„Ungum er það allra best“

„Ungum er það allra best“

Andvaraleysi er mjög hættulegt þegar umhyggja fyrir börnum er annars vegar
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
13. janúar 2013
Flokkar

Guð ljóssins, við þökkum þér fyrir komu Jesú Krists í heiminn, hann sem er ljós heimsins, takmark þess sem leitar, og vegvísir hins villta. Við þökkum þér að við megum koma til hans með börnin okkar og okkur sjálf, og þiggja blessun hans í heilagri skírn, hlýða á hann og fylgja honum að eilífu. Amen. (Bæn dagsins)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen 

Ég hef lesið þessi orð úr Markúsarguðspjalli (Mark. 10.13-16) yfir hverju barni sem ég hef skírt síðan ég tók vígslu. Guð tekur sérhvern skírnarþega að sér sem sitt barn og veitir því blessun sína til líkama og sálar, óskar því allra heilla um aldur og ævi. Og enginn tekur þennan barnarétt frá þeim sem skírður er. Það undirstrikar frelsarinn í skírnarskipuninni sem einnig er lesin yfir hverjum skírnarþega þar sem hann segir:,,Sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.“ (Matt.28:20)   Það er dýrmætt þiggja náðargjöf skírnarinnar í þessum heimi og mikil ábyrgð á foreldra lögð að laða ung börn sín og leiða að uppsprettulind hjálpræðisins, leyfa þeim að sitja við fætur Jesú, barnavinarins mesta og taka heilræði hans til sín og kenna þeim að biðja til Guðs í Jesú Kristi. Ef við eigum erfitt með að sjá Guð fyrir okkur þá skulum við líta til Jesú sem sýnir okkur Guð á jörð. Svo einfalt er það. Við þurfum ekki að gera hlutina flóknari en þeir eru. Heilræði Jesú Krists eru hverju barni gott veganesti sem vex úr grasi fyrr en varir og þarf að bjarga sér sjálft í víðsjárverðum heimi þar sem hættur eru við hvert fótmál.  

Barnaníð 

Umræðan undanfarna viku í þjóðfélaginu er  búin að vera hræðilega erfið og átakanleg í alla staði. En nú er búið að úrskurða tvo karlmenn í gæsluvarðhald vegna meints kynferðislegs ofbeldis í garð barna og fullorðinna. Og ég velti því fyrir mér hvort úti í samfélaginu séu til konur sem hafi brotið á börnum og fullorðnum á sama hátt en hafi ekki verið kærðar ennþá. Er skömmin slík að þetta má ekki nefna?  

Barnaníð, þetta orð kallar á sterk viðbrögð okkar og samfélagsins. Við getum ekki lesið sál þeirra og hugarheim sem við umgöngumst frá degi til dags. Það er verkefni sálfræðinga og geðlækna. Við verðum að læra að setja okkur og öðrum mörk að þessu leyti.   Ótti 

Við viljum geta treyst fólki. Við viljum að börnin okkar geti alist upp í öruggu umhverfi. Ef reynslan sýnir að við getum ekki treyst fólki þá verðum við óttaslegin. Óttinn rekur okkur stundum út í horn sem veldur því að við sjáum ekki heildarmyndina, náum ekki að fanga umfang vandans. Við höldum jafnvel að við séum ein um þennan vanda og að það sé hvergi hjálp að fá.  Við skömmumst okkar jafnvel.  Skömmin grefur um sig í sálarlífi okkar, sálarlífi fjölskyldna, sálarlífi íslensku þjóðarinnar. Nú hefur verið stungið í þetta kýli. Gröfturinn vellur úr sárinu um þessar mundir. Það þarf að sótthreinsa sárið og búa um það, hefja forvarnarátak til að stemma stigu við þessum ófögnuði. Það þarf að hefja þessa erfiðu umræðu, kanna ábendingar, sækja þá til saka sem gerst hafa sekir um barnaníð. Það er verkefni lögreglunnar og dómstóla.  

Borgaraleg skylda

Það er hins vegar borgaraleg skylda að láta barnaverndaryfirvöld á hverjum stað vita ef minnsti grunur hefur vaknað um það að börnum sé hætta búin, ekki síst á heimilum sínum sem eiga að vera þeim öruggur griðastaður. Hvað skyldu vera mörg börn sem lifa í helvíti á jörð á heimilum sínum?  Við þekkjum öll símanúmer lögreglunnar 112 og Hjálparsíma Rauða krossins 1717. Við eigum að skipta okkur af, ekki síst þegar börn eiga í hlut.  

Vegvísir 

Það dugar reyndar ekki að nota þessi símanúmer til að ná sambandi við frelsara mannanna Jesú Krist. Hann svarar ekki í síma. Hann svarar hins vegar hverju barni sínu sem notar bænina sem er lykill að Drottins náð. Það er gott að venja sig á það að tala við hann með þeim hætti. Það er síðan alveg lífsnauðsynlegt að mínu mati að tileinka sér heilræði hans á lífsins vegi. Þau hafa augljóst forvarnargildi. Við sem höfum borið börn okkar til skírnar erum forvarnarfulltrúar að þessu leyti, samverkamenn Guðs, frelsishetjur réttlætisins í heimi þar sem hættur eru við hvert fótmál, þar sem úlfar í sauðagærum geta afvegaleitt börnin okkar.   Menn færðu börn til Jesú á jarðnesku tilveruskeiði hans vegna þess að reynslan hafði kennt þeim að hann var ekki úlfur í sauðargæru. Það var hægt að treysta honum. Hann kom til dyranna eins og hann var klæddur. Hann var þeim ljós heimsins, takmark þess sem leitar og vegvísir hins villta. Þannig reynist hann enn þeim sem leitar, biður og knýr á.

Heilræðavísur 

Heilræðavísur sr. Hallgríms Péturssonar eru kunnar íslendingum frá öndverðu. Þar bendir hann á mikilvægi þess að vera heiðarlegur, samviskusamur og trúr Guði: Hér flyt ég fjórar fyrstu heilræðavísur hans af níu.

Ungum er það allra best að óttast Guð, sinn herra, þeim mun viskan veitast mest og virðing aldrei þverra. 

Hafðu hvorki háð né spott, hugsa um ræðu mína, elska Guð og gerðu gott, geym vel æru þína. 

Foreldrum þínum þéna af dyggð, það má gæfu veita, varast þeim að veita styggð, viljirðu gott barn heita.  

Hugsa um það helst og fremst, sem heiðurinn má næra; aldrei sá til æru kemst. sem ekkert gott vill læra. 

Æðruleysi Jesú

Það var eðlilegt að gyðinga mæður á tímum gamla testamentisins vildu að börnin þeirra nytu blessunar mikilhæfs og virts meistara, kennara í fræðum gyðinga. Þær vildu gera það á fyrsta afmælisdegi barna þeirra. Talið er að þetta sé tilefni sögunnar í guðspjallinu sem við íhugum í dag.   En til að skilja betur fegurð þessarar sögu þá er nauðsynlegt að gera okkur grein fyrir því á hvaða tímapunkti hún gerist í lífi Jesú. Fræðimenn telja að hún hafi gerst þegar Jesús vissi hvert leið hans lægi. Hann vissi að hann yrði krossfestur. Sá dimmi skuggi vofði yfir lífi hans á þessum tímapunkti.  Þrátt fyrir þau átök sem voru farin að grafa um sig í sálarlífi hans af þeim sökum þá vildi hann gefa sér tíma til að brosa til barnanna og leika við þau um stund.

Lærisveinarnir brugðust við með undarlegum hætti. Þeir voru ekki hrifnir af því að börnin næðu fundi Jesú og nytu blessunar hans. Þeir voru ekki leiðinlegir menn eða miskunnarlausir. Þeir vissu ekki almennilega hvað var í gangi en þeir skynjuðu að Jesú liði illa og þyrfti á hvíld að halda. Þess vegna vildu þeir að Jesú nyti friðhelgi á þessari stundu og yrði ekki truflaður. En Jesús þurfti á því að halda að vera umvafinn börnum vegna þess að þau eru miklir gleðigjafar.  Jesús sagði við þá: ,,Leyfið börnunum að koma til mín.“   Jesús brosir og hlær

Þetta segir okkur heilmikið um Jesú. Guðspjallið segir að  Jesú þótti vænt um börnin og að börnunum þótti vænt um hann. Jesús getur ekki hafa verið fjarlæg og gleðisnauð persóna eins og listamenn hafa ímyndað sér hann í aldanna rás. Hafið þið séð málverk af Jesú þar sem hann brosir eða hlær?  Hann er alltaf svo alvarlegur á öllum málverkum. Auðvitað hefur hann átt auðvelt með að brosa og hlæja eins og hver annar heilbrigður einstaklingur. Þessi fallega saga er full af tilfinningum þegar grannt er skoðað. Allt frá varnarviðbrögðum lærisveinanna þar sem þeir sögðu, hingað og ekki lengra, til umvefjandi návistar Jesú með börnunum og mæðrum þeirra þar sem hann gaf sterklega til kynna að hann virti börnin eins og þau voru. ,,Þeirra er himnaríki“, sagði Jesús og benti á börnin. Hvað er það með börnin sem Jesús líkaði og mat svo mikils? Það var sakleysi og auðmýkt barnsins. Það er barnið sem vill sýna allar sínu bestu hliðar með ýmsum hætti. Sjáðu hvað ég á og sjáðu hvað ég get. Þeitta sjáum við oft í fari barna.  Slíkt barn er  auðveld bráð hverjum fullorðnum einstaklingi sem hyggst misnota það.   Jesús mat líka hlýðni barnsins mikils.  Að sönnu eru börn stundum óhlýðin en börnum er eðlislægt að hlýða þrátt fyrir það.   Í þriðja lagi benti Jesús á traustið sem barnið ber til annarra. Það má segja að traustið sé með tvennum hætti:   Annars vegar samþykkir barnið vald annars yfir sér. Það samþykkir vald föður síns eða móður yfir sér þegar það heldur að þau viti allt og hafi alltaf rétt fyrir sér. En okkur foreldrum til skammar þá kemst barnið fyrr eða síðar að því að foreldrar sínir vita ekki allt og hafa ekki alltaf rétt fyrir sér.  Í hjálparleysi sínu leggur barnið þá traust sitt á þann sem veit betur en það sjálft.   Hins vegar leggur barnið traust sitt á annað fólk sem ekki er tengt sér. Það gerir ekki ráð fyrir því að fólk reynist sér illa í sakleysi sínu. Barnið leikur sér við ókunnuga ef því er að skipta. Þekktur maður sagði eitt sinn að mesta hrósið sem hann hafi fengið var þegar barn sem hann þekkti ekki kom til hans og bað hann að hnýta skóreimarnar sínar.  Barnið hefur ekki lært að vara sig á umhverfinu.  Það trúir öllu góðu upp á aðra. Stundum leiðir þetta traust barnið því miður í hættu.   Jesús ávarpaði föður sinn á himnum með arameiska orðinu ,,abba“ sem þýðir pabbi. Svo náið var samband hans við föður sinn. Eflaust ávarpaði hann jarðneskan föður sinn, Jósef, með sama hætti og einnig móður sína Maríu. Ef Jesús hefði sjálfur átt börn þá hefði hann alið þau upp með siðbundnum hætti gyðinga og reynst þeim góður faðir. Hann hefði beðið þau að vara sig á hættunum í umhverfinu.   Verndum bernskuna – tíu heilræði

Tíu heilræði fyrir foreldra og uppalendur voru gefin út fyrir nokkrum árum í bæklingi sem nefnist ,,Verndum bernskuna“ Forsætisráðuneytið, Þjóðkirkjan, Velferðasjóður barna, Umboðsmaður baran og Heimili og skóli stóðu að útgáfu hans. Þessum bæklingi var dreift inn á íslensk heimili. Heilræðin eru sígild og hljóða svo: ,,Leyfum barninu að vera barn, Þorum að axla ábyrgð sem uppalendur, Viðurkennum barnið eins og það er, Verum til staðar fyrir barnið, Munum að rækta okkur sjálf, Hlífum barninu við ónauðsynlegu áreiti, Setjum foreldrahlutverkið í forgang, Veitum frelsi en setjum mörk, Verum barninu mikilvæg, Verndum bernskuna.“

Bæklinginn er að finna á vefsíðunni: Verndum bernskuna 

Í formála bæklingsins er eftirfarandi m.a. að finna: ,,Börnin eru dýrmætasti fjársjóður sem okkur er trúað fyrir. Uppeldi barna er því eitt af þeim verkefnum sem við viljum öll leysa eins vel af hendi og okkur er mögulegt. Sem betur fer krefst uppeldi barna ekki neinnar sérfræðikunnáttu. Móðir náttúra hefur séð til þess. Við sækjum fyrirmyndir og leiðsögn til okkar eigin foreldra og uppalenda og nýtum m.a. reynslu okkar og siðferðileg og samfélagsleg viðmið til að koma börnum okkar til manns. Þar með er ekki sagt að við getum ekki staðið einstaka sinnum frammi fyrir því að eitthvað sé ekki eins og það á að vera. Stundum yfirsést okkur eitthvert mikilvægt atriði í uppeldi barnsins eða í samskiptum okkar við það. Þegar okkur verður þetta ljóst er mikilvægt bæði fyrir barnið og okkur sjálf, að við látum ekki þar við sitja heldur ráðum bót á því.“   Að lokum vil ég nefna sérstaklega heilræði nr. 9 í bæklingnum sem hljóðar svo: ,,Verum barninu mikilvæg“. Þar segir: ,,Sterk tilfinningaleg tengsl eru barninu þínu mikilvæg allt frá frumbernsku til fullorðinsára. Jákvæð og uppbyggjandi samskipti stuðla að tilfinningalegu öryggi barnsins og hjálpa því að takast á við lífið upp á eigin spýtur. Það er mikilvægt að barnið geti átt trúnað þinn og geti treyst á umhyggju þína. Þeir sem skynja þarfir barna sinna og eru næmir á tilfinningar þeirra auka líkurnar á traustum tilfinningaböndum og eignast þannig trúnað barna sinna. Það skiptir miklu máli fyrir barnið þitt að geta snúið sér til þín þegar á móti blæs. Á unglingsárunum sækir barnið oft í vinahópinn eftir ráðgjöf en það er barninu nauðsyn að geta leitað til þín þegar á þarf að halda. Vertu til staðar þegar þín er þörf.“ 

Við tökum undir þetta heilræði og umfjöllunina um það. Við tökum líka undir heilræði Jesú Krists, svo sem Gullnu regluna og tvöfalda kærleiksboðorðið.  Einnig eru heilræðavísur Hallgríms Péturssonar mikilvægur vegvísir. Við gleðjumst yfir boðskap guðspjallsins sem gefur okkur von.

Ég þekki enga móður eða föður sem er ekki tilbúin að, vera vakin og sofin í þágu barna sinna. Kennum þeim að iðka hið góða og varast hið illa í þessum heimi.

Brýningin 

Ég hvet söfnuðinn til að láta aldrei slokkna á kyndli réttlætisins sem við höldum nú hátt á lofti í þágu barna á Íslandi. Við þurfum að sjá til þess að það sé alltaf til næring fyrir þennan eld svo að ekki slokkni á honum. Andvaraleysi er mjög hættulegt þegar umhyggja fyrir börnum er annars vegar.  Öll forvarnarfræðsla í þessu skyni er af hinu góða og má þjóðkirkjan ekki láta sitt eftir liggja í þessum efnum. Hún verður einnig að halda vöku sinni og koma í veg fyrir að úlfar í sauðagærum komist að börnunum sem sækja barna og unglingastarf kirkjunnar. Við verðum öll að líta í eigin barm að þessu leyti. Megi góður Guð halda almáttugri verndarhendi sinni yfir börnum þessa lands.