Enn eru þau komin, jólin – og við til þeirra.
Gleðilega hátíð. Guð gefi að við eigum öll ánægjulega daga framundan. Það er líka ánægjulegt að heyra hér lítilsháttar í yngstu kirkjugestunum, skynja eftirvæntingu þeirra. Þannig er það hér og vafalaust í mörgum kirkjum á þessari stundu. Biðin eftir jólunum er loksins á enda – eða næstum því. Í dag var sýnt jólatengt barnaefni í sjónvarpi til þess að auðvelda og stytta biðina. Ungur drengur, Karl Guðjón, var heima í dag að horfa á „Polar-expressen.“ Þegar lestin brunaði á skjánum spurði Karl litli frænda sinn hvert lestin væri að fara. Og frændi svaraði: „Hún er að fara á Norðurpólinn.“ Og Karl svaraði: „En ég er að fara í Dómkirkjuna.“ Og hingað er hann kominn að leggja grunn að góðri jólavenju.
Jólin eru einstök og sannarlega er mikils af þeim vænst. Við, langflest í landinu, höfum undirbúið mikla hátíð, lýst upp, skreytt og keypt. Nú er tími til að njóta. Bestu kræsingar verða á borðum, allt hefur stefnt til þess að fólki megi líða vel.
Saman slógum við víst öll met í jólaverslun í ár – og metið hafði fallið mörgum sinnum áður, kannski á hverju ári, það kemur ekki fram í fréttum.
En nú ætlum við ekki að hugsa um það. Við sláum nefnilega mörg önnur met um jólin. Við njótum ekki bara efnislegra jóla. Framundan eru dýrmætari dagar og stundir með fjölskyldum, ástvinum og vinafjöld en endranær. Tímabil heimsókna og vinafunda miklu meira en á öðrum tímum ársins – nema ef vera skyldi kringum fermingarnar á vorin.
Fleiri met falla; við lesum fleiri bækur, höfum meira svigrúm fyrir tómstundir og kyrrðarstundir en í annan tíma. Samskiptin eru innilegri, við erum hjartanlegri hvert við annað. Við sjáum það einhvern veginn betur á jólum hvbernig líf okkar tvinnast saman, sjáum það skýrt á þessu heilaga kvöldi.
Þið sem hlustið en eruð ekki með fólkinu ykkar í kvöld, þið sem eruð við skyldustörf eða á sjúkrahúsum eða í fangelsum eða fjarri fjölskyldu af öðrum ástæðum.
Og þau okkar sem lifa breyttar aðstæður í nánustu fjölskyldu, hafa misst kæran ástvin, vin. Hugur okkar hinna er nú hjá ykkur með sérstökum hætti. Því að jólin er tími viðkvæmra tilfinninga bæði gleði og saknaðar, eftirsjár.
Þannig minnumst við líka liðinna jóla. Þess vegna komum við hingað. Við viljum bæta og auðga líf okkar með jólahaldinu. Í heimi okkar getur allt breyst. Þess vegna er endurtekningin kærkomin. Við erum íhaldssöm á góðar venjur um jólin sem hafa reynst okkur vel. Það eru reynslurökin okkar fyrir trúnni. En eins og gamli maðurinn sagði: „Af öllu því sem ég hef týnt og misst um dagana þótti mér verst að missa minnið.“
Þjóð getur líka misst minnið sitt. Hún getur orðið fyrir því að þrengja sjónhringa sína. Lífið er býsna snautt hjá minnislausum manni. Ef ég missti nú minnið gæti ég samt smám saman áttað mig á því af nýrri reynslu hvað mér félli vel og hvað miður. Vissulega er alltaf gaman og gott að kynnast nýju á hverjum degi. En það er vegna þess að við söfnum í reynslusjóð. Reynsluforðinn hjálpar okkur til þess að ráða æ betur við verkefni lífsins. Minnislaus maður ræður illa við líf sitt. Út frá þessu spurði ég kunningja minn um daginn á förnum vegi: Getur það verið að þekkingarleysi og skeytingarleysi verði nú æ meir áberandi í íslensku samfélagi?
Og hann svaraði kíminn: „Ég veit það ekki – og mér kemur það ekki við.“
Við höfum tíma til þess að byggja upp líf okkar, við höfum valið og við erum að velja þau gildi og grundvallarviðhorf sem skulu móta líf og samfélag. Það verður ekki gert án þess að hafa gott minni, sem þjóð og fólk.
Jólaguðspjallið er lifandi þáttur í lífi okkar.
Sagan sem gerðist rétt hjá Betlehem við krappar aðstæður af því að ekki var rúm fyrir þau í gistihúsi. Það var ekki pláss fyrir Jesú Krist til að fæðast annars staðar.
Kristindómurinn er fagnaðarerindi og sá fögnuður á upphaf sitt í Betlehem. Hann er fluttur þér og mér, persónulega. Okkur er frelsari fæddur. Það er boðskapur hinna sönnu jóla. Það er boðskapur frá himninum,- jólagjöfin í ár og alltaf. Mennirnir fundu ekki upp jólin. Þau eru frá Guði komin. Jesús kom. Þá breyttist allt. Það er söguleg staðreynd – og einnig það að enginn hefur haft jafn afgerandi áhrif á lífið á Jörðinni og einmitt hann. Hann kemur nú til þín og á heimili þitt – ef hann er boðinn.
Enginn þarf að óttast að Jesús sé of fínn eða merkilegur með sig til þess að koma á heimilið hans. Aðstæður Jesú Krists geta líka hughreyst okkur ef okkur þykir illa ganga. Þá spyr hann: Ertu fátækari en ég var þegar ég fæddist og var lagður í jötu? Svo fátækur var ég og þó skorti mig aldrei neitt. Ég kom til þess að hjálpa, lækna, frelsa heiminn. Í því hlutverki er fólgið hið sanna ríkidæmi; þar er jólagleðin, fögnuðurinn allur og heill.
“Guð er sjálfur gestur hér…” og ekki aðeins gestur, hann er kominn til að vera. Ganga með þér gegnum lífið, frá degi til dags við hlið þér, með von og trú, bæn og blessun.
Góðir vinir. Þegar gleðin og fögnuðurinn ríkir verður tilfinningin næmari og sterkari fyrir þeim og gagnvart þeim sem hafa orðið fyrir áföllum.
Mér er minnisstæð lítil stúlka og fjölskylda hennar. Emma Katrín var efnileg, hæfileikarík stúlka og dóttir og systir. Hún veiktist og dó. En nokkru áður hafði hún samið ljóð við lag sem hún spilaði á píanóið sitt – og ljóðið, kveðjuljóðið hennar er svona:
Vagga þér vært, þú sefur rótt. Nóttin kemur senn. Sofðu nú vært í alla nótt. Guð geymi alla menn.
Litla stúlkan flutti bæn og nú leggur hún fram þessa bæn. Hún er hluti lífs okkar eins og þau öll sem við höfum kvatt. Guð geymir alla menn. Þau halda nú himnesk jól og við ásamt þeim í samfélagi heilagra á himni og jörðu.
Þegar samveru okkar í messunni lýkur á eftir, þegar við stöndum upp frá hátíðarborði í kvöld, þegar kyrrð verður komin á, þá skulum við gefa okkur tíma til að ganga út í kvöldið og sökkva sjóninni og huganum í djúp næturblámans og glitrandi stjörnugrúann - eins og Sigurður Nordal orðar það. Og segir síðan: „Horfðu inn í augu barns á fyrsta ári þegar það fellur í stafi yfir einhverju sem þér er fyrir löngu farið að þykja hversdagslegt, og minnstu, hvað þrátt fyrir alla smæð þína er merkilegt að vera manneskja og ekki stokkur eða steinn.“
Manneskjan er óendanlega dýrmæt í augum Guðs. Ekkert lætur hann slökkva það líf sem hann hefur vakið og veitt. Megi gleðiboðskapur hans á heilögum jólum berast hverri sál, auðga anda kærleikans, ljóssins og lífsins. Í Jesú blessaða nafni.
Gleðileg jól.