Tilefni þessarar prédikunar er doktorsstyrkur sem mér hefur hlotnast við Árósarháskóla á sviði nýjatestamentisfræða. Ég hef þar störf í næsta mánuði og lýk námi við upphaf árs 2019. Með þessu tækifæri rætist draumur minn um framhaldsnám en áhugi minn á fræðasviði biblíufræða kviknaði í kennslu próf. Jóns Ma. Ásgeirssonar heitins í guðfræðideild Háskóla Íslands.
Nýjatestamentisfræði er heillandi fræðagrein sem nær langt út fyrir þær 27 bækur sem kristnir menn hafa sameinast um í regluritasafni sínu. Á rúmri öld hafa tugir nýrra rita komið í ljós úr söndum Egyptalands og varpað ljósi á þá hugmyndaauðgi sem einkennir frumkristna hugsun. Fræðimenn verða út þessa öld að vinna úr þeim ritum og endurhugsa þá mynd sem við höfum fram til þessa gert okkur af upphafi kristins átrúnaðar.
Í orðræðu kirkjunnar hafa guðfræðingar á víxl áréttað og hafnað sérstöðu kristindómsins, andspænis öðrum trúarbrögðum, en það er óhætt að fullyrða að sú trúarlega deigla og fjölbreytta bókmenntasköpun sem einkenndi upphaf kristindómsins eigi sér ekki hliðstæðu. Svo fjölbreytt og margvísleg eru frumkristin rit að segja má að þau eigi mörg enga snertifleti, utan að hafa Jesú að umfjöllunarefni.
Með einhverri einföldun má skipta viðfangsefnum frumkristinna rita í þrennt, áherslu á æviskeið Jesú og gerðir, áherslu á kennslu hans og áherslu á frelsunarhlutverk hans í heiminum. Guðspjöllin blanda þessum áherslum saman á meðan önnur rit leggja áherslu á einstaka þætti. Sem dæmi hefur Páll postuli, en bréf hans skipa þriðjung Nýja testamentisins, lítin áhuga á kennslu eða ævi Jesú, heldur fjallar nær eingöngu um það frelsunarverk sem hann kom til að vinna. Sú áhersla endurspeglast m.a. í postulegu trúarjátningunni þar sem hlaupið er yfir ævi hans og kennslu, þar sem segir ,,fæddur af Maríu Mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar”.
Viðfangsefni doktorsrannsóknar minnar og rannsóknarefni til margra ára er Jakobsbréf, rit sem eignað er bróður Jesú og leiðtoga frumsafnaðarins í Jerúsalem. Ólíkt Pálsbréfum er þar enga vísun að finna í frelsunarverk Krists og af þeim sökum mætti ritið fordæmingu af Marteini Lúther siðbótamanni, sem uppnefndi bréfið hálmguðspjallið og vildi það út úr Nýja testamentinu. Jakobsbréf hefur valdið mönnum heilabrotum í gegnum aldirnar, enda eru þar engar vísanir að finna í sögulegar aðstæður. Þess í stað útlistar Jakobsbréf vegvísi að heilindum í trúarlífi, sem felst í að vera fullkomin í alla staði, fara ekki manngreinarálit og lifa trú sína í verki í þjónustu við þá sem minna mega sín.
Margir hafa bent á samband Jakobsbréfs við Fjallræðu Jesú í 5.-7. kafla Matteusarguðspjalls en ekkert frumkristið rit stendur nær þeirri kennslu sem þar er að finna en Jakobsbréf. Ritin eiga sameiginlegt ákall um að gleðjast í raunum, kröfuna um fullkomnun í trúarlegu lífi, bann við að sverja eið og útvalningu fátækra svo eitthvað sé nefnt. Þrátt fyrir augljósar hliðstæður hefur samband þessara rita samt þótt ráðgáta vegna þess að höfundur Jakobsbréfs tekur ekki orðrétt upp texta Fjallræðunnar og nefnir aldrei að verið sé að vitna í Jesú, eins og algengt er í öðrum frumkristnum ritum. Samband þeirra er því ekki sambærilegt guðspjöllunum, en tvö guðspjöll taka Markúsarguðspjall upp nær orðrétt og ekki heldur sambærilegt fjölmörgum ummælasöfnum sem tefla fram kennslu Jesú með kynningu á borð við ,,Jesús sagði:”. Ef höfundur Jakobsbréfs þekkti Fjallræðuna gerði hann kennslu Jesú að sinni eigin að orðfæri og framsetningu.
Rannsókn mín kemur til með að fjalla um þennan vanda með því að setja samband Jakobsbréfs og Fjallræðunnar í samhengi við grísk-rómverska ræðulist. Ritin sem um ræðir eru með gyðinglegustu ritum Nýja testamentisins og því hafa fræðimenn fram til þessa verið varkárir við að lesa þau í slíku samhengi, með þeim rökum að gyðingar hafi ekki þekkt eða haft vald á hugtökum ræðulistar sem kennd var á æðri menntastigum Rómarveldis. Í því samhengi er vert að benda á að þó höfundur Jakobsbréfs eigi augljóslega heima í hugmyndafræði gyðingdóms, þá er vald hans á grísku með því besta sem er að finna í frumkristnum ritum.
Rannsókn mín mun snúa að samtímahöfundum Nýja testamentisins, grískum og rómverskum, sem fjalla um svokallaða hermilist, og heimfæra það síðan á samband Jakobsbréfs við Fjallræðuna. Hermilist, mimesis á grísku og imitatio á latínu, felur í sér að höfundar hermi eftir texta eða frásögn, með það fyrir augum að gera fyrirmyndina að sinni eigin í trausti þess að áheyrendur þekki í hvað verið er að vísa. Algengasta viðfangsefni hermilistar var að sjálfsögðu Hómerskviður en til eru fjölmörg önnur dæmi. Það er von mín að með því að skoða samband ritanna í þessu ljósi, sé leyst ráðgátan um samband þeirra og komið svar við spurningunni af hverju höfundur Jakobsbréfs eignar ummælin ekki Jesú. Slíkt var venja þegar fylgt var forskriftum hermilistar.
Viðfangsefnið kann að virðast sérhæft en að baki liggur eitt af lykilpúslunum í þeirri slitróttu mynd sem við eigum af upphafi kristindómsins. Með hvaða hætti hinir frumkristnu höfundar varðveittu og miðluðu áfram kennslu Jesú, sem höfundar á borð við Pál postula töldu jaðarefni.
Það er einmitt kennsla Jesú, eins og hún birtist í Fjallræðunni og Jakobsbréfi, sem hefur heillað mig frá fermingu og hefur í sífellu ögrað trú minni og heimsmynd með afdráttarlausri kröfu um heilindi.
Guðspjall dagsins orðar með öðrum hætti þá heimsmynd sem birtist í Fjallræðunni í dæmisögunni um verkamenn í víngarði Drottins. Á 2.000 árum hefur merkilega fátt breyst í samfélagsgerð okkar. Samfélag manna er jafn drifið af auðsöfnum, ofbeldismenningu og áherslum á valdastiga í dag og það var í Rómarveldi til forna, þar sem valdshafar upphófu frið sem byggði á ógnarjafnvægi. Jesús spyr, hvað ef framlag verkamanna verður í raun ekki mælt með mælikvörðum vinnustunda og verðmæti einstaklingsins ekki með veraldlegum gæðum? Hvað ef öryrki og afreksmaður eru jafngild og ævistarf og stundarframlag yrði lagt að jöfnu? Þannig eru lögmál guðsríkisins ólík þeirri samfélagsgerð sem við teljum vera náttúrulögmál.
Guð elskar alla jafnt og metur framlag allra til sömu launa, ,,þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.” Hugmyndin um guðríkið er í raun svo framandi að hún snýr öllum viðmiðum mannlegrar hugsunar á hvolf. Boðskapur Jesú hefur haft afgerandi áhrif á gildismat okkar, að því leiti að hugmyndin um mannhelgi og jöfnuð er okkur að sönnu töm, en í reynd er hún algjörlega framandi. Okkur er sem dæmi allt að því eðlislægt að meta hærra til launa þau er sýsla með veraldleg verðmæti, lægra þau er vinna með fólki og lægst þau sem ör-yrkja og leggja lítið til af vinnustundum og færni. Slíkt verðmætamat er svo sjálfgefið að hugmyndin um jöfnuð virðist jafn framandi og afnám þyngdaraflsins.
Krafa Fjallræðunnar og Jakobsbréfs er sú að við metum öll jafnt, að við lítum meðbræður okkar og systur með augum skaparans og mælir framlag okkar með því einu hvernig að við mætum þörfum þeirra sem minnst mega sín. Fjallræðan er fyrirvaralaust áhrifamesta ræða mannkynssögunnar og kennsla hennar hefur verið upphafin og rægð á víxl frá því höfundar fóru að vinna með hana. Kirkjusagan geymir 2.000 ára óslitna viðtökusögu, sem hefst að mínu mati með Jakobsbréfi – elstu túlkun hennar.
Það eru mín forréttindi að mega rannsaka ritningarnar næstu árin og þó skerfur minn til fræðanna kunni að verða takmarkaður, er það skylda okkar sem kennum okkur við kristni að halda á lofti þeim boðskap sem þar birtist. Boðskap um mannhelgi og jöfnuð og kröfuna um að mæta þörfum þeirra sem minnst mega sín. Guð gefi okkur náð til að standa undir þeirri kröfu, sem kirkja, söfnuður og manneskjur í samfélagi við Guð.