Á leið sinni sá hann mann, sem var blindur frá fæðingu. Lærisveinar hans spurðu hann: Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?Jesús svaraði: Hvorki er það af því, að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins.
Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gjörði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans og sagði við hann: Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam. Sílóam þýðir sendur. Hann fór og þvoði sér og kom sjáandi.
Nágrannar hans og þeir, sem höfðu áður séð hann ölmusumann, sögðu þá: Er þetta ekki sá, er setið hefur og beðið sér ölmusu?
Sumir sögðu: Sá er maðurinn, en aðrir sögðu: Nei, en líkur er hann honum.
Sjálfur sagði hann: Ég er sá.
Þá sögðu þeir við hann: Hvernig opnuðust augu þín?
Hann svaraði: Maður að nafni Jesús gjörði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina, þegar ég var búinn að þvo mér. Jh 9.1-11
Guðspjallið í dag segir okkur frá blindum manni. Manni sem hafði verið blindur frá fæðingu. Hann hafði aldrei séð sólina, grænt grasið, fegurð blómanna, bros móður sinnar né nokkuð annað það, sem glatt getur mannlegt auga. Líf hans var hjúpað myrkri, sem hann hafði enga möguleika á að sigrast á. Hann þekkti ekkert annað en myrkrið, átti enga minningu um það, sem venjuleg augu fá að sjá og skynja. Hann hefur því vissulega farið mikils á mis miðað við okkur hin, sem getum dag hvern opnað augu okkar og litið allt það sem í kringum okkur er. Það sem fyrir okkur er svo eðlilegur og sjálfsagður hlutur, að við leiðum sjaldnast eða jafnvel aldrei hugann að því, hefur fyrir honum aðeins verið fjarlægur draumur, sem hann vissi að aldrei ætti eftir að rætast. Óljós þrá eftir því, sem hann í raun og veru vissi ekki einu sinni hvað var. Hafði aldrei litið.
Þegar við hugleiðum hlutskipti þessa manns og annarra þeirra, sem orðið hafa fyrir hliðstæðum missi, þá verður ýmislegt, sem þó vex okkur oft í augum harla léttvægt. Og það væri betur ef við, sem erum heil og eigum heilbrigð börn og ástvini, lærðum að meta það og þakka, svo sem vert er, sem okkur er gefið og við fáum að njóta dag hvern. Því líf og heilsa, gæfa og lífslán, og annað það sem við njótum eru engan veginn sjálfsagðir hlutir sem við eigum heimtingu á, heldur er þetta allt Guðs gjöf. Ekki gefið fyrir okkar verðskuldan heldur eingöngu af náð.
Eða er ekki annars svo? Er það e.t.v. eftir allt saman þannig, að hlutskipti okkar hér í lífinu sé í einu og öllu sjálfskapað? Bæði gott og illt, þannig að við getum engum þakkað eða engum kennt um, nema okkur sjálfum?
Þessi spurning vaknaði hjá þeim sem þekktu til blinda mannsins. Hún var að vísu svolítið öðruvísi orðuð, en inntakið var hið sama. Þeir spurðu: “Hversvegna fæddist hann svona? Hver er orsökin? Var það vegna þess að foreldrar hans hefðu verið svo syndugir, eða er hann með einhverjum dularfullum hætti að taka út refsingu, sem hann sjálfur átti skilið? Er sökin e.t.v. eftir allt saman hans sjálfs?”
Þannig gátu menn spurt á dögum Jesú og þannig spyrja menn jafnvel enn þann dag í dag, því þessar spurningar endurspegla algenga skoðun. Skoðun sem hefur verið rík í hugum manna víðs vegar um heiminn allt frá grárri forneskju. Þessi skoðun byggir á þeirri meira eða minna meðvituðu eða ómeðvituðu forsendu, að við mennirnir séum með einhverjum hætti festir í hlekki lögmáls orsaka og afleiðinga, þannig að allt böl okkar og mótlæti sé uppskera þess, sem áður hefur verið til sáð. Þannig að öll dapurleg eða ill örlög séu þá í raun og veru fullkomlega eðlileg og aðeins makleg málagjöld þegar grannt er skoðað.
Jesús var spurður: “Afhverju er maðurinn blindur, er sökin hans eða foreldra hans?” Spurningin sjálf byggir beinlínis á þeirri lífsskoðun, sem ég hef hér í stuttu máli reynt að lýsa. En tökum eftir því, að Jesús vísar öllum slíkum hugmyndum á bug. Hann nálgast málið frá allt öðru sjónarhorni með svari sínu og segir í raun við okkur: “Talið ekki um sök í þessu sambandi, verið ekki sífellt að leita að orsökinni, hún skiptir ekki öllu máli úr því sem komið er. Maðurinn er jú blindur. Það er hinsvegar annað sem skiptir miklu meira máli. Og það er framtíðin. Til hvers getur þetta leitt sem orðið er? Hvað er hægt að gera? Hvaða köllun hljómar til okkar í þessum aðstæðum? Hvaða tækifæri blasa við? Spyrjum um það, því þetta getur fengið tilgang þrátt fyrir allt, getur orðið til blessunar, fái Guð að komast að. Hann getur snúið því til góðs!”
Jesús spyr því ekki fyrst og fremst um orsökina, eins og mennirnir gera, heldur spyr hann um ávöxtinn sem af þessu geti leitt. Hann spyr ekki: Hvers vegna er hann blindur, heldur bendir hann fram á við og spyr: Til hvers getur það leitt, sem komið hefur fyrir hann? Hvaða kall hljómar til okkar í aðstæðum þessa manns? Og tökum eftir því, að Kristur vill fá að nota okkur mennina í þessu sambandi. Í hvert sinn er við mætum þjáðum manni hljómar í raun kall hans til okkar, kall til þjónustu.
Við mennirnir skiljum ekki myrkrið í mannlegri tilveru og orsakir þess. Við getum ekki leyst gátu hins illa. Skiljum ekki syndina né allt bölið og þjáninguna sem hún leiðir af sér. Við getum því ekki skýrt orsakir þjáningarinnar á neinn viðhlýtandi hátt, þótt við verðum vissulega áþreifanlega vör við nærveru hennar í tilveru okkar og afleiðingar hennar fyrir okkur. En við getum horft til framtíðar, litið til lausnarinnar sem í boði er. Blindi maðurinn leitaði til Jesú. Treysti á lausn hans, laugaði augu sín að hans boði og kom aftur sjáandi.
Við getum á sama hátt gengið fram úr myrkrinu til móts við framtíðina í trausti til hans, sem leysir, gefur sýn, sigrar. Hann vill einnig ljúka augum okkar upp fyrir því ljósi, sem framundan er og gerir alla skugga bjarta. Hann vill leiða okkur það fyrir sjónir, að það eru ekki einhver ómennsk, köld og tilfinningalaus náttúruöfl, sem stjórna tilverunni. Því innst að baki öllu er lifandi og hlýtt föðurhjarta, þar sem er að finna miskunn og náð. Vilja til að líkna og lækna, hvað svo sem öllum orsökum líður. Þrá til að fyrirgefa, hver sem sökin annars er. Kærleiki Guðs, óendanleg náð hans, vill leiða okkur út úr myrkrinu.
Þetta er reyndar sjálft fagnaðarerindið í hnotskurn. Fagnaðarboðskapur Jesú Krists. Erindið sem hann kom að flytja í orði og verki með lífi sínu og dauða. Hann er ljós heimsins, kominn inn í myrkrið að gefa okkur von, færa okkur birtu og yl og leiða okkur út úr myrkrinu nákvæmlega eins og blinda manninn forðum.
Kristur hafnar m.ö.o. alfarið þeim hugmyndum sem spyrjendurnir höfðu og sem Indverjar hafa líkast til öðrum fremur hreinræktað í trúarbrögðum sínum. Að vísu veit hann að um getur verið að ræða ákveðið samhengi orsaka og afleiðinga í þessum heimi. Og að við köllum stundum illar afleiðingar yfir okkur með líferni okkar og gerðum. En hann hafnar allri forlagatrú, hafnar því að lögmál orsaka og afleiðinga sé eitthvert algilt alheimslögmál, sem öllu stjórni. Og þetta er óendanlega mikilvægt. Því guðspjallið fjallar um stóra og mikilvæga spurningu, sem mannkynið hefur, eins og áður sagði, glímt við frá örófi alda. Þessi spurning skýtur upp kollinum aftur og aftur og er ljóslifandi okkar á meðal í dag ekkert síður en hún var á dögum Jesú.
Hún birtist t.d. í sumum kristnum hópum, sem telja, eins og samtímamenn Jesú, beint samhengi milli sjúkdóma og syndar. Eða meðal hópa sem með einum hætti eða öðrum aðhyllast forna indverska speki, eins og hið svokallaða karmalögmál, sem ýmsir í nútímanum eru svo veikir fyrir. Finnst þetta lögmál hefndar og endurgjalds, endurholdgunar og eilífrar hringrásar, jafnvel spennandi kostur á hlaðborði lífskoðannana. Slíkar kenningar hafa á stundum verið í töluverðri tísku í hinum vestræna heimi og þá einnig á okkar landi og hafa þá oft verið kenndar við nýja öld. Þótt hugmyndirnar séu nú raunar flestar ef ekki allar sóttar aftur til grárrar forneskju. Hin nýja öld hefur því í raun skelfing fátt nýtt fram að færa. Og annað er hitt, að hér er í eðli sínu, ef grannt er skoðað, um ákaflega grimma og miskunnarlausa lífsafstöðu að ræða. Hún þekkir t.d. ekki kristin grundvallarhugtök eins og fyrirgefningu og náungakær-leika, heldur er maðurinn hér einfaldlega túlkaður eins og hann sé tannhjól í stórri vél, leiksoppur forlaganna sem öllu ráða. Allt sem við lifum verður þá með einum hætti eða öðrum óumbreytanleg og jafnvel verðskulduð örlög. Hlutir sem við höfum kallað yfir okkur sjálf og fáum því ekki breytt. Það sé því ekkert um það að fást þótt okkur sjálfum eða öðrum farnist ekki nógu vel. Það sé einfaldlega eðlileg afleiðing þess, sem við höfum unnið til.
Það er í raun ógjörlegt að samræma þessar hugmyndir við þann kærleiksboðskap Krists, sem við höfum alist upp við, og er okkur svo sjálfsagður og svo samgróinn hugsun okkar og menningu, að við áttum okkur jafnvel stundum ekki á því hvaðan hann kemur. Höldum jafnvel að hann sé meðfæddur og sjálfgefinn. Það verður þá ekki fyrr en við yfirgefum þann menningarheim, sem boðskapur Krists hefur mótað, að við áttum okkur á þeirri staðreynd, að svo er ekki.
Eins og t.d. þegar við förum í Voitódalinn í Eþíópíu, þar sem við mætum lífsafstöðu heiðingjans, sem ekki þekkir kærleika Guðs, fyrirgefningu hans og náð, heldur lifir í stöðugum ótta. Lifir í myrkri, sem leiðir til þess, svo dæmi sé tekið, að foreldrarnir bera grátandi út börnin sín eða fleygja þeim fyrir björg, ef þau taka ekki tennurnar í réttri röð eða ef fæðingin hefur ekki uppfyllt ákveðin skilyrði.
Eða þegar við förum til Indlands, þar sem það m.a. gerðist ekki alls fyrir löngu, að nokkrir námsmenn af yfirstéttunum brenndu sig til bana til að mótmæla hugmyndum stjórnvalda um aukinn jöfnuð í þjóðfélaginu og einhverjum umbótum til handa hinum lægstsettu, að vestrænum og kristnum sið. Þar mætum við þjóðfélagi þar sem stéttleysingjarnir hafa öldum saman verið algjörlega réttlausir. Já, eru beinlínis einskis virði í augum hinna betur settu, þannig að fólk úr efri stéttunum telur það sér engan veginn samboðið að umgangast þá eða yfirhöfuð að hafa af þeim nokkrar áhyggjur.
Hversvegna er þetta svona spyrjum við og erum e.t.v. hissa. Jú, hér er einfaldlega karmalögmálið og hugmyndirnar um endurholdgun á ferð. Og því er umsvifalaust sagt: Hér er ekkert um að fást. Þetta fólk er einfaldlega að lifa makleg málagjöld, mæta þeim afdrifum sem það hefur kallað yfir sig og getur bara sjálfu sér um kennt. Og ekki fer ég að skipta mér af því sem ég fæ hvort eð er engu um breytt. Forlögin verða að hafa sinn gang.
Við eigum erfitt með að setja okkur inn í þennan hugsunarhátt, er hann birtist á svo hreinræktaðan hátt, og þann veruleika sem þetta fólk lifir við. En samt eru þeir ótrúlega margir okkar á meðal sem vilja sækja hugmyndir sínar og lífsspeki í þessar áttir, en gleyma og jafnvel hafna Kristi og fagnaðarerindi hans. Snúa baki við hjálpræðisboðskap Heilagrar ritningar um kærleiksríkan Guð og frelsara, en vilja þess í stað taka upp þætti úr náttúruvættatrú heiðingjans, sem lifir í stöðugum ótta eða þá forlagatrúna indversku.
Þetta gerum við t.d. þegar við tökum að bera allskonar verndargripi, heillasteina, orkusteina, orkuarmbönd o.s.frv., eða teljum okkur jafnvel sækja lífsorkuna til einhvers fjalls á Snæfellsnesi eða til steindauðra himintunglanna. Og þá væntanlega í þeirri trú heiðingjans, að í náttúrunni búi þau grimmu og tilfinningalausu öfl sem öllu stjórni. Þannig að við höfum í raun lítið eða jafnvel alls ekkert um líf okkar og framtíð að segja, heldur þurfum á verndargripum að halda eða þá að kunna að lesa um líf okkar og framtíð úr stöðu stjarnanna.
Eða þá að við sækjum speki okkar til Indlands og hins miskunnarlausa karmalögmáls, hefndar og endurgjalds. Hindúisminn hefur vissulega einfalda skýringu á öllu böli og slysum. Í hans augum erum við einfaldlega í þessu lífi að uppskera afleiðingarnar af því sem við höfum til sáð, til unnið, í næsta lífi á undan. Er það slík forlagahyggja, slík dómshyggja hefndar og endurgjalds sem við sækjumst eftir?
Tökum enn og aftur eftir því, að Jesús hafnar alfarið öllum slíkum hugmyndum. Hvorki sú hugmynd, að maðurinn fæðist aftur og aftur til nýs jarðlífs né sú hugmynd, að allt böl og þjáning sé ekki annað en makleg málagjöld, fær samrýmst boðskap hans. Og á sama hátt er þá veraldleg velgengni og velsæld engin trygging þess, að við höfum lifað góðu og Guði þóknanlegu lífi, eins og sumir freistst vissulega til að halda.
Jesús mætir því hvorki blinda manninum né nokkrum öðrum þjáðum manni með þeirri fullyrðingu, að hann taki aðeins út makleg málagjöld, verðskuldaða refsingu, fyrir það, sem hann hafi áður drýgt og því sé ekkert hægt fyrir hann að gera. Þvert á móti kemur Jesús og segir: Örlög þessa manns eru ekki hans einkamál, þau eru mitt mál og þess Guðs, sem sendi mig. Afdrif hans og afdrif allra manna koma mér við. Þess vegna var það, að hann kom í þennan heim og fórnaði lífi sínu. Okkar vegna og allra manna. Krossinn er yfirlýsing hans um það, að honum standi ekki á sama um þig, um mig, eða nokkurn mann annan. Og því vitjar hann okkar líka í dag. Vitjar okkar í óendanlegum kærleika sínum.
Jesús Kristur kom í þennan heim til að vera blindum ljós, sjúkum lækning og dauðum líf. Hann kom til að snúa áföllum okkar og ósigrum til sigurs og hann kom til að kalla okkur, þig og mig, til þjónustu, til þátttöku í þeirri baráttu. Hann kom ekki til þess að upplýsa okkur á einhvern fræðilegan eða heimspeki-legan hátt um lausnina á öllum gátum lífsins. Enda eru slíkar upplýsingar lítil hjálp fyrir þann sem byrðarnar ber. En hann kom hins vegar til að gefa lífi okkar lausn, bjarta og blessaða lausn. Bera með okkur byrðarnar, gefa okkur sjónina. Leiða okkur út úr myrkrinu. Hann getur breytt hverju áfalli þannig að það leiði að lokum af sér eitthvað gott, komið hverju misheppnuðu lífi á réttan kjöl og snúið öllu til sigurs. Og hann kallar okkur að vera samverkamenn sínir í því starfi, í þjónustu kærleikans.
Hann kom til þess að frelsa, skapa nýtt, og hann staðfesti boðskap sinn með því að opna blindu augun. Máttarverkið, lækning hins blinda, var verk miskunnar Guðs, kærleika hans. En um leið var það opinberun þess, hver er hið sanna ljós í þessum heimi, ljós heimsins. Opinberun þess, hver það er, sem einn getur lýst hverju auga og leitt hvert hjarta til skilnings á sjálfu sér, til öryggis og friðar og þess algjöra bata, sem er líf í Guði, eilíft líf fyrir kærleika hans og náð.
Mætti góður Guð gefa, að reynsla blinda mannsins mætti einnig fá að verða okkar. Að einnig við mættum verða sjáandi. Að augu okkar mættu einnig fá að ljúkast upp fyrir dásemdar-verkum Drottins, kærleika hans og fyrirgefandi náð. Og að við mættum fá að læra, að leita til hans í öllum tilvikum lífsins, setja traust okkar á hann og kærleika hans. Þá munum við vissulega fá að reyna, að hann bregst ekki. Amen.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.