirkna WCC eru meðal stærstu vopnaframleiðanda og vopnasala í heiminum. Kirkjur heims þurfa á vegferð sinni til friðar, að beita sér heimafyrir, gagnvart stjórnvöldum, til að dregið verði úr vopnasölu í heiminum.
Biskup frá Sri Lanca ræddi í frábærri framsögu sinni um ,,victim theology“ eða ,,Guðfræði fórnarlambsins“. Hann dró fram í dagsljósið reynslu hinna þjáðu og lagði áherslu á að reynsla einstaklinga og hópa á jaðrinum í samfélaginu og rödd þeirra þyrfti að heyrast í kirkjunni, því kirkjan væri vettvangur sannleikans, réttlætis, kærleika, sáttargjörðar, endurreisnar, upprisu og friðar. Hin spámannlega rödd kirkjunnar þyrfti að heyrast og berast. Ég hugsaði, hverjir eru á jaðrinum í íslensku samfélagi í dag og hvernig getur kirkjan verið farvegur fyrir raddir þeirra? Þið getið kannski hjálpað mér að finna út úr því.
Einnig fóru fram mjög spennandi umræður um samkirkjuleg málefni. Rætt var saman í litlum hópum og síðan stærri hópum. Margt bar á góma og ekki voru allir á eitt sáttir. Fyrst voru framsögur haldnar af fólki frá ólíkum trúarbrögðum. Sessunautur minn frá koptísk orthodox kirkjunni í Egypalandi, þar sem um 50 kirkjur hafa verið brenndar á síðustu mánuðum og fólk drepið, hvíslaði að mér um leið og hann stóð upp og fór út: ,,I feel we are denying our Christianity“. Við söknuðum hans í umræðunni, ég vona að hann hafi ekki farið langt og að ég hitti hann á morgun.