Logandi runnar

Logandi runnar

Við erum í sporum Móse sem leit hinn logandi runna og úr honum komu boðin um rjúfa vítahringinn, fara úr þrælahúsinu yfir til hins fyrirheitna lands. Logandi runnar og tré, reykjarstókar sem standa upp úr púströrum og strompum ættu með sama hætti að tala til okkar.
Mynd

„Yfirnáttúra“, þetta er ekki vandræðalaust orð. Biblían geymir mörg dæmi um atvik og fyrirbæri sem eru „ekki af þessum heimi“, eins og við segjum gjarnan. Það gerir líka þjóðtrúin og ýmsar frásagnir kunnum við úr okkar lífi eða annarra af furðum og ósköpum sem brjóta gegn því sem við kennum einmitt við sjálf náttúrulögmálin.

Náttúra og yfirnáttúra

Það er engin launung að yfirnáttúra er á undanhaldi og kannske er það ágætt. Hún er erfið viðureignar og dæmin sanna að í tengslum við hana getur fólk öðlast mikið vald. Ekki þó með þeim hætti að það geti lyft stólum með augnarráðinu einu eða látið regndropa falla af heiðskírum himni. Nei, það er svo auðvelt að blekkja og svíkja, pranga og pretta undir því yfirskini að einhver rati um ranghala annarra heima, geti rætt við framliðna eða séð fyrir um ókomna tíma. Sá er einmitt vandi yfirnáttúru. Hún er óútreiknanleg, ósannanleg og óskiljanleg. Þar með fara mælikvarðar á flakk og öll viðmið týnast í gjörningaþoku.

Náttúra og yfirnáttúra eru til umfjöllunar í textum dagsins. Fyrir Biblíufróða eru sögurnar kunnuglegar. Móse fékk köllun þarna í óbyggðum. Hann varð vitni að því er trjárunni stóð í ljósum logum og þó varð hann ekki að ösku. Úr eldinum ómaði raust Drottins sem brýndi hann að leiða þjóð sína út úr þrælakistunni yfir í fyrirheitna landið. Guðspjallið segir frá því þegar Jesús og nafngreindir lærisveinar fara upp á hátt fjall, klæði Jesú lýsast upp og löngu liðnar persónur úr sögu Ísraelsþjóðar birtast þeim.

Yfirnáttúran er þarna allt í kring og hún fer ekki á milli mála. Til viðbótar því að téður Móse mætir þarna til leiks í guðspjallinu ásamt spámanninum Elía er sérstaklega tekið fram að klæði Jesú hafi orðið svo hvít að ekkert náttúrulegt efni hefði getað náð haft slíkum árangri. Þetta minnir á auglýsingu fyrir þvottaefni þar sem hamingjusamt fólk tekur skínandi hvítt tau úr vélinni. Nema að þarna er ljóminn ekki af þessum heimi.

Já, mikil ósköp, þekkingin okkar á efnisheimi og lögmálum náttúru er orðin slík að yfirnáttúran hopar í sífellu og svona sögur verða hluti af veröld sem var. Mannkynið hefur aldrei verið fróðara, vitrara og vísara en einmitt núna. Þökk sé nettengdu lífi eru fréttir óðara komnar á flug og upplýsingar æða á milli fólks á leifturhraða í ótrúlegu magni. Fræðimenn hafa búið til graf sem sýnir hversu ört þekkingin vex miðað við forsendur á tilteknu tímabili. „Knowledge Doubling Curve“ kallast þetta á ensku – eða „kúrfa fyrir tvöföldun þekkingar“ ef við snörum því yfir á ástkæra.

Um aldamótin 1900 hefði tekið eina öld að tvöfalda magn þeirra upplýsinga sem mannkyni stóð þá til boða. Eftir seinna stríð var kominn meiri skriður á málin og þá hefði aðeins þurft 25 ár til að ná sama árangri. Á okkar dögum tvöfaldast kunnáttan á, já haldið ykkur nú, þrettán mánuðum. Samkvæmt því verður helmingi meira af upplýsingum aðgengilegar í mars á næsta ári en er í boði núna. Þetta á við um allt sem við vitum, frá minnstu nanóeindum og upp í stærstu fyrirbæri himingeimsins. Og svona gæti þróunin haldið áfram þar sem æ skemmri tími líður á milli þessarar tvöföldunar.

Við ættum að vera öfundsverð að lifa á þessum tímum eða hvað? Ætli bjartsýnin sé ekki almenn og fólk sjái fram á að með slíkum framförum fækki vandamálum og betri tímar séu í vændum?

Logandi runnar

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að Móse fékk skilaboð úr logandi runna. Og þó er saga sú eins og hugvekja um framþróun mannkyns sem hefur lagt undir sig hvert landsvæðið, hvert meginlandið á fætur öðru undir sig. Líffræðingar lýsa þeim áhrifum sem urðu þegar homo sapiens nam land á nýjum slóðum. Það var eins og leifturstríð. Í einni andrá – í samhengi lífheimsins – hurfu öll stóru landdýrin af sjónarsviðinu og flóran gerbreyttist. Þetta gerðist í Eyjaálfu, Ameríkunum og annars staðar þar sem hinn vitiborni maður mætti á svæðið. Hann kom, sá og sigraði og já, kveikti í trjám og runnum.

Lífríkið varð aldrei samt eftir þá heimsókn. Þetta var jú eitt mesta afrek sem nokkur lífvera hafði unnið – að kveikja eld, sem mátti svo bera að skógarjaðrinum og láta eldhafið vinna sitt verk. Þegar Móse fékk þessi skilaboð að fara með sinn flokk á nýjar slóðir, þá er það logandi runni sem tengist þeirri köllun. Við í dag sem vitum svo miklu meira tökum öllum slíkum frásögnum með fyrirvara, lesum milli lína og leitum að annarri merkingu en þeirri bókstaflegu. Sá háttur hefur reyndar verið hafður á í ritskýringu biblíunnar um aldir.

Mitt í heimi náttúruvísinda þar sem efnisheimurinn er greindur og rakinn þá stöndum við frammi fyrir óþægilegum staðreyndum. Jú, þekkingin færir okkur ekki bara nýja tölvur og tæki, upplýsir okkur ekki eingöngu um fjarlægar stjörnur og sólkerfi eða mein sem kunna að búa innra með okkur sjálfum. Við stöndum frammi fyrir ægilegum vanda, við sem byggjum þessa plánetu. Einmitt afrakstur allra þeirra elda sem maðurinn hefur kveikt er aukið koldíoxíð í andrúmsloftinu. Það rýkur upp í lofthjúpinn þegar iðjagrænu skóglendi er breytt í svartan svörð, þegar ævafornum leifum lífvera er dælt upp úr djúpum jarðar og maskínur okkar brenna þeim í æ ríkari mæli. Hefur aukin þekking stuðlað að því að draga úr þeim bruna? Nei, þvert á móti, hann færist í aukana rétt eins og allur fróðleikurinn. Það rýkur meira upp í ár en í fyrra.

Logandi runnar blasa við okkur þar sem náttúran stynur undan ágangi okkar. Hreykin hömpum við kunnáttu og vísdómi en erum um leið svo átakanlega vanmáttug til þess að færa þær fórnir sem krafist er af okkur. Já, það er eins og það þurfi yfirnáttúrulegan kraft til að mýkja hjörtu okkar og koma okkur úr því fari sem mannkynið virðist vera fast í. Upp í hugann koma orð postulans sem benti á að þótt hann vissi alla leyndardóma og ætti alla þekkingu, en hefði ekki kærleika þá væri hann ekki neitt.

Að bíta og brenna

Því um leið og við höfum krýnt okkur hverjum sigursveignum á fætur öðrum á sigurför okkar til aukinnar þekkingar og færni höfum við glatað ýmsu öðru. Í samfélag þar sem trúin var viðurkenndur hluti af lífi fólks, tróndi hún líka yfir hverju valdi. Keisarar og furstar máttu beygja sig fyrir þeim mætti og þeir voru áminntir þegar þeir fóru út fyrir valdsvið sitt. Með sama hætti var brýnt fyrir fólki að gæta hófs og huga að komandi kynsóðum áður en það hugsaði úti það hvað ætti að bíta og brenna. Já, tíminn sem er framundan núna í kirkjunni – sjálf fastan – er lýsandi dæmi um þá hugsun.

Fasta? jú, við könnumst sjálfsagt mörg við það að neita okkur um einhverjar fæðutegundir eða sleppa því alveg að borða í einhvern tíma. En í hinu biblíulega samhengi og sannarlega í mörgu öðrum trúarheimum var vorið tíminn þar sem fólk átti ekki að borða kjöt og átti að gæta alls hófs í mat og drykk. Hvaða kenjar voru það? Voru það dyntóttar ákvarðanir þeirra sem hömpuðu hinu guðlega valdi, prestastéttar og spámanna?

Nei, fastan var náttúruleg, jarðbundin og vistvæn. Sá sem hámaði í sig ket um þetta leyti árs var líklegur til að éta sjálfan sig og afkomendur út á gaddinn. Þegar veturinn var senn á enda liðinn þá voru það fyrst og fremst undaneldisgripirnir sem eftir voru á bænum. Það gefur auga leið að þeir gefa ekki mikið af sér eftir ferðalag um meltingarveg eigenda sinna. Þess vegna eru þessir hátíðardagar framundan – sprengidagurinn sjálfur þar sem við kýlum okkur út af kjöti áður en við svo hættum að borða kjöt. En ekki við reyndar. Við höldum veisluna en sleppum föstunni. Er það ekki of gott til að vera satt?

Í háska stödd

Já, við vitum alltaf meira og meira, vísindin efla alla dáð og yfirnáttúran má sín lítils andspænis þeim. Og þó eru sumar upplýsingarnar sem þau færa okkur af slíkum toga að aðgreining náttúru og yfirnáttúru fer að verða óþörf. Hvað ef okkar alheimur er ekki sá eini.

En okkar heimur er í háska staddur og það er augljóst að aukin þekking nægir ekki ein og sér til að breyta því sem þarf að breyta fyrir okkur sjálf og afkomendur okkar. Við erum í sporum Móse sem leit hinn logandi runna og úr honum komu boðin um rjúfa vítahringinn, fara úr þrælahúsinu yfir til hins fyrirheitna lands. Logandi runnar og tré, reykjarstókar sem standa upp úr púströrum og strompum ættu með sama hætti að tala til okkar. Við berum ábyrgð á sköpun Guðs og eigum náunga í þeim kynslóðum sem eiga að taka við ráðsmennskuhlutverkinu þegar okkar dagar eru að baki.