Fyrir þúsund árum var ákveðið í vesturkirkjunni að hver kristinn maður skyldi ganga til skrifta í það minnsta einu sinni á ári, á föstunni, og vera síðan til altaris á páskum.
Skriftirnar fylgja ákveðinni aðferð sem innifelur játningu syndanna og aflausn, eða fyrirgefningu. Til þess að undirbúa sig fyrir skriftir voru samdar leiðbeiningar fyrir skriftabörn. Þær voru oft kallaðar skriftaspegill.
Skriftaspegillinn er einskonar sjálfsskoðun og sjálfsprófun skriftabarns, frammi fyrir augliti Guðs. Hann er settur saman úr spurningum og íhugunarefnum um trú og breytni. Baksvið hans er alltaf að einhverju leyti Boðorðin 10 jafnvel þó að þeirra sé ekki getið beinlínis. Í bænabókinni aftast í sálmabókinni er einfaldur skriftaspegill til undirbúnings fyrir altarisgöngu. (bls 590-591 eða 813).
Lestu þennan texta sem hér fylgir á eftir og gefðu þér tíma til að íhuga hann. Reyndu ekki að lesa hann hratt yfir. Það er ekki hægt að tileinka sér efni hans á skömmum tíma. Þó að þér geti virst það svo eru setningar og hugsanir ekki settar fram sem réttar eða rangar. Þú getur heldur ekki valið eitthvert sérstakt rétt svar.
Þetta er einfaldlega þitt eigið próf. Þín svör eru rétt.
Ef þér finnst þú eiga í erfiðleikum með skriftaspegilinn, eða að hann veki spurningar sem þú átt erfitt með að svara, leitaðu þá til prestsins þíns og ræddu við hann. Þú getur líka sent tölvupóst á höfund skrifaspegilsins (kvi@hi.is), og þér verður svarað eftir bestu getu. Þar verða líka veittar upplýsingar um skriftaguðsþjónustu í næstu kyrruviku.
Skriftaguðsþjónusta felur í sér almennar skriftir. Það þýðir að allur söfnuðurinn getur tekið þátt í þeim. Skriftaguðsþjónusta fer fram með sérstökum hætti eins og hægt er að sjá hér. Einkaskriftir eru þjónusta sem prestar þjóðkirkjunnar veita. Handbók kirkjunnar veitir leiðbeiningar um það hvernig einkaskriftir fara fram. sjá hér.
* * *
Skriftaspegillinn
Á hvað treystir þú í lífi þínu? Hver er raunverulegur grundvöllur lífs þíns?
Treystir þú á starfskrafta þína, bankainnistæður eða fjármuni, á andlegan styrk og gáfur, á sambönd þín, á staðfestu þína og heiðarleika, á trúrækni þína eða afturhvarf þitt?
Hvað hræðist þú?
Hræðist þú aðra menn eða máttarvöld? Hræðist þú sjúkdóma eða aðra líkamlega neyð? Hræðist þú að bregðast í líkamlegu eða andlegu tilliti? Hræðist þú ellina, eða dauðann?
Hverju tilheyrir hjarta þitt?
Tilheyrir hjarta þitt manneskju, ástríðu, vinnu, fjölskyldu, eignum, listaheiminum, vísindaheiminum?
Og ef Guð tekur þetta allt frá þér, hvað þá?
Hvað merkir í þínum huga nafnið Guð?
Notar þú nafnið hugsunarlaust í máli þínu, óttast þú að játast honum frammi fyrir öðrum, læstu vera guðræknari en þú ert í raun, notar þú nafn Guðs eins og meðal (tæki) til að ná í þína þjónustu yfirskilvitlegum kröftum?
Hvað mótar bæn þína?
Er það er vaninn? Er bæn þín innantóm og kraftlaus? Eru það sérstök tækifæri? Er bæn þín sjaldgæfur viðburður?
Hversvegna biður þú?
Til þess að vilji þinn verði hjá Guði? Til þess að öðlast æðri trúarlega reynslu?
Heldur þú þig við bænina líka þegar Guð virðist ekki heyra til þín?
Hefur þú alltaf munað að þakka Guði?
Líka þegar hann reynir þig? Þakkar þú honum fyrirgefningu syndanna, í neyð og í gleði?
Hvernig lítur sunnudagurinn út?
Leitar þú afþreyingar, óreglu, annarra starfa, heimavinnu, styrkingar fyrir líkama og sál, kyrrðar og friðar. Leitar þú Guðs?
Hvaða máli skiptir hvíldardagurinn?
Skiptir guðsþjónusta og kvöldmáltíð máli í lífi þínu? Forðastu nálægðin við hið heilaga af því að þú vilt ekki leysa þig frá einhverju því sem þú veist að er rangt?
Hvers leitar þú í kirkjunni?
Leitar þú dýrðar Guðs eða eigin uppbyggingar? tilbeiðslu eða hátíðleika? Guðs orðs eða áheyrilegs predikara?
Hvernig þjónar þú í söfnuðinum ?
Hvar er sunnudagur þinn á virkum dögum? Hlustar þú daglega á kall Guðs og leiðsögn hans?
Hvers virði eru þér foreldrar þínir?
Hlustar þú á þá? Annastu þá?
Hver hefur áhrif á börnin þín?
Hefur þú tíma fyrir þau? Lifir þú þannig að það geti verið þeim fyrirmynd?
Hvernig er samband þitt við yfirmann þinn?
Ferðu á bak við hann? Skríður þú fyrir honum/henni? Hvað gerir þú þegar öðrum verða á mistök?
Hvaða ábyrgð berð þú í opinberu lífi sem er í samræmi við gáfur þínar og eiginleika?
Kallar þú órétt órétt,og ekki bara þegar það snerti þig sjálfa(n)? Líka þegar það bakar þér erfiðleika og þjáningu?
Anntu öðrum rýmis til að lifa?
Líka á eigin forsendum þeirra? Minnistu þess að reiði og hæðni, hatur og óvild eru deyðandi kraftur, ekki síður en frelsisskerðing, tillitsleysi og misnotkun. Sérðu ,,hinn” eða ,,hina” með augum bróður eða systur sem Guð hefur gefið þér, eða bara fólk sem er fyrir?
Hvar hefur þú vikið úr vegi fyrir hinum þurfandi sem þarfnast hjálpar þinnar?
Stundar þú rányrkju? Á heilsu þinni? Leyfir þú þér of lítinn svefn? Eða of mikinn? Ertu haldin(n) fíkn? Glímir þú við örvæntingu eða sjálfsvígshugsanir?
Hindrar þig eitthvað í því að verja lífi þínu til heilla fyrir aðra?
Hugleiðir þú fyrir hjúskap ábyrgðina gagnvart hjónabandinu og hegðar þér samkvæmt því?
Hvernig lítur hjúskapurinn út? Flýrðu frá honum inn í vinnuna, eða skemmtunina eða framhjáhaldið eða hugðarefnin? Hefur þú tíma fyrir maka þinn? Gefur þú honuum nauðsynlegt frelsi? Stendur önnur manneskja milli þín og hennar /hans? Eru börnin bara byrði?
Er þér hjúskapur annarra ósnertanlegur?
Tekur þú á móti því að vera ógift(ur), eins og gjöf úr Guðs hendi?
Hvað gerir þú fyrir heilbrigt líf safnaðarins?
Berðu virðingu fyrir eigum annara. Hefur þú hluti í þinni forsjá sem aðrir eiga? Hefur þú auðgast á kostnað annarra? Stelur þú með slakri vinnu?
Hvernig eignast þú peninga?
Með heiðarlegri vinnu, vafasömum viðskiptum, eða fjárhættuspili?
Þjóna eignir þínar gleði og hjálp?
Axlar þú þinn skerf í almennum byrðum? Gengur þú um þær eignir sem þér hafa fallið í hlut af hófsemi og samviskusemi?
Um hvað talar þú?
Um galla annarra? Um eigin árangur? Hefur þú skaðað einhvern með orðum þínum eða borið út óhróður um aðra manneskju? Ertu fljót(ur) að dæma aðra, en sein(n) til afsaka þá. Hefur þú varðveitt leyndarmál sem þér var trúað fyrir?
Meinar þú það sem þú segir?
Segir þú það sem nauðsynlegt er, þegar það er nauðsynlegt? Gætir þú að því að sannleikurinn sigri í baráttunni við lygina? Ertu trygg(ur) í fyrirbæninni einmitt fyrir þeim sem þú átt í erfiðleikum með?
Hefur þú hugað að því að Guð setur gáfum þínum, áhrifum þínum, valdi þínu, lífi þínu, sérstök mörk sem þú skalt ekki fara yfir?
Hvernig mætir þú kröfu Guðs þegar hann gerir tilkall til lífs í þjónustu?
Hefur þú dregið þig í hlé?
Ertu þér þess vitandi að þú tilheyrir Kristi fyrir skírn þína ?
Ertu tilbúinn að mæta dómi Guðs á hverjum degi, eða réttlætir þú þig sjálf(ur)?
Gjört eftir fyrirmyndum úr þýskum bænabókum, sérstaklega: Allgemeines Evangelisches Gebetbuch, 1971, 3.,verbesserte Auflage Furche-Verlag Hamburg