Þú verður örugg því að enn er von, nýtur verndar og sefur óhult. Job 11.18
Sú heilbrigða getur átt þúsund óskir en sú sem berst við krabbamein á aðeins eina ósk - að verða heil á ný.
Við sem komum saman hér í dag, á kvennafrídeginum 24. október, sameinumst í þessari ósk til handa öllum konum sem berjast við krabbamein í líkamanum sínum. Við komum saman til að sýna samstöðu með þeim sem berjast við krabbamein. Við komum saman til að tjá þakklæti okkar fyrir þau öll sem leggjast á sveif með þeim, fyrir heilbrigðisstarfsfólk og stuðningsaðila. Við komum saman til að minnast þeirra sem sem eru farnar í himininn til Guðs og eru okkur kærar. Við minnumst þeirra með söknuði og þakklæti fyrir allt sem þær voru okkur og gáfu okkur.
Kona hét Anna Pálína Árnadóttir, listakona og snillingur, sem skrifaði eftirminnilega bók um lífið með krabbameininu, meðferðunum og öllu því sem þyrlast upp við slíka lífsreynslu. Þar setur hún m.a. fram þessa beittu vangaveltu:
Ef guð hefur sent mér krabbameinið, hugsa ég, til þess að ég geti lært af því, get ég þá ekki sent það aftur til guðs og þakkað fyrir lánið?
Þarna orðar Anna Pálína svo vel hvernig það er að standa í þeim sporum að vera með krabbamein og reyna að fá botn í það sem er að gerast. Spurningar eins og til hvers, og hvers vegna ég, leita á hugann. Engin vill vera í þessum sporum. En svo stendur þú allt í einu einmitt þar. Það hlýtur að vera einhver tilgangur með því að ég fái þetta verkefni, getum við hugsað, já kannski er það til að ég geti lært af því og orðið betri manneskja?
En alveg eins og Anna Pálína viljum við ekki sitja uppi með verkefni sem er okkur svo andsnúið og krefst svo mikils. Við myndum gjarnan vilja skila því. Ef Guð hefur lagt á okkur verkefnin sem við þurfum að fást við, hlýtur Guð að geta létt þeim af okkur.
Já, mikið væri gott að geta skilað því til baka sem er lagt á okkur og við þurfum að bera einar. Það er víst ekki þannig. Hvort sem það er krabbamein, þunglyndi, fíkn eða brotið hjarta, verður kona að takast á við verkefnið sem henni hefur verið úthlutað og standa með sjálfri sér. Og leyfa öðrum að standa með sér líka. Því við erum ekki einar og þurfum ekki að berjast einar.
Kvennafrídagurinn minnir okkur á hvernig samstaða kvenna kemur góðum hlutum til leiðar. Það sem virtist vera lögmál - eins og launamunur kynjanna, eða kynbundið ofbeldi - er ekkert óbreytanlegt lögmál, heldur ranglæti sem hægt er að vinna bug á með því að standa saman og nota sameiginlega krafta okkar til að koma góðu til leiðar.
Eins er krabbamein og baráttan gegn því samfélagsmál en ekki einkamál. Þú ert ekki ein þegar þú greinist og þú átt ekki að vera ein. Þú átt rétt á stuðningi og úrræðum, þjónustu og umönnun. Þú átt í samferðafólki þínu samhygð, hlýju og hjálp. Þú hvílir í stuðningsneti sem er haldið uppi af öðrum konum, systrum, dætrum, mæðrum, vinkonum. Þú finnur það hér í kirkjunni í dag að við stöndum saman. Þú finnur að enn er von.
Kvennafrídagurinn er dagurinn þar sem við réttum úr okkur, lítum yfir sviðið og horfum á hverja aðra. Og við sjáum að saman búum við yfir gífurlegum krafti. Krafti til að breyta lífi og líðan kvenna á öllum aldri, í öllum stéttum, fatlaðra og ófatlaðra, gagnkynhneigðra og lesbía, heilbrigðra og sjúkra. Kvennafrídagurinn minnir okkur á frelsið sem við allar þráum og eigum að gera að veruleika í lífinu okkar.
Kvennafrídagurinn minnir okkur líka á ábyrgðina sem við höfum gagnvart hver annarri og skylduna sem við allar höfum til að berjast fyrir réttindum kvenna. Sérstaklega þeirra sem veikjast og geta tímabundið eða langvarandi ekki borið hönd fyrir höfuð sér.
Megi stuðningsnetið í kringum þig, megi konurnar í lífi þínu, minna þig á vonina sem þér er ætluð. Megir þú finna í kirkjunni í dag að þú ert umvafin kærleika Guðs, sem er skapari þinn og hefur myndað þig í móðurlífi. Þú verður örugg því að enn er von, nýtur verndar og sefur óhult.
Flutt í bleikri messu á kvennafrídegi.