"Er vetrar geysar stormur stríður þá stendur hjá oss friðarengill blíður" segir í alþekktum jólasálmi Valdimars Briem, "Í dag er glatt í döprum hjörtum". Vetrarstormarnir hafa geysað, stríðari en nokkru sinni undanfarna daga. Maður undrast æðruleysi fólks sem hefur orðið fyrir tjóni og erfiðleikum vegna flóða og skriðufalla. Því er mikið gefið. Eins er alltaf jafn undravert það sem björgunarsveitarfólk og aðrir sem sinna aðstoð og björgunarstörfum er reiðubúið til að leggja á sig, og leggur sig jafnvel í hættu. Eins góðir grannar sem bregðast við til hjálpar. Þar eru víða hjálpar- og friðarenglar á ferð meðal okkar og það er mikið þakkarefni. Gleymum því ekki.
Guð gefi að allir fái notið friðar og gleði jólahátíðarinnar, og að engin alvarleg slys, áföll eða önnur ótíðindi hendi.
Þegar veðrin sýna á sér slíkar öfgar þá eru hlýnun andrúmsloftsins og gróðurhúsaáhrif nærtækir sökudólgar að margra mati. Sumum finnast veðurfregnirnar vera orðnar stórpólitískar! Þótt umdeilt sé að hve miklu leyti breytingar í veðurfari eru af mannavöldum, eða um eðlilegar sveiflur er að ræða, þá virðist óhjákvæmilegt að tengja öfga veðurfarsins við lífshætti okkar. Það eru samhengi í lífinu og sköpunarverkinu sem við verðum að taka tillit til. Það hafa menn ætíð talið sig vita.
Kristin kirkja er send með erindi og boðskap sem hvetur sérhverja manneskju til hófsemi og virðingar í umgengni við lífið og jörðina. Friðarengillinn blíði bendir enn sem fyrr á lausnina, á frelsara heimsins, barnið í jötunni. Boðskapur hans snertir lífið allt. Það er engin tilviljun að frelsarinn fæddist í fjárhúskró. Uxi og asni og jórtrandi lamb urðu vitni að fæðing hans, sem er frelsari heimsins, alls heimsins. Hann beindi athygli okkar að liljum vallarins og fuglum himinsins og hvetur okkur að gefa gaum að hrynjandi árstíða og gangi himintungla og tímanna táknum. Og að sjá í því merki þess að lausnin er í nánd. Ekki ragnarök eyðingar, heldur lausn, það ríki, sú veröld þar sem vilji Guðs hefur sigrað allt. Um það biðjum við þegar við segjum: "Til komi þitt ríki. Verði þinn vilji." Og þá um leið erum við minnt á að okkur ber að leitast við að greiða því veg. Og í ljósi þess megum við vita að lífsstíll okkar almennt er undir dómi. Við erum orðin háð gengdarlausri sóun orkulinda, linnulausum hernaði gegn náttúrunni, almennu virðingarleysi við manngildið. Við sjáum það daglega á síðum dagblaðanna og það æpir á okkur af skjánum, eitthvað verður að breytast. Yfirgangurinn, óðagotið og tillitsleysið á vegum landsins er birtingarmynd andlegs ástands, sem við getum unnið bót á. Heill og framtíð okkar er í húfi, já, og heill og framtíð barnanna okkar. Ábyrgð, virðing, tillitsemi, hógværð í umgengni við jörðina, lífið, annað fólk, okkur sjálf. Við þurfum ekki að bíða eftir því að G8 leysi málin, að Sameinuðu þjóðirnar nái samstöðu, að ríkisstjórnin taki á sig rögg. Mikilvægast er að við hvert og eitt öxlum ábyrgð og sínum samstöðu með lífinu og umhyggju um annað fólk.
Í aðdraganda jólanna kemur enn og aftur upp umræða um fátækt og misskipsting gæðanna. Það er eðlilegt, vegna þess að eitt meginstef jólaboðskaparins er samstaða með þeim fátæku, þeim sem heimurinn lokar einatt á og úthýsir. Jesús Kristur sem fæddist utangarðs, í fjárhúsinu í Betlehem, tók sér stöðu með þeim, og segir:"Það sem þið gerið einum af þessum mínum minnstu systkinum, það gerið þið mér." Viðbrögð við ákalli Hjálparstarfs kirkjunnar og annarra líknarsamtaka á aðventu sýna að margir vilja leggja sitt að mörkum til að hjálpa fátækum, heima og erlendis. Fátækt og örbirgð er alheimsvandi. Umræðan og athyglin má aldrei einskorðast við okkar eigin heimatún né heldur festast í deilum um hugtök og í talnaleikjum fræðinga. Fátækt er vissulega afstæð. Aldrei höfum við verið auðugri sem þjóð, og aldrei hafa eins margir Íslendingar verið í hóp auðmanna. Við erum ekki lengur fátæk og smá, eins og löngum áður. Hins vegar er ekki alveg víst að það standist sem danskurinn segir: "Þegar rignir á prestinn drýpur á djáknann". Við Íslendingar höfum viljað byggja það þjóðfélag að hér ríki jöfnuður og að enginn, hvorki börn né gamalmenni, líði skort. Þeirri þjóðfélagssýn megum við aldrei gleyma.
Jólin ganga senn í garð. Jólaklukkur, ljós og helgir hljómar jólanna bera boðskap friðar og kærleika inn í sérhvert hús og vonandi sérhvert hjarta. Þar er "friðarengill blíður" að vitja þín. Eiginlega eru jólin, jólahaldið, jólagjöf kristninnar til heimsins! Af því að jólin gefa innsýn inn í þann heim þar sem vilji Guðs ræður, hið góða, fagra og fullkomna. Jólin sýna það hvernig það er þegar áhrif góðvildar og gleði, trúar og kærleika fá að vinna sitt verk. Jólin segja að góðvildin og friðurinn, ljósið er okkur ætlað og áskapað, og við erum kölluð til að greiða því veg. Þó að stormarnir geysi í náttúrunni, og í mannlífinu, þá "stendur hjá oss friðarengill blíður" og minnir okkur á að Guð er góður, það er góður hugur að baki lífi og tilveru manns og heims, föðurhjarta sem ann, umhyggja og ástúð, sem yfir vakir og engum gleymir. Megi það snerta við okkur öllum, og lýsa okkur veginn fram.
Gleðileg jól!