Nú eru sérstakir tímar. Hlutirnir gerast hratt. Dagblöðin sögðu okkur að morgni dags að gosinu í Fimmvörðuhálsi væri lokið og á sama tíma var tilkynnt í útvarpinu og á netmiðlum að nýtt og öflugra gos væri hafið í Eyjafjallajökli. Fólkið í landinu sem skömmu áður stóð á öndinni vegna rannsóknarskýrslu um bankahrunið fékk nú fleira að hugsa um og fréttaflutningur þessa síðustu daga hefur sveiflast á milli þessara tveggja atburða í lífi þjóðar. Segja mætti að hvort tveggja séu hamfarir á sinn hátt, hrunið sem lýst er með faglegri greinargerð á hinum 2000 blaðsíðum bindanna 9, og öskugosið í íslenska jöklinum. Og hvort tveggja hefur áhrif langt út fyrir landsteinana.
Á tímum sem þessum erum við minnt á að maðurinn á ekki síðasta orðið í henni veröld. Í rannsóknarskýrslunni kemur fram að röð rangra ákvarðana ræður för og þar er vissulega bent á manneskjur sem í hlut eiga. Flestum okkar finnst við þó líklega vera vanmáttug í því ferli öllu og hefðum litlu – ef nokkru – getað breytt. Eldgosið birtir okkur hinn algjöra vanmátt manneskjunnar. Þar ráðum við engu – og fáum mannlega talað engu breytt, nema því sem snýr að vörnum fólks og dýra.
Sennilega erum við mörg sem finnum til smæðar okkar á tímum sem þessum. Í samtali okkar, prests og messuhóps dagsins, á miðvikudaginn var, sagðist ég halda að mikilvægast væri að prédika um umhyggju Guðs, eins og ritningartextar dagsins gefa svo ríkullega tilefni til. Þau voru sammála mér, vinir mínir messuþjónarnir. Samt spannst umræða um stöðu mála, eins og hvarvetna sem fólk kemur saman þessa dagana. Okkur liggur öllum svo margt á hjarta og höfum frá ýmsu að segja sem varðar bæði eldgos og ekki síður kreppu síðustu missera og hvernig við getum snúið vörn í sókn í þeim efnum.
,Ég gef ekki það sem ég á ekki´. Eitt af því sem við vorum sammála um í hópnum var að endurvekja þyrfti gamla góða viðhorfið, sem faðir minn innrætti okkur systkinunum og þið mörg hafið haft í heiðri, þá lífsreglu að taka helst aldrei lán og þá aðeins til húsnæðiskaupa ef svo þyrfti að vera. Það kostar hins vegar nokkrar fórnir fyrir okkur flest og þá kemur nægjusemin til sögunnar, að kaupa ekki það sem við eigum ekki fyrir. Ein kvennanna í hópnum sagði þetta svo eftirminnilega: ,Ég greiði aldrei fyrir jólagjafir með kreditkorti, því að ég gef ekki það sem ég á ekki´.
Ég gef ekki það sem ég á ekki. Þessi orð vöktu mig til umhugsunar og minna í stærra samhengi á orð Jesú í Lúkasarguðspjalli (16.10-12):
Sá sem er trúr í því smæsta er einnig trúr í miklu og sá sem er ótrúr í því smæsta er og ótrúr í miklu. Ef ekki er hægt að treysta yður fyrir hverfulum auðæfum, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði? Og ef ekki er hægt að treysta yður fyrir eigum annarra, hvernig getur Guð þá treyst yður fyrir því sem hann ætlar yður að eiga sjálf?
Fyrirmynd Í viðtali við frú Vigdísi Finnbogadóttur á Rás 2 árla að morgni afmælisdags hennar 15. apríl sl. var forsetinn fyrrverandi spurður út í fjármálakreppuna og þann siðferðisbrest sem skýrslan dragi fram. Vigdís, sú ærukæra kona sem hefur verið okkur mörgum mikilvæg fyrirmynd, svaraði því meðal annars til að þjóðin þyrfti á meiri sjálfsaga að halda og mikilvægt væri fyrir okkur að stunda sjálfsskoðun. Síðan þurfum við að horfa fram á veginn, sagði frú Vigdís og kvaðst hafa mikla trú á kjarki þjóðarinnar til þess.
Í pistli dagins, 1Pét 2.21-25, er einmitt talað um fyrirmynd. Þar segir að Kristur hafi látið okkur eftir fyrirmynd til þess að við skyldum feta í fótspor hans: ,Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans´, segir bréfritari og vitnar í ljóðið um hinn líðandi þjón Drottins í Jesaja 53 (vers 9). Sú fyrirmynd segir okkur að svara ekki með illmælum þegar okkur er illmælt og hafa ekki í hótunum heldur fela það ,honum á vald sem dæmir réttvíslega´. Fyrir dauða Jesú á krossi erum við dáin frá syndunum og fyrir upprisu hans eigum við að lifa réttlætinu. Það er ekki okkar eigin réttlæti því ekkert okkar getur lifað réttlátu lífi í eigin mætti. Við erum þiggjendur réttlætisins, réttlætis Jesú Krists, og erum ekki þess umkomin að dæma aðra.
Og svo kemur þessi sterka og máttuga mynd af hirðinum, sem læknar sárin. Um það eru þeir sammála, postulinn og Esekíel spámaður áður, að Guð bindur um hið limlesta og styrkir hið veikburða, já, ,fyrir hans benjar eruð þið læknuð´. Sem betur fer eigum við okkur ekki sjálf í þessum heimi heldur fáum að þiggja lækningu Guðs inn í brotið líf og leiðsögn hans í daganna þraut. ,Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá, vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf sem að lyftir oss duftinu frá´, segir þjóðsöngsskáldið séra Mattías.
Guð fylgist með sínu fé Við höfum þegar heyrt orð Drottins Guðs í 34. kafla spádómsbókar Esekíel (v. 11-16 og v. 31). Guð leitar okkar og lítur eftir okkur, annast um okkur eins og segir í eldri þýðingum. Jafnvel þegar við höfum hrakist af leið í þokunni og dimmviðrinu, í öskufallinu á hinum dimma og drungalega degi, er hann með okkur og bjargar úr háska.
Fólkið sem nú upplifir merkingu orðsins ,móðuharðindi´, þegar bjartur dagur breytist í dimma öskunótt, þarf að fá að heyra þetta, þau sem búa við óöryggi og kvíða yfir því að þurfa að yfirgefa heimili sín skyndilega og hafa áhyggjur af skepnunum sínum. Við finnum til með þeim og skynjum óvissuna og hvað getum við betra gert en að biðja þess að þau megi finna að Guð varðveitir þau frá öllum háska.
Hvíldarstaður Í lexíunni er líka talað um að Guð sjái okkur fyrir hvíldarstað. Þau orð minna á frægustu mynd Biblíunnar, þá mynd sem brugðið er upp í 23. Davíðsálmi af hinum grænu grundum þar sem við fáum að hvílast, vötnunum þar sem við megum njóta næðis. Við finnum öryggið sem þessi mynd miðlar okkur, öryggið undir vernd Guðs, í skjóli okkar himneska föður, sem eins og hirðir ver hjörð sína frá öllum háska.
Í orðum afmælisbarns vikunnar sem leið í sjónvarpsviðtali að kvöldi 15. apríl kom fram djúpur skilningur á sambandi bónda og skepnu þegar frú Vigdís var innt eftir viðbrögðum við eldgosinu. Þannig sambandi varð ég oft vitni að í sveitinni þar sem ég ólst upp, bæði í sauðburðinum á vorin þegar fimar hendur Rósu minnar á Hvíteyrum aðstoðu lambærnar í burðinum, í samskiptum hests og manns og ekki síst hundsins við eiganda sinn. Ég gleymi heldur ekki sorg Guðrúnar á Ljótunnarstöðum þegar uppáhalds kýrin hennar veiktist og varð ekki komið til lífs að nýju. Ég man jafnvel eftir því að bóndi kallaði á kindur sínar, eins og ég veit að er raunin fyrir botni Miðjarðarhafs, þar sem hjörðin þekkir rödd síns hirðis og svarar honum einum (sjá Jóh 10.4).
Allt eru þetta dæmi um hið óyrta trúnaðarsamband manns og skepnu, hirðis og hjarðar, sem er dýrmætt og fallegt. Og þó að við manneskjurnar viljum oftar en ekki telja okkur æðri dýrunum og tengjum það tungumálinu og hæfileikanum til að búa til hluti og setja hugmyndir í framkvæmd er mikil hvíld í því að fá að ganga inn í þessa mynd Biblíunnar um hirði og hjörð, að fá að vera Guði háð og þurfa ekki ávallt að reiða sig á sinn eigin mátt.
Góði hirðirinn lætur sé annt um sauðina. Alla sauðina Í guðspjalli dagsins, Jóh 10.11-16, er þrennt sem við þurfum að taka eftir. Í fyrsta lagi því að Jesús Kristur er góði hirðirinn. Sú mynd er okkur mörgum hugstæð úr bernsku þar sem gömlu Biblíumyndirnar birtu frelsarann með lamb á herðum sér eða í fanginu. Þannig fáum við að vera, þétt við hjarta Jesú, umvafin hlýju hans og öryggi. Og hvert og eitt okkar er honum dýrmætt, eins og dæmisaga Jesú í Lúkasarguðspjalli minnir á (15.3-7):
Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim sem týndur er þar til hann finnur hann? Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér er hann finnur hann.
Og hann ver okkur með lífi sínu, já hefur nú þegar goldið sitt líf fyrir okkar gegn árásum óvinarins. Það gerir leiguliðinn ekki, sem er annað atriðið sem við þurfum að taka eftir. Leiguliðinn – sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina – er dæmi um allt það sem við manneskjurnar viljum setja traust okkar á en er ekki traustsins vert. Svo virðist sem fjárhirðar bankakerfisins hafi brugðist í hlutverki sínu. En það er óhugsandi að bóndinn undir Eyjafjöllum pakki bara saman og skilji skepnurnar sínar eftir úti á víðavangi í öskufallinu eða lokaðar inni fóður- og vatnslausar. Þeir fjárhirðar bregaðst ekki. Og þannig hirðir er Drottinn Guð. Setjum traust okkar á hann.
Í þriðja lagi þurfum við að skoða hvað það merkir að vera úr öðru sauðabyrgi. ,Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi´, segir Jesús. ,Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína´ (Jóh 10.16). Það sem Jesús á við hér er í raun mjög einfalt. Sauðirnir úr sauðabyrgi Jesú voru auðvitað fólkið hans, Gyðingarnir, og við hin, heiðingjarnir, erum sauðir úr öðru sauðabyrgi. Gleymum ekki því að lýður Guðs, þjóð hans, eins og 2007 þýðingin orðar það, er sá stofn sem við hin erum grædd á (sjá Róm 11). Honum ber einnig að leiða okkur. Við höfum allar forsendur til að heyra raust hans.
Ein hjörð, einn hirðir Og það verður ein hjörð, einn hirðir, segir Jesús (Jóh 10.16). Ein hjörð, einn hirðir. Við tilheyrum hinni gríðarlega fjölmennu fjölskyldu kristninnar á himni og jörðu og þurfum að gá hvert að öðru, biðja hvert fyrir öðru og annast um hvert annað. Munum eftir hinni ofsóttu kirkju og stöndum bænavörð um hana. Á þessum degi, 18. apríl 2007, voru þrír kristnir menn myrtir fyrir trú sína í Tyrklandi. Þar, í vöggu hinna fyrstu kristnu safnaða í Litlu-Asíu, tilheyra aðeins um 0,1% íbúanna kristnum söfnuðum, en 72 milljónir búa í Tyrklandi. Tyrknesk trúsystkini okkar biðja um fyrirbæn á þessum degi. Við tökum undir bænir þeirra að fleiri mættu rata inn í sauðabyrgi góða hirðisins, þar og hér og hvarvetna, eða eins og segir í Davíðssálmi 100:
Öll veröldin fagni fyrir Drottni. Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng. Játið að Drottinn er Guð, hann hefur skapað oss og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.