Krossinn er umfjöllunarefnið á föstudaginn langa og um leið er hann ráðgáta. ,,Guð á krossinum," þannig hafa kristnir menn túlkað atburði föstudagsins langa. Við höfum rýnt í gegnum móðu og mistur eins og efahyggjumaðurinn Davíð Stefánsson orti og lýsir því litlu síðar í sálminum hvernig hann lítur þessa atburði með ,,innri augum” sínum. Þar styðst hann við tungutal dulhyggjunnar, þar sem leitast er við að fanga það sem skynsemin ekki grípur eða hin ytri augu fá greint.
Guð á krossinum Guð á krossinum. Að baki býr sú hugsun að eitthvað sé stórkostlega rangt, bjagað og brotið í veröld og sinni mannsins. Sú afstaða nær allt aftur til fyrstu bóka Biblíunnar, þar sem sagt er frá því í líkingu hvernig Adam, maðurinn bregst skapara sínum. Ákalli Guðs í aldingarðinum er aldrei svarað: ,,Adam hvar ertu?” Maðurinn bregst við með þögninni. Hann svarar engu og við fáum forsmekkinn að því rofi sem er á milli manns og Guðs, einstaklingsins og þess góða tilgangs sem með lífi hans er. Þetta rof, eða tóm, kallar Biblían synd.
Krossinn er margræður og útlit hans undirstrikar það. Ásar sem benda í fjórar áttir. Hann er merki andstæðna og föstudagurinn langi er það með sama hætti. Það er dagurinn þar sem segir frá því þegar myrkur lagðist yfir landið og þegar kristnir menn hafa hugleitt krossdauða Krists hefur myrkrið verið þar allt um kring. Verk Lucasar Cranachs eldri og fleiri málara siðaskiptatímans sýna atburðina á svörtum bakgrunni. Sortinn er ekki aðeins merki sorgar og illsku mannanna heldur líka tákn óvissu og óreiðu. Hann er tákn þess sem við fáum ekki skilið eða metið, hins sama og hið norðlenska skáld sagðist sjá með innri augum sínum.
Hér er það ekki maðurinn sem mætir ákalli Guðs með þögninni. Á krossinum er það hinn nýi Adam, mannssonurinn, sem engist í líkamlegri og andlegri kvöl. Þó lýtur ákall hans að einsemdinni sem hellist yfir hann: ,,Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?” hrópar hann og myrkrið grúfir sig yfir sálina.
Í aldingarðinum þagði maðurinn. Á Golgatahæðum þegir Guð og snýr bakinu við manninum. Þetta er ekki einstakur sögulegur atburður sem á sér enga skírskotun í líf okkar. Nei, er þetta ekki þögnin þegar öll bjargráð bresta í lífinu? Þar horfir manneskjan framan í illskuna sem skynsemin á engin svör við og á heldur ekki að svara. Reynum ekki að túlka lífið á þann hátt að allt lúti þar lögmálum maklegra málagjalda.
Raunar eykur það aðeins á sálarkvölina ef fólk reynir að réttlæta þær þjáningar með vísan í eitthvert æðra réttlæti. Vinir hins þjáða Jobs hófu sína huggun með slíkum orðum og hann varpaði þeim frá sér og baðst undan viðleitni þeirra til hugstyrkingar. Nei, stundum varnar myrkrið okkur sýn og við fáum engin svör frekar en Kristur á krossinum.
Myrkrið
Myrkrið í frásögn guðspjallanna af krossfestingunni er óskapnaður og sem slíkt kallast það á við sjálfa sköpunarsöguna. Þar er óreiðunni er lýst með þeim orðum að myrkur hafi grúft yfir djúpinu. Andstæðan er svo sjálf sköpunin sem hefst yfirlýsingunni, orðinu margræða: , ,Verði ljós!”. Sá var hluti af sjálfsskilningi hins forna samfélags og raunar langt fram eftir öldum að liðnir atburðir endurtækju sig með breyttum hætti. Þar ríkti ekki sú framfarahyggja sem einkennt hefur heimsmyndina síðustu aldir, í það minnsta hér á Vesturlöndum. Nei, tíminn fól ekki í sér endurbætur, lausn vandamála og ný tækifæri. Túlkunarlykill að frásögnum lá oftar en ekki í öðrum frásögnum úr allt öðru samhengi. Í þessu tilviki er það myrkrið sem grúfir yfir djúpinu í árdaga sköpunarinnar.
En manneskjan er söm við sig og angrið sækir þar að, oft óvænt og án nokkurra skýringa. Sorgin liggur líka lengi í sinninu: ,,veistu hvað gleðin tefur tæpa stund, en treginn lengi?” orti Hannes Pétursson. Þessi dagur er helgaður þeim kenndum sem eru fullar af mótsögnum og furðum. Það er ekki bara í Biblíunni sem sköpunin verður til í myrkrinu. Líf okkar er eins og krossinn sem þar sem togast er á um ólíkar áttir. Myrkrið býst til að svelgja í sig lífið og þróttinn, en einmitt upp úr því umhverfi birtist ljósið – rétt eins og í sköpunarsögunni sjálfri. Þjáningin getur orðið vettvangur nýs upphafs og það er einmitt boðskapur þessa dags til allra þeirra sem vilja taka á móti.
Með því að ganga inn í myrkrið, stíga niður til heljar, horfast í augu við það sem hrellir, plagar og dregur úr okkur lífsþróttinn – getum við sjálf risið upp. Þetta er ekki auðveld vegferð. Þar sem maðurinn leitar ásjár í kristinni trú, mætir honum ekki upplýstur fyrirlestur um eðli þrauta og sorgar. Nei þar birtist sjálfur krossinn sem er skorðaður ofan í moldina á Hauskúpuhæð og teygir sig upp til himins. Á honum hangir sá sem þekkir sjálfur erfiðleika lífs og sálar og mætir okkur af þeim skilningi. ,,Þú grætur yfir öllum og allra syndir berð” yrkir Davíð.
20 40 60
Fátt lýsir betur skynjun hinna innri augna en myndlistin. Fer vel á því nú á föstudeginum langa að hugleiða verk Gretars Reynissonar 20 40 60 þar sem unnið er með áþekk stef. Listamaðurinn er hluti verksins, hendur hans sem sýna hvernig tíminn hefur leikið þær. Moldin birtist okkur sem hið jarneska efni sem skilur eftir sig handarfar á tveimur ljósmyndum sem teknar eru með fjörutíu ára millibili. Og svo teygir hún sig upp til himins í óreiðukenndu safni fingrafara á veggnum. Listin er ekki ólík dulúðinni þar sem túlkunin er ekki síst bundin í huga móttakandans. Þar er ekki allt sem sýnist. Til þess verður samtal um listina svo gagnlegt. Það er einmitt það sem tekur við nú að lokinni þessari dagskrá. Við ræðum um sýningu Gretars og mun Ólafur Gíslason listfræðingur flytja þar erindi.
Krossinn er umgjörð þessa dags þar sem við hugleiðum moldina og örlög þess sem lifir. Með þjáningu komum við í þennan heim og brottförin er ekki auðveld heldur. Þar á milli mæta okkur ýmsar þrautir og prófraunir. Stundum horfum við úti í tómið og hrópum inn í þögnina. Á föstudeginum langa hugleiðum við frásögnina af því þegar æðsti og mesti þolir slíkar þrautir. Hann mætti okkur í fæðingu sinni í veikleika barnsins og svo hélt hann á braut í hinni algeru lægingu. En sköpunin varð til í myrkrinu. Ljós upprisunnar tók að skína og skín enn. Í því liggur fögunuður okkar á helgum páskum, og við hugleiðum um leið að lífið er ekki ósvipað sjálfum krossinum þar sem andstæðurnar kallast á og færa okkur þangað sem við erum stödd hverju sinni.